c

Pistlar:

6. janúar 2017 kl. 10:36

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Ný tækifæri á álmarkaði með markaðslegri aðgreiningu

Margt bendir til þess að ný og spennandi tækifæri séu að skapast í íslenskum orkuiðnaði. Álrisinn Alcoa sem er móðurfyrirtæki Fjarðaráls á Reyðarfirði lagði sérstaka áherslu á kolefnislágar vörur sem framleiddar eru fyrir austan á stærstu álsýningu heims, sem haldin var í Dusseldorf. Sérstök áhersla var lögð á ál sem framleitt er með vatnsorku og einnig á endurunnið ál. 

Þetta eru nokkur tíðindi á markaði með ál. Það hefur verið nánast óþekkt hingað til að álframleiðendur aðgreini sig með kolefnisspori málmsins á markaði. í þessari aðgreiningu felast gríðarleg tækifæri fyrir íslenskan útflutning á áli. 

Hvergi í heiminum er ál framleitt með lægra kolefnisfótspori en hér á landi. Ef horft er til Kína þar sem álframleiðsla hefur verið í miklum vexti, þá er 90% áls framleitt með kolum og losun gróðurhúsalofttegunda því tífalt meiri en hér á landi. Ál er því ekki endilega það sama og ál.

Ef sú staða myndast á markaði að álnotendur í fjölbreyttum iðnaði sjá markaðsleg tækifæri í því að nota ál með lágu kolefnisfótspori, geta framleiðendur hér á landi mögulega fengið mun hærra verð fyrir afurðir sínar en almennt gerist í nánustu framtíð. Það styður þessar hugmyndir að á Vesturlöndum er almennur þrýstingur á kolefnislágar afurðir sífellt að aukast. Markaðir eru að stórum hluta tilbúnir að greiða eitthvað hærra verð fyrir vörur ef kolefnissporið er lægra. 

Mikið framboð hefur verið á áli frá Kína síðustu mánuði. Þetta hefur valdið nokkurri lækkun á heimsmarkaðsverði. Sem svo þýðir fyrir okkur Íslendinga lægra verð fyrir raforkuna sem við seljum í framleiðsluna vegna tengingar álverðs við orkuverðið. Markaðsleg aðgreining á áli framleiddu hér á landi gæti gjörbreytt þessari stöðu.

Aðgreining er lykilþáttur í staðfærslu vörumerkja. Eitt af markmiðum aðgreiningar er að skapa eftirsóknarverða stöðu í hugum viðskiptavina og skapa þannig aukið eða viðbætt virði. Þar sem virðistilboð fyrirtækja felst í aðgreiningunni, er afar mikilvægt að hún sé í samræmi við þarfir þeirra markhópa sem fyrirtækið þjónar. Skynjun neytenda á Vesturlöndum um mikilvægi þess að takmarka kolefnisfótspor á sem flestum sviðum opnar hér áður óþekkt tækifæri. 

Íslenskt ál með tíu sinnum lægra kolefnisfótspor en ál frá Kína hefur næga sérstöðu á markaði til aðgreiningar. Takist markaðssetning á þessum aðgreiningarþætti vel, er ekki ólíklegt að ál framleitt á Íslandi geti orðið að einhverju leiti ónæmt fyrir verðlækkunum á heimsmarkaði með ál í framtíðinni.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur