c

Pistlar:

2. febrúar 2016 kl. 10:44

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Seðlar og svindl

Það vakti athygli á síðasta ári þegar Morgunblaðið greindi frá því að konu nokkurri hefði verið meinuð afgreiðsla í Hagkaupum í Garðabæ. Þar ætlaði hún í sakleysi sínu að greiða fyrir vörur með tíu þúsund króna seðli en afgreiðslumaðurinn á kassa var nú ekki aldeilis á því. Hann spurði: „Er þetta eitthvert djók“ og þverneitaði að taka við seðlinum sem hann sagði að væri ekki íslenskur gjaldmiðill! Ástæðan fyrir þessum misskilningi var sennilega sú hve 10.000 kr. seðlar eru sjaldgæfir meðal almennings hér á landi.

10000

 

 

 

 

 

 

Gjaldmiðill undirheima
Því er reyndar haldið fram að stórir seðlar séu mest notaðir í svörtum viðskiptum og í undirheimum samfélagsins. Að minnsta kosti er víst að glæpamenn eru mjög áhugasamir um stóra peningaseðla enda felst gagnsemi reiðufjár í því að það er nafnlaust og yfirleitt órekjanlegt. Samkvæmt könnun sem Breska SOCA stofnunin (Serious Organised Crime Agency) stóð fyrir kom í ljós að 90% af öllum 500 evra seðlum í UK voru í höndum skipulagðrar glæpastarfsemi! Í kjölfarið, árið 2010, var Bresku gjaldeyrismiðluninni (Bureaux de Change) bannað að selja 500 evra seðla í Bretlandi.

500

Þegar 500 evra seðillinn leit dagsins ljós árið 2002 fékk hann fljótt viðurnefnið Bin Laden, því að mjög fáir höfðu séð hann þó að tilvist hans væri vel kunn! Síðla árs 2011 voru 600 milljónir 500 evra seðla í umferð á Evrusvæðinu – þrátt fyrir að peningaseðill með svo háu verðgildi sé mjög óhagkvæmur sem daglegur greiðslumiðill og varhugavert að bera hann á sér. Það skiptir kannski töluverðu máli að ein milljón breskra punda í £20 seðlum vegur 50 kg en sama upphæð í 500 evra seðlum vegur aðeins 2,2 kg. Þessi gríðarlegi munur á fyrirferð og þyngd varpar ljósi á mikilvægi aðgengis að stórum peningaseðlum fyrir skipulagða glæpastarfsemi.

Eflaust er allt í stakasta lagi með notkun 10.000 kr. seðla hér á landi og fráleitt að bera verðgildi þeirra saman við verðgildi 500 evra seðla sem eru sjöfalt verðmeiri. Áhugavert væri hins vegar að vita hverjir nota helst 10.000 kr. seðlana á Íslandi. Í október 2013 var nýr 10.000 kr. seðill settur í umferð. Tilgangur með útgáfu hans var að gera greiðslumiðlun á Íslandi hagkvæmari, m.a. með því að fækka seðlum í umferð. Nú er hlutur tíu þúsund króna seðílsins að því er best verður vitað kominn yfir 20% af heildarverðmæti seðla í umferð en hlutur 5.000 kr. seðilsins líklega kominn niður í rúm 60%.

Suðræn sveifla
Í löndum S-Evrópu er notkun seðla (reiðufjár) miklu meiri en í álfunni norðanverðri. Á Grikklandi og Ítalínu hafa svarti markaðurinn og undanskot frá skatti átt stóran þátt í að eyðíleggja hagkerfi þessara landa. Það vakti líka athygli þegar húsnæðisverð á Spáni hækkaði skyndilega í kjölfar þess að Þjóðverjar skiptu úr þýskum mörkum sem opinberum gjaldmiðli yfir í evrur árið 1999. Ástæðan var sú að það var allt of hættulegt fyrir glæpasamtök að reyna að skipta stórum upphæðum í þýskum mörkum yfir í evrur. Millileikurinn fólst í því að fjárfesta í húsum á Spáni þar sem algengt var að greiða fyrir stórar eignir með seðlum og þýsku mörkin boðin velkomin.

Reiðufé og rafræn viðskipti
Almennt er talið að rafræn viðskipti dragi úr svörtum viðskiptum og svindli miðað við notkun reiðufjár. Þegar um falsaðar innistæður er að ræða er vissulega einnig hægt að svindla rafrænt, en á einhverjum tímapunkti er fjármunum skipti yfir í seðla, vegna þess að án þessa þreps gætu yfirvöld rakið ferli fjármunanna alla leið að viðtakendum. En reiðuféð rýfur rafrænu keðjuna og eyðileggur þar með rekjanleikann. Að taka reiðufé út fyrir sviga, og þá sérstaklega seðla með hæstu verðgildin, myndi gera sumar tegundir glæpastarfsemi illframkvæmanlegar auk þess að svört atvinnustarfsemi hyrfi nánast og verulega drægi úr skattsvikum.

Reiðufjárlausar verslanir hafa miklu minna aðdráttarafl fyrir þjófa. Rafræn viðskipti draga ekki aðeins úr hættu á búðarránum og þar með hættu fyrir starfsfólk. Korthafar njóta þessa öryggis líka – fólk þarf ekki að burðast með lausafé á sér, glatar því ekki reiðufé og kortin eru varin gegn þjófnaði. Slíkt öryggi er hægt að meta til verðmæta í samfélaginu. Það er því réttmæt spurning hvort verslunum ætti að vera í sjálfsvald sett hvort þær taka við reiðufé eða ekki. Danska verslanakeðjan Dansk Supermarket gerir t.d. ráð fyrir því að geta sparað tugi milljóna danskra króna árlega í framtíðinni með því að lágmarka upphæð reiðufjár í verslunum sínum.

Ísland – land greiðslukorta
Greiðslukort njóta greinilega lýðhylli á Íslandi því að Ísland er nú það land í heiminum sem kemst næst því að vera seðlalaust samfélag. Um allt að 80% af greiðslum fyrir verslun og þjónustu eru framkvæmd með greiðslukortum á móti 20–25% að meðaltali í Evrópu. Af þessu leiðir að reiðufjárnotkun í virkri greiðslumiðlun er hvergi minni meðal þjóða heimsins en hér á landi. Meðal kostanna við rafræn kortaviðskipti má nefna aukið gegnsæi, allt er uppi á borðinu og undanskot frá skatti minni.

Visa

Það er stór munur á að rétta manni, sem lagar þakið á húsinu þínu eða vinnur á barnum þínum, peningaseðla eða leggja rafrænt inn á reikninginn hans. Síðari greiðslumátinn er rekjanlegur og þar með er stigið yfir ákveðna línu. Við þetta bætist siðferðilegt fordæmi. Þeir sem eiga hlutdeild í skattsvikum með peningagreiðslum undir borðið geta kannski afsakað sig með því að margir aðrir geri slíkt hið sama. En í samfélagi þar sem langflestir greiða skatta og skyldur lögum samkvæmt, verður þrýstingurinn meiri á að breyta rétt. Slíka viðhorfsbreytingu má meta til verðmæta í samfélaginu.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira