Laxinn og hvítfiskurinn að renna saman

Fiskeldi. Mynd úr safni.
Fiskeldi. Mynd úr safni. mbl.is/Helgi Bjarnason

Áhugaverð þróun er að eiga sér stað í sjávarútvegi úti í heimi þar sem fjársterk laxeldisfyrirtæki eru farin að kaupa hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki sem veiða og vinna hvítfisk. Einnig virðist sem handan við hornið séu miklar breytingar á sölu á fiski til neytenda, og von á að þar muni netið spila stærra hlutverk.

Dr. Jón Þrándur Stefánsson, yfirmaður greininga hjá Markó Partners, segir að íslenskur sjávarútvegur þurfi að vera meðvitaður um þessa þróun. Aldrei hafi verið mikilvægara fyrir greinina að hafa aðgang að góðum upplýsingum um þróun markaða til að geta gripið tímanlega til aðgerða.

Gott dæmi um aukin umsvif laxeldisfyrirtækja eru kaup Lerøy Seafood Group AS í Noregi á Havfisk og Norway Seafoods sem eru hefðbundin fyrirtæki í veiðum og vinnslu. „Undanfarin ár hafa aðstæður verið mjög góðar fyrir laxeldi enda hátt verð fengist fyrir fiskinn, og leita laxeldisfyrirtækin núna leiða til að fjárfesta og styrkja stöðu sína. Þau virðast, líkt og í tilviki Lerøy og fleiri fyrirtækja, sjá tækifæri fyrir utan hinn hefðbundna laxabransa og nýta þá þekkingu og sambönd sem hafa skapast í laxeldinu til að bæta markaðssetningu og dreifingu á hvítfiski. Um leið verða til öflug fyrirtæki sem geta boðið kaupendum sjávarafurða upp á breiða vörulínu af bæði hvítum og rauðum fiski.“

Jón Þrándur Stefánsson, yfirmaður greininga hjá Markó Partners.
Jón Þrándur Stefánsson, yfirmaður greininga hjá Markó Partners. mbl.is/Þórður

Kaupandinn gæti fengið allan fiskinn á einum stað

Jón Þrándur bendir á að bara í flutningunum geti verið fólgin samlegðaráhrif enda hægt að samnýta vörubíla sem í dag flytja lax frá Noregi á markað í Evrópu og senda nokkur bretti af ferskum hvítum fiski með. „En ekki síður verðmætt er að smásalinn getur séð mikið hagræði í því að kaupa allan sinn fisk frá sama framleiðanda. Myndi ég telja það áhyggjuefni fyrir hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi ef þessi þróun verður til þess að kaupendur velja í vaxandi mæli að leita annað með viðskipti sín, og panta sinn fisk þar sem þeir geta fengið meira úrval.“

Landslagið í íslenskum sjávarútvegi er öðruvísi en í Noregi. Á Íslandi eru laxeldisfyrirtækin tiltölulega ung og smá í samanburði við útgerðirnar, en í Noregi er hlutunum öfugt háttað og flytur Noregur t.d. út mun meira magn af eldislaxi en af hvítfiski. Hefur Noregur byggt upp gríðarstóran og öflugan iðnað í kringum laxeldið, með flutnings- og söluleiðir sem teygja sig um allan heim. Bendir Jón Þrándur einnig á að flest íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi ekki fjárfest í fiskeldi, og þau sem hafa sýnt fiskeldinu mestan áhuga virðast reyna að losa um fjárfestingar sínar þar frekar en að bæta í.

„Íslenskur sjávarútvegur þarf að vega það og meta vandlega hvort það gæti verið áhugavert fyrir þau að fara svipaða leið og við sjáum í Noregi, og reyna að ná fram samlegðaráhrifum með því að sameina með einhverjum hætti hvítfisk og eldislax.“

Svarið er ekki endilega augljóst, og leggur Jón Þrándur á það áherslu að rekstur útgerðar og laxeldis sé mjög ólíkur og búi eldið t.d. að því að hafa stöðugt framboð af hráefni og geta slátrað fiski í takt við eftirspurn. „En á sama tíma er greinilegt að bæði í Noregi og Kanada eru fyrirtæki í laxeldi að sjá mögulega leið til vaxtar með því að sameina laxinn og hvítfiskinn.“

Fiskurinn að fara á netið

Hin þróunin sem Jón Þrándur vill beina kastljósinu að er að smásalar eru að verða stærri og sterkari og margir þeirra farnir að nýta sér upplýsingatækni í auknum mæli. Nefnir hann nýleg kaup Amazon á Whole Foods í Bandaríkjunum sem merkileg tímamót sem geti orðið til þess að færa fiskinn nær neytandanum og bjóða upp á nýjar söluleiðir. Í Kína gerist það á sama tíma að æ meira af sölu á fersku sjávarfangi er að færast yfir á netið.

Sterkari smásalar og færsla á sölu fisks út á netið gæti bæði verið tækifæri og áskorun fyrir íslenskan sjávarútveg. Til dæmis gæti sala á netinu verið góð leið til að koma sérstöðu íslenskra sjávarafurða betur til skila til neytandans og efla íslenskan fisk sem vörumerki. „Á hinn bóginn gerist það með sterkari smásöluaðilum að þeir fara að ráða meiru um framsetninguna á vörunni, og ekki endilega víst að þeir myndu vilja auglýsa fisk sem íslenskan, heldur t.d. merkja t.d. íslenskan þorsk sem þorsk úr Norður-Atlantshafi. Það gæfi smásölunum meiri sveigjanleika, enda geta þeir þá hvort heldur sem er fengið fiskinn sinn frá Íslandi, Noregi eða Rússlandi.“

Þetta myndi íslenskur sjávarútvegur vilja forðast, og kannski ekki seinna vænna að setja aukinn kraft í markaðssetningu íslenskra sjávarafurða og byggja á sérstöðu og gæðum íslensks fisks. „Það á sérstaklega við um þá sem framleiða vöru sem fæst aðeins í takmörkuðu framboði að þeir ættu að vilja skapa sinni vöru sérstöðu á markaði og þannig reyna að fá hærra verð fyrir hana, en forðast að verða eins og hver annar hrávöruframleiðandi,“ segir Jón Þrándur. „Það er því lykilatriði fyrir fyrirtæki í greininni að hafa aðgang að markaðsupplýsingum til þess að geta betur fylgst með þessari þróun og brugðist við á þann hátt sem hentar hverju og einu.“

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 6.12.17 706,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 18.2.18 221,49 kr/kg
Þorskur, slægður 18.2.18 262,61 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.2.18 231,51 kr/kg
Ýsa, slægð 18.2.18 203,20 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.2.18 60,74 kr/kg
Ufsi, slægður 18.2.18 115,92 kr/kg
Djúpkarfi 7.2.18 104,00 kr/kg
Gullkarfi 18.2.18 171,57 kr/kg
Litli karfi 14.2.18 18,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.2.18 Litlanes ÞH-003 Línutrekt
Ýsa 4.109 kg
Langa 128 kg
Þorskur 108 kg
Steinbítur 46 kg
Samtals 4.391 kg
18.2.18 Auður HU-094 Landbeitt lína
Þorskur 3.001 kg
Steinbítur 736 kg
Steinbítur 198 kg
Ýsa 41 kg
Samtals 3.976 kg
18.2.18 Siggi Bjartar ÍS-050 Þorskfisknet
Þorskur 472 kg
Samtals 472 kg
18.2.18 Guðmundur Einarsson ÍS-155 Landbeitt lína
Steinbítur 737 kg
Þorskur 254 kg
Ýsa 233 kg
Samtals 1.224 kg

Skoða allar landanir »