Allur fiskur fluttur annað

Löndun úr Dúdda Gísla og fallegur fiskur í körum á ...
Löndun úr Dúdda Gísla og fallegur fiskur í körum á bryggjunni. Sjómennirnir voru þó ekki ánægðir með magnið, 100 kíló á bala. mbl.is/Ólafur Bernódusson

Ágætis aflabrögð hafa verið hjá línu- og snurvoðarbátunum sem hafa róið frá Skagaströnd á þessu kvótaári. Verðið á fiskinum hefur líka verið ásættanlegt eftir að strandveiðunum lauk. Heldur hefur þó dregið úr síðustu daga eins og oft vill verða á haustin á miðunum sem bátarnir sækja.

Þar sem engin fiskvinnsla er á staðnum lengur er stöðugur straumur stórra bíla með aftanívagna gegnum bæinn, sérstaklega síðdegis og á kvöldin. Þeir flytja fisk frá fiskmarkaðnum til kaupenda um allt land.

Þeir voru fegnir að vera loksins búnir að bæta voðina ...
Þeir voru fegnir að vera loksins búnir að bæta voðina í næðingnum á bryggjunni, Jón Sveinsson er til vinstri og Hafþór Gylfason til hægri. mbl.is/Ólafur Bernódusson

Sáttir við sinn hlut

Landanir hjá fiskmarkaðnum á síðasta kvótaári voru um 10.000 tonn og allur sá fiskur var fluttur burtu annaðhvort frosinn í gámum eða ferskur með þessum stóru bílum. Að sögn starfsmanna fiskmarkaðarins er haustið núna á svipuðu róli hvað varðar landaðan afla eins og haustið í fyrra og eru þeir sáttir við sinn hlut hvað það varðar.

Þeir voru reyndar frekar daufir karlarnir á línubátnum Dúdda Gísla þar sem þeir voru að landa rúmum þremur tonnum eftir brælutúr síðdegis á þriðjudag. „Það nær ekki 100 kílóum á bala í dag og það hefur verið að draga úr þessu að undanförnu. Annars er þetta búið að vera ágætt í haust. Það var bara mikil hreyfing í dag og þá gefur hann sig ekki eins vel,“ sagði einn þeirra um leið og hann húkkaði úr kari fullu af stórýsu.

Á góðum dögum koma flutningabílar í röðum til að sækja ...
Á góðum dögum koma flutningabílar í röðum til að sækja afla. Á þriðjudag var megninu af afla Steinunnar SF landað beint í flutningabíl. mbl.is/Ólafur Bernódusson

Tvö búmm og svo kom voðin upp í tætlum

Þeir voru heldur ekkert ánægðir karlarnir á Hafrúnu HU 12 þar sem þeir voru á fullu á bryggjunni að gera við snurvoðina með Jóni netamanni. „Það eru ekki allar ferðir til fjár. Við skelltum okkur í Skagafjörðinn og innfyrir nýopnuðu smábátalínuna þar og ætluðum að fiska heil ósköp. Fengum tvö búmm og svo kom voðin upp í tætlum eftir þriðja holið, rifin frá kúlulínu og alveg aftur í heis.“

Ekki vissu þeir hvað hefði rifið svona illa en giskuðu á að það hefði jafnvel verið hvalur. „Stórhvelin voru að blása þarna allt í kringum okkur. Þetta var eins og gosbrunnagarður,“ sögðu þeir og glottu.

Á sama tíma var verið að landa úr togaranum Steinunni SF 10 frá Hornafirði á að giska 40 tonnum af blönduðum afla eftir nokkurra daga túr og þrír litlir færabátar voru með sáralítinn afla. „Mér leist svo vel á hann í morgun og svo kom bara haugasjór strax um hádegið og ekkert hægt að vera við þetta,“ sagði einn af færakörlunum vonsvikinn með daginn.

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 6.12.17 706,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 23.2.18 205,56 kr/kg
Þorskur, slægður 23.2.18 258,70 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.2.18 243,34 kr/kg
Ýsa, slægð 23.2.18 261,56 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.2.18 42,91 kr/kg
Ufsi, slægður 23.2.18 88,29 kr/kg
Djúpkarfi 7.2.18 104,00 kr/kg
Gullkarfi 23.2.18 219,35 kr/kg
Litli karfi 14.2.18 18,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.2.18 Bergey VE-544 Botnvarpa
Karfi / Gullkarfi 3.752 kg
Lýsa 607 kg
Samtals 4.359 kg
23.2.18 Haförn ÞH-026 Dragnót
Skarkoli 2.061 kg
Þorskur 903 kg
Steinbítur 666 kg
Ýsa 233 kg
Karfi / Gullkarfi 136 kg
Hlýri 22 kg
Samtals 4.021 kg
23.2.18 Vestmannaey VE-444 Botnvarpa
Karfi / Gullkarfi 1.987 kg
Lýsa 471 kg
Samtals 2.458 kg
23.2.18 Bliki ÍS-203 Landbeitt lína
Þorskur 1.198 kg
Steinbítur 281 kg
Ýsa 52 kg
Samtals 1.531 kg

Skoða allar landanir »