c

Pistlar:

15. nóvember 2016 kl. 16:02

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Sá heimski heldur hvern mann heimskari sér

Hvað er að gerast í samfélaginu okkar? Í heimsmálunum og síðast en ekki síst hvað er að gerast í Ameríku þar sem þjóðin kaus sér nýjan þjóðhöfðingja fyrir nokkrum dögum. Við sem erum að silast yfir miðjan aldur erum alin upp í trú á lýðræðinu, trú á því að meirihluti í þýðinu hafi rétt á því að taka ákvarðanir í krafti meirihlutans fyrir okkur hin.

Það hefur orðið trúnaðarbrestur á milli almennings og þeirra sem hafa farið með vald meirihlutans. Ítrekað hefur verið farið illa með það umboð. Fólki misboðið, bæði af þeim sem valdið hafa og líka hinum sem hafa aðrar skoðanir. 

Svo spila þeir sem telja sig vita alla hluti betur en aðrir mjög stórt hlutverk, í því að hræða venjulegt fólk frá því að taka þátt í eðlilegum samræðum um stjórnmál. Ef fólk vogar sér að hafa skoðanir er barið á þeim með yfirlýsingum um að einungis fávitar eða fordómafullir bjánar láti svona lagað út úr sér. Máltæki sem kemur upp í hugann segir „Sá heimski heldur hvern mann heimskari sér

Hér á landi þykir fínt að dæma þá sem lýsa andstæðum skoðunum heimska, illa gefna og fordómafulla. Menn eru óupplýstir aumingjar, leigukjaftar, skítadreifarar, bara fyrir það eitt að hafa skoðanir sem einhverjum öðrum kunna að þykja rangar eða ekki réttlætanlegar. Þessi óbilgirni verður til þess að venjulegt fólk þorir ekki að tjá skoðanir sínar af ótta við þessi harkalegu viðbrögð. Viðbrögð sem sífellt oftar rata nú inn í fjölmiðla og þess vegna inn fyrir veggi heimilisins. Blessunin hún Gróa á Leiti hefur lengi verið samferða okkur Íslendingum. Það var pukrað í hornum og hvíslað á kaffistofum en skoðanir Gróu voru ekki fjölprentaðar og þeim dreift samviskusamlega inn um blaðalúgur hverfisins. Fjölmiðlar dagsins í dag hika ekki við að stunda svona vinnubrögð og taka þá gjarnan að sér hlutverk rannsakanda, ákæranda, dómara og böðuls allt í senn. 

Þeir álitsgjafar sem mest hafa sig í frammi og hamast hvað mest á einstaklingum í stað þess að ræða málefnalega um málefnin eru algerlega á skjön við megin þorra landsmanna. Þessir álitsgjafar fæla fólk frá þeim skoðunum sem þeir eru að reyna að halda á lofti með málflutningi sínum. Megin þorri almennings hefur ekki áhuga á því að taka þátt í, eða styðja við málstað þar sem megin þungi málflutnings snýst um að tala niður aðra og þeirra skoðanir.

Fólk er óánægt með kerfið, embættismennina, stjórnmálamennina sem taka afstöðu með kerfinu en ekki fólkinu. Fólk er óánægt með fjármálakerfið sem heldur þúsundum fjölskyldna í heljargreipum. Það treystir ekki verkalýðsforystunni sem markvisst hefur tekið hagsmuni fjármagnsins fram yfir hagsmuni fólksins. Fólk vill stjórnmálamenn sem eru tilbúnir að fara á móti kerfinu, standa á skoðunum sínum. Alveg sama hvort þær eru til vinstri, hægri eða í miðjunni. Fólk vill málefnalega umræðu þar sem tekist er á um málefni en ekki menn.  Fólk hefur sýnt að það er tilbúið að nota atkvæði sitt óhikað ef því mislíkar eitthvað. 

Þetta er ástæða þess að Besti flokkur Jóns Gnarr var kjörin í sveitarstjórnarkosningum 2010, Þetta er ásæða kosningasigurs Sigmundar Davíðs og Framsóknarflokksins 2013. Þetta er ástæða þess að Bretar kusu að fara úr Evrópusambandinu. Þetta er ástæða þess að Donald Trump var kjörin forseti Bandaríkjanna fyrir nokkrum dögum.

Þegar í kjörklefann er komið kýs hin venjulegi einstaklingur með veskinu sínu og því hvað hann telur að mestu skipti fyrir sig og sína. Þess vegna vegnar þeim verr sem verja kerfið frekar en fólkið. Álitsgjafar sem sífellt úthúða þeim sem eru annarrar skoðunar missa trúverðugleika og ýta fólki að þeim sem kjósa að ræða málefni. Þess vegna komu VG og Sjálfstæðisflokkur betur út en aðrir starfandi þingflokkar í nýliðnum kosningum. Málflutningur formanna þessara flokka var málefnalegur þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið á. 

Sá sem hér skrifar er ekki saklaus af því að hafa farið offari á lyklaborðinu af og til. En atburðir síðustu vikna hafa þvingað mig til þess að horfast í augu við eign gerðir. Fengið mig til þess að endurmeta það hvernig ég nálgast það sem ég er að fást við á hverjum tíma. Vonandi vakna ég örlítið jákvæðari og umburðarlyndari maður á morgun en ég var í dag. 

 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur