c

Pistlar:

23. júlí 2015 kl. 9:57

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Ógreinileg greining

Í Markaðspunktum Arion banka dagsettum 16. júlí 2015 tekur greiningardeild bankans fyrir álitamál varðandi lagningu sæstrengs til Bretlands. Það kemur á óvart hve samantekt bankans er grunn að þessu sinni. Engu er líkara en að bankastarfsmennirnir hafa ekki haft fyrir því að kynna sér þróun á þeim mörkuðum sem þeir eru að fjalla um, heldur byggi þeir skrif sín á einhliða málflutningi Landsvirkjunar og svo á skýrslu Gamma um áhrif sæstrengs á afkomu heimila landsins. Önnur sjónarmið eru virt að vettugi.

Opinberar greinar valinkunnra manna með fjölþætta sérþekkingu eru ekki teknar með í greiningu bankans. Má þar nefna sérstaklega einstaklinga á borð við Bjarna Jónsson, rafmagnsverkfræðing, Bjarna Má Gylfason, hagfræðing Samtaka iðnaðarins, Friðrik Daníelsson, verkfræðing, Sveinn Valfells, eðlisfræðing og hagfræðing, Ívar Pálsson, viðskiptafræðing, Skúla Jóhannsson, verkfræðing, Kjartan Garðarsson vélaverkfræðing, Þorstein Þorsteinsson markaðsfræðing og síðast en ekki síst Elías Elíasson fv. sérfræðing í orkumálum hjá Landsvirkjun. Allir þessir aðilar hafa tekið þátt í umræðunni að undanförnu og varað sterklega við áformum Landsvirkjunar varðandi orkusölu um sæstreng með margvíslegum gildum rökum sem greiningardeild bankans kýs að líta alfarið framhjá. 

Í umræddum Markaðspunktum segir meðal annars „Rætt hefur verið um að Landsvirkjun gæti fengið 80 bandaríkjadollara á MWst,“ Þessi fullyrðing er síðan tengd inn á fyrirlestur Björgvins Skúla Sigurðssonar, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar á morgunfundi Landsbankans. Þar segir Björgvin „Ef við tökum bara umframorkuna eina og sér og skoðum þau verð sem að gefið er til kynna að við gætum fengið fyrir þessa orku erlendis og ég minni á að þessi orka er verðlaus á Íslandi í dag að þá reiknum við með því að hægt sé að ná allt að 80 og jafnvel hærri verðum en 80 bandaríkjadollurum á MWst fyrir þessa orku

Allir sem eitthvað hafa haft fyrir því að kynna sér orkuverð í Evrópu upp á síðkastið sjá strax að þessi framsetning stenst enga skoðun. Samkvæmt þessu ætlar Landvirkjun sér að nánast þrefalda meðal orkuverð sitt í dag á þeirri orku sem selja á inn á strenginn. Þessar hugmyndir eru settar fram á sama tíma og orkuverð í Skandinavíu hefur frá árinu 2011 fallið um 75% og í Þýskalandi er verðfallið 54% á sama tíma.

Til viðbótar við orkuverðið sjálft kemur svo flutningsverð í gegnum strenginn sem öllum er ljóst að er risavaxið fjárfestingarverkefni ef af verður.  Þessa áætluðu fjárfestingu hefur m.a. Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur reiknað yfir í flutningsverð á hverja megavattsstund (MWst). Varpast þá yfir á orkuna 125 Bandaríkjadala kostnaður á hverja selda megavattsstund ($/MWh). Skúli Jóhannsson verkfræðingur hjá Annað veldi ehf hefur einnig reynt að ná utan um kostnaðinn við raforkusæstreng og varpað honum yfir í flutning á hverja MWst niðurstaða hans er öllu lægri eða um $70 á hverja MWst.

Er trúverðugt að einhver sé tilbúin til að greiða samanlagt á bilinu  $150 til 205/MWst ($80 fyrir orkuna og $70 til 125 fyrir flutning) fyrir orku frá Íslandi? Þekkt er að yfirvöld í Bretlandi hafa verið að niðurgreiða nýja græna orku að einhverju marki síðustu ár. Ekkert dæmi er um að niðurgreiðslur hafi átt sér stað fyrir staðbundna umframorku. Auk þess sem nýjustu fréttir frá Bretlandi benda til þess að þessar niðurgreiðslur Breskra yfirvalda séu að renna sitt skeið.

Óneitanlega verður maður hálf hvumsa yfir vinnubrögðum greiningardeildar Arion banka og maður spyr sig hverra erinda þeir eru að ganga með þessum markaðspunktum sínum. Er nema von að maður velti fyrir sér hvort verið sé að innleiða að nýju vinnubrögð í líkingu og þau sem voru stunduð voru í íslenska bankakerfinu á árunum fyrir hrun?

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur