Leyfi til framkvæmda raunhæf í vor

Kópasker er á lista yfir brothættar byggðir. Þar hefur ekki ...
Kópasker er á lista yfir brothættar byggðir. Þar hefur ekki verið byggt íbúðarhúsnæði á þessari öld. Hér sést syðsti hluti þorpsins. mbl.is/Sigurður Bogi

Ef ekki kemur babb í bátinn við afgreiðslu breytts deiliskipulags við Kópasker í Norðurþingi gæti sveitarfélagið veitt framkvæmdaleyfi fyrir uppbyggingu seiðaeldis strax næsta vor. Þetta er mat Gauks Hjartarsonar, skipulags- og byggingafulltrúa Norðurþings. Eldisstöðin, sem til stendur að ali lax á landi og gæti skapað 10-15 bein störf, mun senda fiskinn austur á firði í sjókvíar þegar hann er 300 til 500 grömm að þyngd. Ef af byggingu verður mun stöðin verða einn stærsti vinnustaðurinn á svæðinu en byggðin hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarna áratugi.

Sérfræðiþekking og gott vatn

Guðmundur Gíslason, formaður stjórnar Fiskeldis Austfjarða, segir, spurður hvers vegna Kópasker hafi orðið fyrir valinu, að gott aðgengi að vatni og nálægð við sérfrótt starfsfólk seiðaeldisstöðvarinnar Rifóss í Kelduhverfi hafi þar skipt sköpum. Hann segir að með því að rækta upp seiðin á landi, upp í 300-500 grömm, sé sá tími sem fiskurinn elst upp í sjókvíum styttur. Það minnki líkur á slysasleppingum.

Guðmundur segir að til standi að hrognin verði áfram klakin út í Rifósi en að þaðan verði þau flutt 50-100 grömm að þyngd í kerin á Kópaskeri – en þau verða á landi. Þegar fiskurinn er 300-500 grömm að þyngd verði hann fluttur austur. Guðmundur segir að í dag sé fiskurinn alinn upp í þá stærð í Þorlákshöfn.

Hann segir að nú standi yfir sú vinna að fara yfir þær athugasemdir sem bárust skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings. Á meðal þeirra athugasemda sem bárust voru ábendingar um stórviðri og sjávarflóð, umferðarrétt almennings, náttúruminjar og losun úrgangs.

Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða.
Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða. Mynd / Fiskeldi Austfjarða

30% fækkun íbúa frá 1996

Gaukur segir við mbl.is að engin af þeim athugasemdum sem bárust sé til þess fallin að setja áformin í uppnám en bæði hann og Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri hafa sagt að fiskeldið myndi styrkja verulega byggðina, en hún hefur átt undir högg að sækja í mörg ár. Í því samhengi má nefna að íbúum á Kópaskeri hefur fækkað um 30 prósent síðastliðin 20 ár. 179 bjuggu í þorpinu 1996 en þeir voru 124 um síðustu áramót. Athygli vekur að árið 1996 bjuggu 63 börn (yngri en 18 ára) í þorpinu en þau eru 25 nú. Aldurssamsetning íbúa hefur þannig breyst verulega.

Íbúðarhús hefur ekki verið byggt á Kópaskeri á þessari öld. Ef tíu til fimmtán störf myndu bætast við á svæðinu gæti orðið skortur á húsnæði. Guðmundur segir að það vandamál sé við að etja víðast hvar á landsbyggðinni. Fjármögnun sé mjög erfið. Hann bindur hins vegar vonir við að nýr vinnustaður muni vekja bjartsýni á svæðinu og að fólk muni vilja flytja til Kópaskers, með tilheyrandi uppbyggingu. Hann segir að sama vandamál sé uppi á Djúpavogi, þar sem Fiskeldi Austfjarða hefur starfsemi. Aðspurður segir hann að fyrirtækið hafi eins og sakir standi engin áform um að ráðast í byggingu húsnæðis, samhliða fiskeldinu.

Við framkvæmdir hjá Rifósi. Þar er verið að stækka eldisrýmið ...
Við framkvæmdir hjá Rifósi. Þar er verið að stækka eldisrýmið með fjórum nýjum kerjum. Mynd / Fiskeldi Austfjarða

Hann segir að fyrirtækið hafi mætt mjög jákvæði viðmóti af hálfu sveitarfélagsins enda hafi lengi verið leitað að leiðum til að byggja upp atvinnutækifæri á svæðinu. „Við erum til í að hjálpa við það og stuðla að uppbyggingu,“ segir hann.

Mörg ljón gætu verið í veginum

Gaukur er nokkuð bjartsýnn á að fiskeldið verði að veruleika en bendir á að skipulagsferlinu sé hvergi nærri lokið. Hann á von á því að tillaga fyrir deiliskipulag verði kynnt í kring um áramót. Við taki sex vikna tími þar sem hægt er að gera athugsemdir við auglýsta tillögu. „Við göngum út frá því að fá athugasemdir við deiliskipulagstillöguna,“ segir Gaukur en segir ferlið til þess fallið að betrumbæta tillöguna.

Tillagan verði lagfærð í samræmi við ábendingar, eins og tilefni þykir til, áður en hún verður lögð fyrir sveitarstjórn. Hann segir að í kjölfarið þurfi að gefa út framkvæmdaleyfi en segir að það þurfi ekki að vera tímafrekt og mögulega sé hægt að gefa út framkvæmdaleyfi í vor, ef allt gangi að óskum. Hann tekur þó skýrt fram að ýmislegt geti komið upp á í þessu ferli öllu.

Ekki auðvelt að byggja á Kópaskeri

Gaukur segir að atvinnutækifæri sárvanti á Kópaskeri og hann telji mikilvægt að þetta gangi eftir. Á það sé hann bjartsýnn. Hann efast um að sveitarfélagið muni ráðast í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði ef af seiðaeldinu verður, en bendir á að lóðir séu lausar. Þá nefnir hann að í dag séu mörg hús í þorpinu nýtt undir ferðaþjónustu. „Það er ekkert auðvelt að byggja íbúðarhús á Kópaskeri.“

Stöðin sem Fiskeldi Austfjarða vill byggja mun hafa 16 útiker sem verða samtals allt að 32 þúsund rúmmetrar á stærð auk tvö hundruð fermetra þjónustuhúsi. Gert er ráð fyrir tíu borholum að auki, sem boraðar verða eftir borholusjó. Þeim fylgja lagnir. Fyrirhugað er að fiskurinn verði afhentur í bát sem mun leggjast að bryggju við Kópasker.

Eldisstöðin verður, ef leyfi fást, yst á Röndinni við Kópasker, við ósa Snartarstaðalækjar. Guðmundur segist reikna með 10 til 15 föstum störfum auk afleiddra starfa – svo sem við viðhald. Hann segir, að ef allt gengur upp, gæti stöðin risið eftir tvö til þrjú ár.

Hér sést hvar fiskeldið yrði. Á þessum stað hefur áður ...
Hér sést hvar fiskeldið yrði. Á þessum stað hefur áður verið fiskeldi. Það hét Árlax. Kort/map.is
mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 6.12.17 706,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 20.2.18 251,63 kr/kg
Þorskur, slægður 20.2.18 272,26 kr/kg
Ýsa, óslægð 20.2.18 233,68 kr/kg
Ýsa, slægð 20.2.18 240,66 kr/kg
Ufsi, óslægður 20.2.18 47,73 kr/kg
Ufsi, slægður 20.2.18 105,81 kr/kg
Djúpkarfi 7.2.18 104,00 kr/kg
Gullkarfi 20.2.18 131,96 kr/kg
Litli karfi 14.2.18 18,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

20.2.18 Magnús Jón ÓF-014 Þorskfisknet
Þorskur 376 kg
Samtals 376 kg
20.2.18 Gunnþór ÞH-075 Þorskfisknet
Ýsa 25 kg
Karfi / Gullkarfi 7 kg
Samtals 32 kg
20.2.18 Sigurður Pálsson ÓF-008 Þorskfisknet
Þorskur 181 kg
Samtals 181 kg
20.2.18 Múlaberg SI-022 Botnvarpa
Djúpkarfi 54.623 kg
Samtals 54.623 kg
20.2.18 Þórunn Sveinsdóttir VE-401 Botnvarpa
Djúpkarfi 32.686 kg
Ýsa 21.177 kg
Karfi / Gullkarfi 15.478 kg
Þorskur 721 kg
Samtals 70.062 kg

Skoða allar landanir »