c

Pistlar:

16. október 2016 kl. 16:17

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Skjótum fyrst og spyrjum svo

Í vikunni sem leið bárust fréttir af því að stofnað hefði verið málsóknarfélag í þeim tilgangi að krefjast þess fyrir dómi að rekstrarleyfi fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax sem gefið var út síðasta vor verði fellt úr gildi. Málið er höfðað bæði gegn fyrirtækinu og Matvælastofnun sem er sá aðili sem gaf út rekstrarleyfið. Það er hópur hagsmunaaðila sem stendur saman að þessu málsóknarfélagi. 

Það vakti athygli mína að ástæður málsóknarinnar eru tvær. Aðilarnir sem að málsóknarfélaginu standa telja að formlegir og efnislegir ágallar séu á því ferli sem leiddi til útgáfu rekstrarleyfisins annarsvegar og svo hitt að þessir aðilar telja að með þess­ari starf­semi sé brotið gegn hags­mun­um þeirra. Rökin fyrir því eru að ef eld­islax slepp­ur úr sjókví­um fyr­ir­tæk­is­ins geti strokulaxinn valdið tjóni á nátt­úru­leg­um laxa­stofn­um. Jafn­vel í veru­legri fjar­lægð.

Lögmaður málsóknarfélagsins Jón Steinar Gunnlaugsson segir að endanlegir efnisþættir málsins muni koma fram þegar málið verður þingfest sem að hann væntir að verði fyrir mánaðarlok.

Fyrra atriðið sem byggt er á snýr að formlegum og efnislegum ágöllum á því ferli sem leiddi til útgáfu rekstrarleyfisins. Þetta vekur upp spurningar um getu embættismannakerfisins til þess að annast þessi mál með lögformlegum hætti. Skemmst er að minnast þess að nú fyrir nokkrum dögum var sveitarstjórn Skútustaðahrepps gerð afturreka með framkvæmdaleyfi vegna línulagnar frá Kröflusvæðinu. Í þessu tilfelli er um embættismenn á vegum Matvælastofnunar að ræða. Mikilvægi þess að fólk geti treyst því að embættismannakerfið sé skilvirkt en á sama tíma heiðarlegt er afar mikilvægt okkur öllum. Því þarf að vera víst að lögformleg ferli séu virt. Ófært er með öllu fyrir atvinnulífið að ítrekað séu afgreidd mál tekin upp vegna formgalla. 

Seinna atriðið sem byggt er á hefur valdið mér nokkrum heilabrotum. En svo virðist að Hagsmunaaðilar sem eiga talsvert undir í sölu veiðileyfa telji brotið gegn hagsmunum sínum. Hugsanlega mögulega gætu norskir laxfiskar sloppið úr sjókvíum og valdið þessum hagsmunaaðilum tjóni. Töpuðum tekjum þ.e. ef það verður eitthvað tjón sem á engan hátt er öruggt.

Nú er rétt að ítreka það að sá sem þetta skrifar er ekki löglærður maður. En að byggja kröfu sína á óhöppum sem hugsanlega geta orðið í fyrirsjáanlegri framtíð hljómar einkennilega. Erum við þá ekki farin að skjóta fyrst og spyrja svo?

 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur