c

Pistlar:

20. júní 2017 kl. 9:21

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Tímamóta viljayfirlýsing Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Landsvirkjunar

Nokkuð er síðan að margar af fiskimjölsverksmiðjum landsins settu upp rafmagnskatla meðfram olíukötlum þeim sem í notkun voru um áratuga skeið. Þetta var þegar verð á rafmagni var lágt og olíuverð hátt sem þessi þróun fór af stað sem hagræðingar aðgerð af hálfu fiskmjölsframleiðenda. Síðustu ár hefur síðan Landsvirkjun markvisst hækkað verð á raforku til fiskimjölsverksmiðja á sama tíma og olíuverð hefur farið hratt niður á við. Þannig má segja að Landsvirkjun hafi verðlagt sig út af þessum markaði því að bræðslurnar brugðust við hækkunum á raforku með því að skipta til baka yfir í brennslu á olíu. Því eru fréttir af því að Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) og Landsvirkjun hafi tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði verulega ánægjulegar, sérstaklega í ljósi umhverfismarkmiða. 

Jón Már Jónsson formaður FÍF og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrituðu viljayfirlýsingu þar að lútandi. Á fundi Hafsins Öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins um loftslagsmál –áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi, þar vék Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra máli sínu að framangreindum áformum í opnunarerindi.

„Ágætt dæmi um árangur í loftslagsmálum að frumkvæði atvinnulífsins er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja. Þar hafði greinin sjálf frumkvæði að því að skipta úr olíu í rafmagn. Allir munu vera sammála um ágæti þess, auk loftslags ávinningsins minnkar loftmengun og starfsskilyrði batna við rafvæðingu. Það hafa hins vegar verið blikur á lofti vegna hækkaðs raforkuverðs. Ég fagna þess vegna nýgerðri viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda um að auka hlut endurnýjanlegrar orku við fiskimjölsframleiðslu,“ sagði umhverfisráðherra.

Fiskmjölsverksmiðjur eru tæknilega krefjandi viðskiptaaðili Landsvirkjunar m.t.t. eðlis rekstrarins og óvissu. Mikil orkuþörf í frekar skamman tíma og óvissa um hvenær veiðist og hvenær ekki, gera þessa vinnslu óvenju sveiflukennda á kerfi Landsvirkjunar. En það sem er stóra fréttin í þessari viljayfirlýsingu er að með henni er felst ákveðin viðurkenning á því að arðsöfnun í sjóði Landsvirkjunar er ekki endilega sú leið sem skilar samfélaginu mestum ábata á hverjum tíma.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur