Í land eftir hálfa öld á sjó

Síðustu áratugi hefur skipsbrúin verið helsti starfsvettvangur Ægis og þar …
Síðustu áratugi hefur skipsbrúin verið helsti starfsvettvangur Ægis og þar hefur hann kunnað vel við sig. Nú siglir Þerney sinn sjó og skipstjórinn kominn í land. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar landað hafði verið úr Þerney RE 1 við Skarfabakka í síðasta sinn fyrr í mánuðinum kom í ljós að skipið hafði sótt í hafið um 520 tonn í þessum síðasta túr þar sem það þjónaði HB Granda. Aflaverðmæti túrsins er metið á um 200 milljónir króna.

Ægir Kristmann Franzson hefur staðið í brúnni á skipinu nær annan hvern túr frá árinu 2005 á móti Kristni Gestssyni skipstjóra og þegar síðasta karið var komið í land var komið að kveðjustund. Þerney hefur verið seld til útgerðar sunnar á hnettinum og Ægir hefur ákveðið að koma í land. Það er stórt og mikið skref fyrir mann sem kom sér fyrst í pláss aðeins fjórtán ára gamall og hefur því staðið vaktina í hálfa öld.

„Ég var fjórtán ára þegar ég kom mér í pláss á Röðli frá Hafnarfirði sem Venus gerði út. Það á kannski ekki að upplýsa um slíkt en ég strauk úr skólanum og réð mig þar sem háseti upp á hálfan hlut. Þetta var í apríl 1967,“ segir Ægir og það er ekki laust við að það komi glampi í augu þegar hann rifjar upp þessi örlagaríku skref fyrir rúmum fimmtíu árum.

Þótt ungi maðurinn hafi ekki leitt hugann að því á sínum tíma má halda því fram að með skipsplássinu á Röðli hafi teningunum verið kastað. Eigandi útgerðarinnar var Vilhjálmur Árnason, afi núverandi forstjóra HB Granda.

Allt önnur skip í dag

„Röðull var einn af nýsköpunartogurunum og þegar maður hugsar til baka þá er eins og himinn og haf skilji að aðstöðuna sem sjómönnum var búin í þá daga og þá sem við eigum að venjast í dag. En þetta þótti eðlilegt í þá daga og í raun ætlaði ég aldrei að taka aðra stefnu í lífinu en að fara á sjóinn. Ég var alinn upp hjá ömmu minni og fóstra í Flatey á Breiðafirði.

Hann var formaður þar og tók mig með á sjóinn. Einhverju sinni spurði mig svo kennari hér í Reykjavík, eftir að ég var fluttur hingað, hvort ég ætlaði ekki að verða leikari eða slökkviliðsmaður. Mér fannst þessar spurningar í raun fráleitar, því hugurinn var við sjóinn,“ segir Ægir.

Allur aðbúnaður um borð í síðutogurunum var gjörólíkur því sem gerist í dag og ekki hægt að bera saman. Á Þerney eru allir í eins manns klefum, en á síðutogurunum voru allir í sex til átta manna klefum nema yfirmenn.

„Sturtan fór svo ekki í gang nema með handpumpu. Það myndi enginn láta bjóða sér upp á þetta í dag,“ segir Ægir og glottir við.

Frá síðustu löndun Þerneyjar fyrr í mánuðinum.
Frá síðustu löndun Þerneyjar fyrr í mánuðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Víða siglt um höfin blá

Á langri starfsævi á sjó hefur Ægir siglt á mörg fengsælustu mið sem þekkjast á norðurhveli jarðar. Þá hefur stímið verið mislangt eins og gefur að skilja. „Ég hef siglt eftir austurströnd Kanada og niður að Bandaríkjunum og niður undir Írland. Svo hefur hafsvæðið norður frá Íslandi og í raun norður eftir Rússlandi einnig verið hluti af því svæði sem við höfum sótt á. Þegar við Kristinn Gestsson réðum okkur á Snorra Sturluson þá var það skip sem hafði ekki veiðiheimildir innan 200 sjómílnanna og stefnan var sett á miðin utan landhelginnar. Fljótlega upp úr því hófst svo ævintýrið í Smugunni og þangað höfum við mikið sótt.“

Ægir segir að það hafi þó ekki verið sjálfgefið að Snorra Sturlusyni yrði beint í Smuguna.

„Árni heitinn Vilhjálmsson var ekkert á því að stefna skipinu þangað. Hann sendi okkur hins vegar til Kanada þar sem frést hafði af Spánverjum með fullfermi af grálúðu. Það hafði ekki fylgt sögunni að það hafði tekið þá níu mánuði að fylla skipið. Þá kom einnig í ljós þegar við vorum byrjaðir að veiða að íslensk stjórnvöld höfðu undirgengist einhverjar skuldbindingar um að Íslendingar myndu alls ekki veiða þarna. Árni greip þá til sinna ráða og stefndi okkur beina leið í Smuguna. Þetta endaði í 70 daga túr og siglingin ein og sér í Smuguna tók heila 18 sólarhringa.“

„Gleymi aldrei meðan ég lifi nóttinni undir Grænuhlíð“

Ægir segir það án efa eftirminnilegasta atvikið á umliðnum 50 árum þegar áhöfn Snorra Sturlusonar RE tókst að bjarga Örfiriseynni úr bráðum háska, togara sem einnig er í þjónustu HB Granda. „Það var vitlaust veður aðfaranótt 10. nóvember 2001 og skipin stefndu hvert á fætur öðru í var undir Stigahlíð vegna stífrar suðvestanáttar. Þá bilaði vélin í Örfiriseynni og skipið var algjörlega vélarvana. Það rak stjórnlaust upp í Grænuhlíð, sem er í norðanverðu Ísafjarðardjúpi. Varðskipið kom inn af Ísafirði en hafði ekki nægilega sterka taug til að ná skipinu úr aðstæðunum, hún slitnaði ítrekað. Við sigldum þá alveg upp að henni og í öðru skoti tókst okkur að koma taug yfir. Það skot átti ekki að geiga og ég hef áður sagt opinberlega að það fylgdi mjög sterkur hugur þessu skoti.“

Þegar tauginni var komið yfir í Örfirisey átti skipið aðeins nokkra metra upp í Grænuhlíð og hefði það gerst hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.

„Menn gerðu sér kannski ekki alveg grein fyrir hversu tæpt þetta stóð því myrkrið var svo mikið. Kristinn Gestsson skipstjóri stýrði skipinu eins nálægt og kostur var þannig að við komumst í gott færi til að skjóta línu á milli.“

Ægir segir að hann hafi ekki verið hræddur í þessum aðstæðum. Þarna hafi einfaldlega þurft að sýna fumlaus viðbrögð.

Ítarlegra viðtal við Ægi má finna í ViðskiptaMogganum sem fylgdi Morgunblaðinu 16. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »