c

Pistlar:

30. maí 2016 kl. 21:11

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Sjaldan brýtur gæfumaður gler

Góður maður sagði eitt sinn að við lestur Íslendingasagna hefði hann fengið nýja sýn á þennan gamla málshátt sem er nafnið á þessari grein. Það eru ekki örlögin sem skapa mönnum gæfu, heldur atferli þeirra. Gæfumaðurinn gengur ekki fram af meira kappi en forsjá, svo vitnað sé í annað gamalt orðtak, en hann gengur heldur ekki fram af meiri forsjá en kappi.

Þegar Landsvirkjun var stofnuð á sínum tíma fékk hún það kappsfulla verkefni að reisa Búrfellsvirkjun og útvega álverinu í Straumsvík rafmagn, en í lögum um Landsvirkjun frá þessum tíma voru sett ýmis ákvæði sem áttu að tryggja, að gengið væri fram af forsjá. Meðal annarra voru þar ákvæði um að samningar Landsvirkjunar um sölu til stóriðjufyrirtækja mættu ekki valda hærra orkuverði til almennings en ella. Einnig var ákvæði um að Landsvirkjun ætti allaf að hafa næga orku fyrir viðskiptavini sína, með öðrum orðum: Fyrirtækinu var ætlað að vera framleiðandi til þrautavara og þar af leiddi að það hafði í raun einokun á að virkja. Þarna var Kröfluvirkjun þó undantekning. Helgi Jóhannesson, formaður Samorku, benti m.a. á þessa staðreynd á fagfundi samtakanna sem haldin var 26. maí síðastliðinn. Helgi sagði m.a. „Við upplifum mikla eftirspurn eftir raforku en lítið framboð sem enginn vaktar.“

Túlkun á lögunum leiddi svo til þess, að þegar Landsvirkjun stóð í orkusamningum við stóriðjufyrirtæki var reiknaði lágmarksverð þeirrar orku út frá svonefndum flýtingarkostnaði. Þar var borinn saman kostnaður af því að virkja fyrir almenna markaðinn eingöngu á hagkvæmasta hátt næstu áratugi og kostnaður af að virkja fyrir stóriðu til viðbótar almenna markaðnum til sama tíma. Hin harða alþjóðlega samkeppni sem var á þessum stóriðjumarkaði varð til þess, að Landsvirkjun varð að gæta ítrustu hagkvæmni við uppbyggingu virkjana sinna og flutningslína. Reikniaðferðin var þróuð áfram til aldamóta og allar endurbætur jafnóðum bornar undir stjórnvöld og efnahagsráðgjafa, sem ávallt samþykktu. Þessi reikniaðferð var aflögð eftir setningu nýrra orkulaga 2003 og til samræmis við þau teknar upp reikniaðferðir sem eru meira í ætt við algengar aðferðir banka og fjárfesta.

Fleira var gert á þessum tímum. Landsvirkjun beitti sér fyrir því, að Orkustofnun setti á fót Orkuspárnefnd, sem enn starfar. Þegar Búrfellsvirkjun var byggð, var hún hönnuð og framkvæmdum stjórnað af fyrirtæki með alþjóðlega viðurkenningu á því sviði. Næstu virkjun, Sigöldu, hannaði fyrirtækið fyrst sjálft með hjálp innlendra verkfræðistofa, en varð síðan að fá alþjóðlega viðurkenndan erlendan ráðgjafa til verksins til að það væri lánshæft hjá erlendum stofnunum. Landsvirkjun lét þá hinn erlenda ráðgjafa mynda félag um verkið með innlendum ráðgjöfum og var það fyrirkomulag notað áfram. Árangur þessa er sá, að nú selja íslenskir ráðgjafar þekkingu sína um víða veröld. Það má því fullyrða að stefna fyrirtækisins hafi orðið til gæfu fyrir þjóðina í fleiru en uppbyggingu raforkukerfisins.

Landsvirkjun gekk fram af forsjá ekki síður en kappi fram að lagabreytingunni 2003 og reyndar lengur, en með hinum nýju lögum var fyrirtækinu ætlað að gæta fyrst og fremst eigin hags og hin samfélagslega ábyrgð skilin eftir handa stjórnvöldum. Þau hafa þó ekki sýnt það út á við að þau hafi tekið við henni. Þannig hefur fyrirtækið markað sér stefnu um að hækka orkuverð hér á landi og boðar lagningu sæstregs, sem mundi stuðla mjög að þeirri hækkunarstefnu. Stjórnvöld hafa lítið tjáð sig um þetta mál.

Samhengi orkuverðs og efnahags hefur lengi legið fyrir, en hvað er orsök og hvað afleiðing í því máli hefur vafist fyrir. Þó er ljóst, að ef grípa þarf til gagnráðstafafana vegna breytinga á olíuverði, þá er það yfirleit of seint þegar svar markaðarins verður greint úr gagnasöfnum.

Mynd 1 línurit  eftir  Robert Hirsch yfir samhengi vaxtar olíuvinnslu og landsframleiðslu. 1986 til 2005.  (Tekið frá: https://ourfiniteworld.com/oil-supply-limits-and-the-continuing-financial-crisis/)Dæmi um þetta samhengi má sjá á mynd 1, þar sem það sést greinilega. Við rannsóknir á þessu samhengi er oft horft til olíuverðs, því það hefur áhrif á bæði framleiðslukostnað og kostnað við flutninga innan hvers þjóðfélags, auk þess sem verð jarðefnaeldneytis og raforkuverð fylgir olíuverði töluvert eftir.

Hægt er að tengja ýmsa atburði efnahagssögunnar við olíuverð eins dæmi er sýnt um á mynd 2. Þetta er hægt, þar sem olíumarkaðir eru heimsmarkaðir, en sama verður ekki sagt um rafmagn. Raforkumarkaðir starfa yfirleitt innan ákveðinna landmæra og ákvarðanir stjórnvalda á hverjum stað hafa afgerandi áhrif á verðþróun þeirra.

Raforkuverð hér á landi hefur ekki elt olíuverð og verð raforku er hlutfallslega mun mikilvægara í okkar efnahagskerfi en annars staðar. Olíuverð hefur engu að síður veruleg áhrif á efnahag okkar og því getur verið varasamt að auka þau áhrif með því að leggja sæstreng og tengja þannig raforkuverð hérMynd 2 Orkunotkun heimsins á mann, byggt á  BP Statistical Review of World Energy 2105 data. Áætlun 2015 og nótur eftir G. Tverberglendis við olíuverð gegnum erlenda raforkumarkaði. Þetta sjónarhorn ber stjórnvöldum að athuga sérstaklega og sjálfstætt. Stjórnvöld þurfa að útvega sér þá þekkingu og safna þeim upplýsingum sem til þarf og jafnframt afla sér þeirrar tækni og hugbúnaðar sem þarf til úrvinnslunnar óháð hagsmunaaðilum.

Einn stærsti hagsmunaaðilinn í þessu máli er Landsvirkjun, sem meðal annars býr yfir hugbúnaði til að reikna orkugetu orkukerfisins. Í samræmi við orkulög frá 2003 tekur fyrirtækið mið af eigin virkjanakerfi og eigin hagsmunum og reiknar út það sem nefnt er samningsgeta, sem reiknislega er samskonar fyrirbrigði og áður var nefnt orkugeta. Fyrirtækið hefur tæplega lagaheimild til að gera slíkar áætlanir fyrir allt orkukerfið og skiptir þá litlu þó það vilji gangast við samfélagslegri ábyrgð. Því verða stjórnvöld að fá samskonar hugbúnað og reikna orkugetu alls íslenska orkukerfisins út frá þjóðhagslegum forsendum, eins og gert var fyrir 2003. Orkugeta vatns- og jarðvarmaorkukerfis eins og okkar verður ekki reiknuð með því að hvert raforkufyrirtæki fyrir sig reikni samningsgetu og síðan sé lagt saman. Orkugeta er kerfiseiginleiki og verður ekki áætluð af viti öðruvísi en hafa heildarkerfið undir. Því verða stjórnvöld að framkvæma þetta á eigin vegum hvað sem einstök orkufyrirtæki gera.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur