c

Pistlar:

7. júlí 2017 kl. 9:53

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Karllæg samgöngustefna Samfylkingar

Eva H. Baldursdóttir varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar ritar í Fréttablaðið pistil í vikunni sem hún kallar „Einokun einkabílsins“. Í þessum pistli heldur Eva því fram að umræður um almenningssamgöngur hafi færst í hægri og vinstri dilka þannig að þeir sem teljast vera með stjórnmálaskoðanir til hægri, telji sig þurfa að vera í harðri vörn fyrir einkabílinn. Eva skrifar einnig:

Ef spár um fjölgun íbúa ganga eftir verðum við að fara að ferðast meira saman ef samgöngukerfið á að ganga upp. Markmiðið er að Reykjavík verði borg með betri almenningssamgöngur. Sú sýn felur í sér skemmtilegri borgarbrag og fer saman við markmið um þéttingu byggðar. Aðgerðum í þá áttina verðu því haldið áfram.

Ég er algerlega ósammála varaborgarfulltrúanum varðandi þessar skoðanir hennar. Í fyrsta lagi er nánast barnalegt að halda því fram að það fari eftir gömlu litrófi stjórnmálanna hvaða afstöðu menn hafa gagnvart einkabílnum og almenningssamgöngum. Ég tel að hver og einn íbúi borgarinnar taki afstöðu í þessu máli eftir því hvað hentar honum best. Auðvitað eiga borgarbúar að hafa frjálst val um það hvaða samgöngumáta þeir nota hverju sinni. Það er algerlega óásættanlegt að kjörnir fulltrúar taki sér vald til þess að hrinda í framkvæmd þéttingarstefnu sem hefur skapað mikið fleiri vandamál en hún leysir. Þéttingarstefnu sem er fjandsamleg fyrir þá sem kjósa að nota einkabílinn til þess að ferðast um borgina. Flestir borgarbúar þekkja þann vanda sem búið er að skapa í miðborginni, en þangað er nánast ómögulegt að fara á einkabíl því erfitt er að finna bifreiðastæði fyrir bílinn.

Það er jú þannig að þegar búnir eru til, á markvissan hátt flöskuhálsar í kerfi eins og samgöngukerfi þá hverfa ekki vandamálin eins og núverandi meirihluti virðist halda. Flöskuhálsarnir og vandamálin færast bara til. Gott dæmi um þetta er nýbyggingar þær sem er verið að reisa við útvarpshúsið í Efstaleiti m.a. á þeim bílastæðum sem við húsið voru. Bílarnir hverfa ekki heldur færast til og verða íbúum nærliggjandi gatna til ama og leiðinda. En það virðist ekki skipta meirihlutann í borginni nokkru máli. 

Staðreyndin er sú að fulltrúar núverandi meirihluta í borginni hafa ekki enn látið gera alvöru umferðarmódel af Reykjavík þar sem mið er tekið af þeirri þróun sem er á sjóndeildarhringnum. Því eru fullyrðingar um gríðarlegan kostnað eða eins og Eva kýs að kalla það „Villtustu draumar talsmanna malbiksframkvæmda“ í besta falli innihaldslaus áróður sem engin rök eru á bak við.  Það er lágmarkskrafa þegar kjörnir fulltrúar storma fram með svona fullyrðingar að þær séu studdar rökum. 

Engin vafi er að ný tækni mun geta aukið afköst umferðarkerfisins í Reykjavík umtalsvert. Þannig gætu einfaldir hlutfallslega ódýrir hlutir eins og samhæfð tölvustýrð umferðarljós gert mikið gagn í að létta á umferðarvanda borgarinnar. Annað dæmi er að á Miklubraut eru 6 akreinar, með tölvustýringu og sjálfkeyrandi bifreiðum er lítið mál að hafa götuna 5 akreinar í átt til höfuðborgarinnar á morgnanna og 5 akreinar frá henni síðdegis. 

Ofur áhersla Samfylkingarinnar á almenningssamgöngur og notkun á reiðhjólum er einkennileg því hún gengur þvert á jafnréttisstefnu þá sem flokkurinn hefur viljað kenna sig við. Samgöngustofa og Gallup stóðu að viðhorfskönnun meðal vegfaranda í umferðinni. Sú viðhorfskönnun sýnir meðal annars að konur hjóla nánast ekkert yfir vetrartímann. Ein skýring gæti verið sú að þær þurfi einkabílinn til að keyra börn sín, frá skóla í tómstunda og íþróttastarf. Almenningssamgöngur eru fyrir fólk með börn á heimilinu ekki kostur því það tekur of langan tíma þar sem íþrótta og tómstundastarf er sjaldnast í næsta nágrenni og Borgarlína breytir engu þar um. Þannig er áhersla Samfylkingarinnar á hjólreiðar og almenningssamgöngur karllæg í meira lagi. 

Það er slæm stefna að reyna að gera almenningssamgöngukerfið að raunhæfum valkosti með því að þrengja verulega að einkabílnum. Skynsamlegra er að byggja upp og styrkja innviði alla og gefa með því íbúum og gestum borgarinnar frjálst val um það hvaða ferðamáta það kýs.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur