Búið í haginn fyrir næstu byltingu

Berta Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávarklasans.
Berta Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávarklasans. mbl.is/Golli

Íslensk sjávarlíftæknifyrirtæki hafa alla burði til að skapa mikil verðmæti, en fjármögnunarumhverfið innanlands og takmarkað tengslanet erlendis stendur vexti þeirra fyrir þrifum. Þetta er meðal niðurstaða í óútkominni greiningu Íslenska sjávarklasans á stöðu sjávarlíftækni hér á landi.

Berta Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávarklasans, segir mikilvægt að hlúa vel að sjávarlíftæknifyrirtækjunum enda ekki ósennilegt að áður en langt um líði verði þau orðin að einni verðmætustu atvinnugrein landsins.

„Ef við skoðum hvernig íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hefur tekist að auka verðmæti aflans þrátt fyrir minnkandi veiðar er augljóst að sjávarlíftækni getur spilað mikilvægt hlutverk í næstu byltingu og næstu tvöföldun útflutningstekna. Grunar mig að í framtíðinni muni sjávarlíftæknifyrirtækin afla meiri tekna fyrir þjóðarbúið en það sem við köllum í dag hefðbundna fiskvinnslu, enda framleiða þau vöru sem selst fyrir margfalt hærra verð en flök og hnakkastykki.“

Vörur Iceprotein. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að styrkja mætti …
Vörur Iceprotein. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að styrkja mætti AVS-sjóðinn, sem fjármagnar rannsóknir í sjávarútvegi.

Þeir stóru gætu unnið með þeim smáu

Nefnir Berta að það hái sjávarlíftæknifyrirtækjunum að þau séu flest ung og smá. „Fyrir vikið er þekking fjárfesta á líftækni ekki svo mikil og hamlar fyrirtækjunum að erfitt er að finna bakhjarla sem koma ekki eingöngu með fjármagn inn í reksturinn heldur búa yfir þekkingu og samböndum á þessu sviði.“

Mætti reyna að komast í kringum þessa hindrun með því t.d. að stuðla að samstarfi milli sjávarlíftæknifyrirtækjanna og stórra tæknifyrirtækja í sjávarútvegi. Nefnir Berta Marel, Skagann og Völku í því sambandi enda er þar til staðar mikil þekking á hráefninu og viðskiptasambönd sem ná um allan heim.

„Líftæknifyrirtækin og framleiðendur vinnslutækja gætu tekið höndum saman um að miðla þekkingu sín á milli og þróa tækni til að bæta meðhöndlun aukaafurða. Tækjaframleiðendurnir búa yfir mikilli þekkingu á vinnsluhliðinni, en sjávarlíftæknifyrirtækin geta leiðbeint um hvort eigi að hita eða kæla aukaafurðirnar, þurrka þær eða bleyta til að skapa megi sem mest verðmæti úr þeim.“

Sterk króna getur torveldað markaðssetningu íslenskra afurða erlendis.
Sterk króna getur torveldað markaðssetningu íslenskra afurða erlendis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fjármagnið tekið frá fyrir stofnanir

Segir Berta einnig brýnt að gera breytingar á styrkjaumhverfinu. „Í mörgum tilvikum er þegar búið að eyrnamerkja fjármagn til nýsköpunar ákveðnum stofnunum, sem þýðir að minna er til skiptanna fyrir hina. Væri á margan hátt eðlilegra að allir sætu við sama borð og kepptu um sama fjármagnið.“

Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceprotein og Protis á Sauðárkróki, tekur í sama streng og segir að hugsa mætti til þess að styrkja AVS sjóðinn, sem fjármagnar rannsóknir í sjávarútvegi. Hægt væri að eyrnamerkja hlutfall af þeim gjöldum sem tekin eru af sjávarútveginum, eins og t.d. hlutfall veiðigjalda, til að efla sérhæfa sjóði á sviði sjávarlíftækni á Íslandi.

Að sögn Hólmfríðar hefur það hjálpað Protis og Iceprotein mjög að vera í eigu Fisk Seafood og geta sótt þangað stuðning af ýmsu tagi. „Þar höfum við aðgang að því þolinmóða fjármagni sem þarf til að standa straum af rannsóknum og prófunum, og finnst mér að fleiri sjávarútvegsfyrirtæki mættu taka það sér til fyrirmyndar að koma á laggirnar litlum líftæknisprotum innan sinna veggja.“

Spurð hvort styrking krónunnar setji strik í reikninginn segir Hólmfríður að á móti komi að umbúðir og annað sem fyrirtækið flytur inn verði ódýrara. „En vitaskuld þrengir sterkari króna að móðurfyrirtækinu, sem síðan getur minnkað það svigrúm sem við höfum. Sterk króna þýðir líka að þegar við sækjum út á erlenda markaði þurfum við að selja vöruna á hærra verði en ella, sem torveldar markaðssetninguna.“

„Grunar mig að í framtíðinni muni sjávarlíftæknifyrirtækin afla meiri tekna …
„Grunar mig að í framtíðinni muni sjávarlíftæknifyrirtækin afla meiri tekna fyrir þjóðarbúið en það sem við köllum í dag hefðbundna fiskvinnslu,“ segir Berta. mbl.is/Golli

Reglur og leyfi kalla á mikla vinnu og sérþekkingu

Ágústa Guðmundsdóttir, rannsóknastjóri hjá Zymetech og prófessor emeritus við HÍ, bendir á að íslensk sjávarlíftæknifyrirtæki þurfi að glíma við flókið regluverk á erlendum mörkuðum og illmögulegt sé fyrir fámenn fyrirtæki að ryðja sér leið í gegnum reglugerðafrumskóginn. Árið 2016 var Zymetech selt til sænska lyfjafyrirtækisins Enzymatica og segir Ágústa að það hafi einkum verið gert til að nýta þekkingu og reynslu sænska móðurfyrirtækisins af leyfisumsóknum fyrir heilsu- og lækningavörur og markaðssetningu erlendis.

„Að fara í gegnum allt ferlið með nýja lækningavöru kallar á mikla sérhæfingu, þekkingu á afskaplega mörgum sviðum, og er bæði tímafrek vinna og dýr,“ segir hún.

Er fátt við því að gera að regluverkið skuli vera erfitt viðfangs, og verði flóknara með hverju árinu, enda reglunum ætlað að tryggja að neytendur fái örugga vöru í hendurnar með þá eiginleika sem þeim hefur verið lofað. Segir Ágústa að eftir því sem sjávarlíftæknigeirinn vaxi og dafni muni þeim fara fjölgandi sem hafi góða þekkingu á regluumhverfinu og geti tekist á við flókin og langdregin umsóknarferli. Stjórnvöld hjálpi nú þegar með því að bjóða t.d. upp á styrki til að standa straum af kostnaði við einkaleyfaumsóknir.

„Það sem stjórnvöld gætu líka gert væri að koma á góðri tengingu við þær stofnanir sem sjávarlíftæknifyrirtækin þurfa að kljást við, s.s. Matvæla- og lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum, og sambærilegar stofnanir í Evrópu og víðar um heim.“

Þangað til gæti verið farsælast fyrir íslenska sjávarlíftæknisprota að reyna að finna sér fyrirtæki erlendis til að vinna með, ellegar snúa bökum saman með öðrum líftæknifyrirtækjum innanlands. „Í tilviki Zymetech og Enzymatica var um mjög góðan ráðahag að ræða og höfðu fyrirtækin þegar unnið saman í um tíu ár. Það sem við komum með að borðinu voru rannsóknir, þróun og framleiðsla ensíma úr þorskafurðum, en Enzymatica kom með þekkingu á sviði skráningar og markaðsmála.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 438,43 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 564,71 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 213,59 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 167,89 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 228,27 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 6,89 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Auður HU 94 Grásleppunet
Grásleppa 1.274 kg
Þorskur 214 kg
Rauðmagi 23 kg
Skarkoli 1 kg
Steinbítur 1 kg
Samtals 1.513 kg
24.4.24 Báran SI 86 Grásleppunet
Grásleppa 1.135 kg
Þorskur 241 kg
Ufsi 182 kg
Skarkoli 31 kg
Steinbítur 9 kg
Samtals 1.598 kg
24.4.24 Uggi VE 272 Handfæri
Þorskur 702 kg
Karfi 2 kg
Samtals 704 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 438,43 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 564,71 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 213,59 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 167,89 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 228,27 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 6,89 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Auður HU 94 Grásleppunet
Grásleppa 1.274 kg
Þorskur 214 kg
Rauðmagi 23 kg
Skarkoli 1 kg
Steinbítur 1 kg
Samtals 1.513 kg
24.4.24 Báran SI 86 Grásleppunet
Grásleppa 1.135 kg
Þorskur 241 kg
Ufsi 182 kg
Skarkoli 31 kg
Steinbítur 9 kg
Samtals 1.598 kg
24.4.24 Uggi VE 272 Handfæri
Þorskur 702 kg
Karfi 2 kg
Samtals 704 kg

Skoða allar landanir »