Pistlar:

8. júní 2016 kl. 16:05

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Skella íslensk stjórnvöld aftur á Lars Christensen?

Hinn kunni hagfræðingur, Lars Christensen, kynnti nýverið skýrslu sína um íslenska orkumarkaðinn, Our Energy 2030, sem hann vann fyrir Samtök iðnaðarins. Í skýrslunni undirstrikar Lars m.a. að þörfina á að komið verði á raunverulegri samkeppni á íslenskum orkumarkaði.

Lars leggur til að Landsvirkjun verði skipt upp í smærri einingar og að fjárhagsleg tengsl fyrirtækisins við Landsnet verði aðskilin. Lars telur einnig vænlegt að komið verði á laggirnar sérstökum auðlindasjóði sem m.a. taki við tekjum þjóðarinnar af orkuauðlindinni. Sjóðurinn myndi svo greiða arð til hvers og eins Íslendings á hverju ári þegar svo bæri undir. Í þessu sambandi vísar Lars til auðlindasjóðs Alaska (Permanent Fund) sem greiðir íbúum ríkisins tiltekna fjárhæð árlega vegna tekna af auðlindum í eigu samfélagsins. Lars bendir einnig á að aukin samkeppni á markaðnum, sem tryggir sem lægst orkuverð, sé til lengri tíma litið til hagsbóta fyrir almenning í landinu þar sem lágt orkuverð styrki samkeppnishæfni landsins.

Í viðtali við ViðskiptaMoggann segir Lars m.a.: „Umræðan hér á Íslandi hefur að undanförnu snúist um gegnsæi og í raun skort á því. Hér eru fáir en mjög stórir aðilar sem hafa afgerandi áhrif á mótun samfélagsins. Landsvirkjun er þar á meðal. Það þarf að huga að gegnsæi og samkeppnissjónarmiðum á orkumarkaði eins og annars staðar. Það er nauðsynlegt með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Þess vegna vísar heiti skýrslunnar til orkunnar okkar, ekki orku ríkisins eða einhverra annarra, til dæmis orkufyrirtækjanna.“

Velferðartap fyrir samfélagið
Lars bendir á að Landsvirkjun sé í verðforystu (e. price leader) á íslenska orkumarkaðnum skv. kenningum Stackelbergs. Þetta þýðir að Landsvirkjun er í markaðsráðandi stöðu, með meiri en 70% markaðshlutdeild, auk þess sem um verulegar aðgangshindranir er að ræða á orkumarkaðnum. Hættan við þessa markaðsstöðu er sú að fyrirtækið verðleggi vöru sína of hátt sem kallar fram velferðartap fyrir samfélagið. Þetta þýðir að sá hagnaður fyrirtækisins sem hlýst af of háu verði dekkar ekki það tap sem önnur fyrirtæki og einstaklingar verða fyrir. Lars telur Landsnet vera í einokunarstöðu þar sem fyrirtækið er eitt um sinn markað (dreifingu). Lars telur svo að náin tengsl Landsvirkjunar og Landsnets auki enn frekar hættuna á óeðlilega hárri verðlagningu. Að mati höfundar þessarar greinar er núverandi verðstefna Landsvirkjunar í ætt við það sem Lars varar hér við.

Rekstur og stefna Landsvirkjunar
Það þarf ekki að skoða rekstur Landsvirkjunar lengi til þess að sjá að hann ber öll merki um yfirburðastöðu fyrirtækisins á orkumarkaðnum. Kostnaðaraðhald virðist vera lítið sem sést m.a. á háum meðallaunum og mikilli fjölgun starfsmanna undanfarin ár, án eðlilegra skýringa. Ekkert virðist heldur vera sparað til þegar kemur að markaðsmálum. Það vekur spurningar hvort eðlilegt sé að ríkisfyrirtæki, sem vart getur talist vera í samkeppni, skuli eyði jafnmiklum fjármunum í markaðsmál og Landsvirkjun gerir. Samantekið þýðir þetta í raun að hagnaður fyrirtækisins verður mun minni en ella sem á sinn hátt eykur hættuna á enn hærri verðlagningu.

Að mati greinarhöfundar má svo flokka verðstefnu fyrirtækisins undir einokunartilburði enda kvarta íslensk fyrirtæki sáran undan henni. Þessi verðstefna hefur gengið svo langt að nú velja t.d. íslenskar fiskimjölsverksmiðjur olíu fram yfir vatnsaflsorku. Landsvirkjun er í markaðsráðandi stöðu á íslenskum raforkumarkaði sem þýðir að fyrirtækið getur svo til stjórnað orkuverði að eigin vild. Skýrsla Lars varar einmitt við hinu síðast nefnda sem er skaðlegt fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Eðlilegt er í þessu ljósi að velta því fyrir sér hvort Landsvirkjun sé orðið ríki í ríkinu með stefnu sinni og framferði á markaðnum. A.m.k. virðist fyrirtækið strá um sig almannafé og reka sína eigin sérhagsmunastefnu.

Hagsmunalituð viðbrögð við skýrslu Lars
Það stóð ekki á viðbrögðum Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunnar, við skýrslu Lars sem hann fann allt til foráttu. Það verður að teljast gagnrýnisvert að fjölmiðlar leiti einöngu álits forstjóra Landsvirkjunar á málinu, en ekki iðnaðarráðherra sem er fulltrúi eigandans, íslensku þjóðarinnar. Hörður og hans meðreiðarsveinar hafa, eðli málsins samkvæmt, allan hag að því að staða Landsvirkjunar verði óbreytt. Það gefur auga leið að ríkisforstjórinn getur ekki verið sammála því að úr völdum fyrirtækisins, og þar með hans sjálfs, verði dregið. Hér er því um ákveðna hagsmunagæslu að ræða sem snýr að því að verja óbreytt ástand, verja sérhagsmuni Landsvirkjunar á kostnað almennings.

Kærkomið ákall um breytingar á raforkumarkaðnum
Skýrsla Lars verður teljast kærkomið ákall um breytingar á raforkumarkaðnum. Í nóvember sl. ritaði greinarhöfundur grein um þörfina á uppstokkun Landsvirkjunar þar sem m.a. voru færð rök þar að lútandi, sjá http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/thorthor/2160847/. Full ástæða er til þess að skoða tillögur Lars af gaumgæfni og með opnum huga. Að skella skollaeyrum við gagnrýni þessa virta sérfræðings, eins og íslenskir ráðamenn gerðu sínum tíma þegar hinn sami Lars spáði fyrir um bankahrunið á Íslandi, getur reynst þjóðinni dýrkeypt rétt eins og þá. Orkuauðlindin er þjóðareign og með hana ber að fara samkvæmt því, bæði hvað varðar nýtingu hennar og arðsemi.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira