c

Pistlar:

26. september 2017 kl. 22:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur: Ævintýralíf Birkis Baldvinssonar

Líf Birkis Baldvinssonar er um margt ævintýralegt. Það á reyndar við um líf flestra þeirra Íslendinga sem tengdust hinni ótrúlegu útrás íslenska flugheimsins á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Og margir þeir sem þar voru í aðalhlutverki hafa fengi lífshlaup sitt skráð, ýmist í formi ævisögu eða viðtalsbókar. Hér er viljandi gerður greinarmunur á því og sú bók sem hér um ræðir fellur í seinni hópinn.  Skrásetjarinn fer þá leið að láta Birki tala og virðist ekki skipta sér mikið af frásögninni, varla að hann setji inn nauðsynlegar staðreyndir eins og ártöl eða full nöfn þeirra sem rekast utan í ævi Birkis. Það er ekki fyrr en í lok bókar, þegar færi gefst á að lesa stutt bréf eiginkonu Birkis, að lesandinn fær almennilegt yfirlit yfir tímaröð atburða. Það er vitaskuld fullmikill galli á ævisögu þó frásögnin sé að mestu í réttri tímaröð.

Flugið kallar á ævisögur

Eins og áður sagði hefur verið unnið talsvert starf við að skrá sögu flugsins hér á landi og þeirra frumkvöðla sem komu að stofnun Loftleiða á sínum tíma og hófu flug yfir Atlantshafið. Þar er fremst í flokki ágæt ævisaga Alfreðs Elíassonar, „Alfreðs saga og Loftleiða” eftir Jakob F. Ásgeirsson rithöfund. Einnig er vert að geta ævisögu Sigurðar Helgasonar „Í sviptivindum", eftir Steinar J. Lúðvíksson. Sigurður og Alfreð tókust lengi á um stefnu í málum stærstu flugfélaga landsins og deilan milli Loftleiðamanna og þeirra hjá Flugfélagi Íslands kristallaðist í því. Báðar þessar bækur fjalla eins og saga Birkis talsvert mikið um rekstrarhlið flugsins. Þá má geta ævisögu Gunnars Björgvinssonar sem undirritaður hefur lesið þó hún hafi ekki farið í almenna dreifingu. Birkir og Gunnar áttu mikið saman að sælda enda báðir með bakgrunn sem flugvirkjar en urðu síðar umsvifamiklir í viðskiptum. Saga þeirra skarast mikið eins og frásagnir beggja sýna. Þá má ekki gleyma ævisögum Þorsteins E. Jónssonar (Steini flug) sem lifði viðburðaríka ævi eins og hann tíundaði í sögum sínum sem hann skrifaði sjálfur. Þær voru „Dansað í háloftunum", sem kom út 1992 og  „Viðburðarík flugmannsævi" sem kom út árið eftir en þær komu síðar út á ensku.Allt-mitt-líf-frontur

Úr sárri fátækt

En víkjum aftur að ævisögu Birkis sem kom út í lok síðasta árs. Um flugsöguna segir Birkir: „Flugsagan er full af skrautlegum sögum eins og nærri má geta í jafn ævintýralegri atvinnugrein og þeirri sem flytur heilu farmana af fólki á milli landa og álfa, oft á tíðum í æði skrýtnu ástandi sem getur stafað af ytri og innri orsökum, svo sem óveðri og áfengi - og þá er fátt eitt nefnt.” (Bls. 100) Skrautlegar sögur, það lýsir dálítið upplegginu hér.

Í kynningu á bókinni er bent á að það sé langur vegur frá verkamannabústöðum á Siglufirði eða saggafullum kjallara í Keflavík til þess að halda heimili í þremur heimsálfum og stunda milljarða viðskipti. Þannig er ævi Birkis, svolítið saga ameríska draumsins á Íslandi. Saga Birkis er óumdeilanlega saga „self-made man". Þannig tónar saga hans við sögu margra annarra landsmanna, hvernig Íslendingar brutust úr örbirgð til bjargálna, sem sannarlega er saga 20stu aldar hér á landi. Saga Birkis hófst við sára fátækt og lærdómur Birkis birtist í þessum orðum:

„Siglufjörður kenndi mér líka að fara vel með peninga og bera virðingu fyrir verðmætum. Það er ómældur lærdómur fólginn í því að eiga ekki fyrir nauðsynjum og hafa fundið til skorts og vanefna. Gleðin yfir því litla sem maður þó hefur er því meiri. Og kætin yfir að eignast eitthvert lítilræði er þeim mun sannara. Ég gleymi ekki öllum dögunum sem mamma hafði það ekki í sér að leita enn og aftur ásjár hjá kaupmanninum. Og heldur ekki augnaráðinu sem hún gaf mér þá gjarnan; hvort ég væri tilbúinn að skottast þetta fyrir hana? Að þurfa að láta skrifa í reikning hjá Fanndal í von um gott síldarsumar til að standa við greiðslu kenndi manni ekki einasta að fara vel með peninga, heldur var sú lífsreynsla líka mikil hvatning til að fara seinna meir til náms og nýrra landvinninga. Og svei mér þá ef viðskiptavitið, ef eitthvert er, á ekki líka bakgrunn sinn á Norðurgötunni.” (Bls. 287)

Að skapa eigin örlög

Hér í umsögnum hefur áður verið fjallað um ævisögu manna sem skópu örlög sín sjálfir. Óskar Jóhannsson kaupmaður kom úr sárri fátækt að vestan eins og var rakið í bernskuminningabók hans (Bernskudagar, sem kom út fyrir 2013) og náði með ótrúlegum dugnaði og elju að koma undir sig fótunum. Í umsögn hér á sínum tíma var bent á að vafasamt væri að kalla Óskar ríkan mann þó hann hafi komist í þokkalegar álnir. Um það sagði: „Maður eins og hann hefði sjálfsagt orðið efnaður í Bandaríkjunum, þar sem hann hefði ekki þurft að glíma við höft, verðstýringu og endalaust stjórnlyndi. Óskar er sjálfstæðismaður, trúir á sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins og frelsi til athafna. Þegar starfsumhverfi hans er skoðað er eðlilegt að hann hafi mikla ótrú á þeim höftum sem sett eru á athafnamennsku og frumkvæði hér á landi. Það má Óskar hins vegar eiga að hann missir aldrei trúna á sjálfan sig og að hægt sé að geta hlutina betur, til hagsbóta fyrir sig og aðra.”

Birkir og reyndar Gunnar Björgvinsson líka ákváðu að freista gæfunnar erlendis og efnuðust líklega langt umfram Óskar. Það á líka við um flesta þá Íslendinga sem hafa auðgast umtalsvert, þeir hafa orðið að leita út fyrir landsteinanna. En á þessari leið hefur Birkir lent í mörgum ævintýrum, jafnt á landi sem skýjum ofar. Hann kemur sér í gegnum erfitt flugvirkjanám sem hefur án efa ekki verið auðvelt sé tekið tillit til aðstæðna hans. Hann verður lykilmaður í starfsemi Loftleiða á meginlandi Evrópu og tekur þátt í uppgangi Cargolux. Það dylst engum að hér er lýst ævi kraftmikils og dugandi manns og við fáum innsýn í forvitnilegan heim.

Eins og áður sagði þá er frásögnin skráð í fyrstu persónu, Birkir er sögumaðurinn og líklega er skrásetjarinn að gefa honum orðið þegar kemur að stíl. Frásögnin er þannig margorð um margt án þess að vera ítarleg, öfugt til dæmis við sögu Óskars Jóhannssonar sem vikið var að hér að framan. Það örlar jafnvel á tilgerð í stíl bókarinnar sem er þreytandi til lengdar. „Það virtist fara hrollur um frónska valdheima…” (Bls. 229) er eitt dæmi af mörgum.  Margar lýsingar eru þó fjörlegar og það er gaman að samanburði Birkis á ólíkum þjóðum. Margt í frásögninni er upplýsandi fyrir þá sem hafa áhuga á flugsögunni.

Grobbsögur

Ævisögur eru mikilvægur þáttur í íslensku bókmenntalífi. Ekki er langt síðan undirritaður endurnýjaði kynni sín við ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar. Sú bók er einstök heimild um mannlíf þeirra tíma sem Árni lifði og ekki síður um hugsunarhátt fólks. Og svo er hún líka einstaklega skemmtileg. En Þórbergur Þórðarson skráði líka ævisögu athafnamanns, sögu Einars ríka úr Vestmannaeyjum. Í umsögn Árna Bergmanns í Þjóðviljanum á sínum tíma taldi Árni söguna ansi mikið grobb, hugsanlega var hann þar að fylgja ritstjórnarstefnu blaðsins sem var heldur andsnúin auðsöfnun og auðmönnum. Árni vitnar til þess að sjálfur hafi Þórbergur sagt við Einar undir lok þriðja bindis: „Hefurðu ekki veitt því eftirtekt, að ævisaga þín er eintómt gort eins og flestar aðrar ævisögur?" En hafi ævisaga Einars ríka verið gort þá var ævisaga Árna Þórarinssonar það líka og reyndar einnig ævisaga Birkis Baldvinssonar. Það er óhjákvæmilegt að þær ævisögur sem skráðar eru meðan viðfangsefnið er á lífi verða í þeim anda. Ævi þeirra er jú skráð af því að þeir hafa áorkað einhverju. Og menn áorka einhverju af því þeir hafa trú á sjálfum sér. Það skín í gegnum ævisögu Birkis Baldvinssonar. Ekki verður séð að Birkir hafi haldið dagbækur eða annað það sem getur stutt við minni hans en víða í fjölmiðlum má sjá frásagnir sem tengjast lífi hans. Þó að hann hafi að mestu haldið sig erlendis þá barst hann endrum og eins inn í íslenskt viðskiptalíf. Af því eru nokkrar frásagnir. Líklega er þar forvitnilegast uppgjör hans við íslenska bankakerfið en þar tapaði hann 500 milljónum króna. Nafnaskrá hefði verið þægileg viðbót við bókina.  

Allt mitt líf er tilviljun

Ævisaga Birkis Baldvinssonar

Höfundur:  Sigmundur Ernir Rúnarsson

Útgefandi: Forlagið

Útgáfuár: 2016

311 bls.

 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.