c

Pistlar:

12. desember 2017 kl. 15:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Peningar streyma í gervigreindina

Gervigreind er án efa sú grein tækniiðnaðarins sem mesta eftirtekt vekur um þessar mundir og fjármunir streyma inn í rannsóknir og þróun á því sviði. Í hugum fjárfesta er þetta heitasti staðurinn til að vera á (nema ef menn hafa smekk fyrir Bitcoin!) Staðreyndin er sú að gríðarlegir fjármunir streyma nú í gervigreindarrannsóknir hverskonar, mest þó fyrir tilstyrk tæknirisanna Alphabet (Google), Facebook, Microsoft, Apple og Amazon. Í Kína setja Alibaba og Baidu mikla fjármuni í gervigreind.

Áhættufjármögnun á sviði gervigreindar nam 7,6 milljörðum Bandaríkjadala á fyrstu 9 mánuðum ársins samkvæmt samantekt PirchBook sem er veruleg aukning frá fyrra ári. Allt árið 2016 var fjárfest fyrir 5,4 milljarða dala og var þar einnig um að ræða umtalsverða aukningu frá árinu á undan. Þetta kemur til viðbótar áætluðum kaupum og samrunum (M&A) upp á 21,3 milljarða dala í fyrirtækjum sem tengjast gervigreind. Það er 26 sinnum hærri velta en var á þessum markaði árið 2015. Engum blöðum er um það að fletta að þangað leita peningarnir í dag.ai  

Ræna risarnir gervigreindinni?

Eins og áður sagði þá ætla tæknirisarnir ekki að láta þessu nýju tækni framhjá sér fara og hafa þeir farið mikinn við uppkaup á fyrirtækjum og yfirboð gagnvart þeim sem hafa einhverja þekkingu til að bera. Árið 2014 keypti Alphabet fyrirtækið DeepMind fyrir háa fjárhæð og það virðist vera að borga sig. Nýjasta afurð DeepMind, AlphaZero algóriþminn, virðist þannig hafa til að bera getu sem menn eru enn að meta. Forritið var fært um að læra skák upp á eigin spýtur á fjórum tímum og sigra í framhaldi þess nánast fyrirhafnarlaust sterkasta skákforrit í heimi. Þessi geta er reyndar ekki alveg ný því fyrir einu og hálfu ári nýttist algóriþminn til þess að lækka orkukostnað gagnavera Google um 40%.

En eðlilega má hafa nokkrar áhyggjur af því ef þessir tæknirisar stýra allri þróun á sviði gervigreindar. Ekki aðeins vegna samkeppnissjónarmiða heldur má einnig sjá fyrir sér siðferðilega vankanta á því. Það er jú þannig að þessi stóru fyrirtæki hafa allt sem þarf til að leiða breytingar á sviði gervigreindar; gríðarlega fjárfestingagetu, óheyrilegar upplýsingalindir (data) og gagnaver og vinnsluminni sem við höfum ekki séð áður í sögunni. Yfirburðir þessara risa sjást með skýrum hætti þegar staða Alphabet, móðurfélags Google, er skoðuð. Ef tekið er mið af þróunarverkefnum þeirra er ekki ólíklegt að við munum í framtíðinni keyra um í Waymo sjálfkeyrandi bílum frá Alphabet, við borgum fyrir það í gegnum síma með Android-stýrikerfi, horfum síðan á YouTube til að slaka á og flökkum um á vefnum með búnaði frá Google. Af þessu sést að fyrirtæki eins og Alphabet geta og ætla sér að nýta gervigreind til að efla enn frekar markaðsyfirburði sína.

Mikilvægi upplýsinga

Auðvitað getur framþróunin oltið á því hve miklu máli aðgangur að gögnum skiptir. Engin efast um að áðurnefnd tæknifyrirtæki ráða yfir gríðarlegum upplýsingum og í sumum verkefnum þeirra hefur verið aflað óheyrilegra gagna. Nefna má að við þróun á Waymo hafa verið eknir um 6,5 milljón kílómetra á venjulegum vegum. Á sama tíma er mögulegt að Tesla geti aflað sér þessara og reyndar miklu betri upplýsinga úr ökuritum þeirra bíla sem þegar hafa verið seldir. Önnur fyrirtæki, eins og Mobileye reyna að safna sem mestum upplýsingum á annan hátt til þess að komast inn í keppnina þó síðar verði. Félagið er í eigu Intel en sjálfsagt hyggjast menn nýta sér þessar upplýsingar þegar og ef stóru bílaframleiðendurnir stiga inn í samkeppnina um sjálfkeyrandi bíla og búnað þeim tengdan. Allt er þetta til marks um að gervigreind og aðgangur að víðtækum upplýsingum getur breytt samkeppnisumhverfi skjótt.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.