Fullt tollfrelsi með sjávarafurðir

mbl.is/Ómar

Meðal þess sem fríverslunarsamningur Evrópusambandsins við Kanada, sem tók gildi í lok september á síðasta ári, tekur til eru viðskipti með sjávarafurðir. Við gildistöku hans féllu niður tollar Evrópusambandsins af um 96% allra tollskrárnúmera Evrópusambandsins á kanadískar sjávarafurðir og á næstu 3 til sjö árum verður það sem eftir stendur einnig afnumið.

Þannig er stefnt að því að útflutningur á kanadískum sjávarafurðum til Evrópusambandsins verði 100% tollfrjáls þegar upp verður staðið, samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu ríkisstjórnar Kanada þar sem fjallað er um tækifæri kanadískra útflutningsfyrirtækja þegar kemur að útflutningi sjávarafurða til sambandsins.

Nútíma fríverslunarsamningur af annarri kynslóð

Fríverslunarsamningurinn, sem nefndur hefur verið CETA (Comprehensive Economic and Trade Agreement), mun enn fremur á heildina litið afnema tolla á 98% tollskrárnúmera í milliríkjaviðskiptum á milli Evrópusambandsins og Kanada. Undirbúningur fyrir samninginn hófst fyrir um áratug en viðræðurnar lágu niðri á köflum meðal annars vegna gagnrýni sambandsins á selaveiðar kanadískra frumbyggja. Í kjölfar gildistökunnar hefur samningurinn verið í samþykktarferli hjá öllum ríkjum Evrópusambandsins.

Fríverslunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada er af svokallaðri annarri kynslóð og nær þannig ekki aðeins til vöruviðskipta líkt og reglan var hér áður heldur einnig þjónustuviðskipta, opinberra útboða, höfundarréttarmála, öryggisstaðla, vörumerkinga og annarra atriða sem máli skipta í milliríkjaviðskiptum í dag.

Slíkir víðtækir fríverslunarsamningar eru allajafna sú leið sem ríki heimsins fara í dag þegar kemur að því að tryggja hagsmuni sína með samningum um milliríkjaviðskipti. Þar á meðal öflugustu efnahagsveldi heimsins eins og Kína og Bandaríkin. Þá hafa bæði Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA, sem Ísland á aðild að, og Evrópusambandið lagt áherslu á slíka samninga í seinni tíð.

Bæði ferskar og fullunnar

Tollar á kanadískar sjávarafurðir inn á innri markað Evrópusambandsins voru fram að gildistöku fríverslunarsamningsins allt að 25% og eru enn á bilinu 7,5%-25% á þeim afurðum sem eftir standa og tollar verða teknir af á næstu árum. Þar verða hins vegar í boði tollkvótar þar til tollar hafa að fullu verið afnumdir á þær afurðir.

Það sem er einna athyglisverðast frá íslenskum sjónarhóli er að samningurinn nær bæði til sjávarafurða sem eru fullunnar og þeirra sem eru það ekki.

EES tryggir ekki fullt tollfrelsi

Viðskipti Íslands við Evrópusambandið byggjast sem þekkt er einkum á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), en eins og til að mynda kemur fram í nýlegri skýrslu utanríkisráðuneytisins um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu „tryggir EES-samningurinn ekki fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir.“

Tíundað er einnig í skýrslunni að tollar við innflutning sjávarafurða til ríkja Evrópusambandsins séu misháir eftir því um hvers kyns afurð sé að ræða: „Tollar eru almennt séð hærri á mikið unnar sjávarafurðir en þær sem minna eru unnar.“ Einnig segir að þær sjávarafurðir sem meðal annars bera tolla inn á innri markað sambandsins séu til dæmis afurðir úr laxi, makrílafurðir (fyrir utan fryst makrílflök), flestar síldarafurðir og ýmsar afurðir af þorski, ýsu, lúðu og ufsa.

Rækja, þorskur og makríll

Meðal þeirra sjávarafurða sem urðu tollfrjálsar við gildistöku fríverslunarsamnings Evrópusambandsins og Kanada er rækja. Bæði frosin og fullunnin (elduð og pilluð rækja í neytendapakkningum). Tollar voru áður 12% á frosinni rækju og 20% á fullunninni rækju frá Kanada á markað sambandsins. Stærstur hluti þeirrar rækju sem unnin er hér á landi og síðan flutt út er flutt inn frá Kanada líkt og fram kemur í skýrslu utanríkisráðuneytisins.

Einnig falla tollar strax niður við gildistöku fríverslunarsamnings Evrópusambandsins og Kanada á frosinni og ferskri hörpuskel, þurrkuðum og söltuðum þorski, frosinni síld, frosnum makríl og bæði ferskum og fullunnum laxi svo dæmi séu tekin. Eftir sjö ár verða til að mynda frosin þorskflök einnig algerlega tollfrjáls inn á markað Evrópusambandsins sem og bæði reykt og fersk silungsflök.

Hafa landað betri samningi

Þannig er ljóst að þegar kemur að beinum tollum hefur stjórnvöldum í Kanada tekist að semja um betri aðgang að innri markaði Evrópusambandsins fyrir kanadískar sjávarafurðir en Íslendingar og Norðmenn njóta í gegnum EES-samninginn, en aðgangurinn að markaði sambandsins fyrir sjávarfang hefur lengi verið talinn einn helsti kosturinn við aðild Íslands að samningnum. Þannig er fríverslunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada líklegur til þess að leiða til aukinnar samkeppni við kanadísk útflutningsfyrirtæki. Jafnvel þó að íslenskum stjórnvöldum tækist að tryggja sambærileg kjör fyrir íslensk fyrirtæki.

Sem fyrr segir er fríverslunarsamningurinn á milli Kanada og Evrópusambandsins í staðfestingarferli hjá ríkjum sambandsins en ekki er reiknað með öðru en að öll ríkin muni samþykkja hann. Ljóst er að jafnvel þó að svo fari ekki liggur fyrir að Evrópusambandið er reiðubúið að fallast á fullt tollfrelsi fyrir innfluttar sjávarafurðir. Að minnsta kosti þegar kemur að víðtækum, tvíhliða fríverslunarsamningum.

Málið tekið upp við ESB

„Við tókum þetta mál upp við Evrópusambandið á fundi í nóvember og erum að fara að hitta þá aftur núna í byrjun þessa árs. Það á bara eftir að festa fundartímann. Það er auðvitað orðið svolítið sérstakt þegar Kanada hefur betri aðgang fyrir sjávarafurðir en EFTA/EES-ríkin.Við erum að sækja á þá með þetta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við 200 mílur, spurður út í þá staðreynd að fríverslunarsamningur Kanada og Evrópusambandsins felur í sér mun betri aðgang fyrir kanadískar sjávarafurðir að innri markaði sambandsins en Ísland hefur í gegnum EES-samninginn.

Spurður hvers vegna ekki hafi verið þrýst á um betri kjör fyrir íslenskar sjávarafurðir inn á markað Evrópusamandsins, meðal annars í ljósi skýrslu utanríkisráðuneytisins frá því í nóvember um útgöngu Bretlands úr sambandinu, þar sem rætt er um möguleikann á að ná betri kjörum fyrir íslenskar sjávarafurðir en felast í EES-samningnum í gegnum fríverslunarsamning við Breta, segir Guðlaugur Þór að ljóst sé að ekki hafi verið samið um betri kjör til þessa í gegnum EES-samninginn, sem væntanlega sé vegna þess að Evrópusambandið hafi ekki verið til tals um slíkt hingað til.

„Þegar Bretarnir fara út er ljóst að það opnast nýir möguleikar varðandi breska markaðinn. Það breytir því ekki að við munum halda áfram að sækja á Evrópusamandið hvað þetta varðar. Það er augljóst að við höfum ekki fengið það í gegn til þessa,“ segir Guðlaugur Þór.

Spurður hvað verði ef Evrópusambandið situr við sinn keip og neitar að veita Íslendingum betri aðgang að innri markaðnum með sjávarafurðir sínar með hliðstæðum hætti og sambandið hefur samið um við Kanada segir hann:

„Það liggur fyrir að Evrópusambandið hefur opnað á betri kjör Kanada inn á innri markað sinn og í stað þess að líta á það sem ógn verðum við bara að líta á það sem tækifæri. Þetta er þá tækifæri fyrir okkur til að fá sambærileg kjör. Við munum í það minnsta láta á það reyna. En þetta er ástæða þess að ég hef lagt mikla áherslu á fríverslunarsamninga. Við erum auðvitað í alþjóðlegri samkeppni, við erum útflutningsþjóð og þurfum að gæta hagsmuna okkar alls staðar. Við tókum málið upp við Evrópusambandið í nóvember og munum fylgja þessu eftir, en það þarf auðvitað tvo til að semja.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 426,28 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,31 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 192,17 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 117,21 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,14 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Elva Björg SI 84 Grásleppunet
Grásleppa 1.593 kg
Þorskur 132 kg
Skarkoli 89 kg
Ufsi 22 kg
Steinbítur 12 kg
Samtals 1.848 kg
25.4.24 Lundey SK 3 Grásleppunet
Grásleppa 1.552 kg
Þorskur 189 kg
Ufsi 46 kg
Samtals 1.787 kg
25.4.24 Erling KE 140 Þorskfisknet
Þorskur 7.829 kg
Samtals 7.829 kg
25.4.24 Kaja ÞH 66 Grásleppunet
Grásleppa 1.269 kg
Þorskur 51 kg
Skarkoli 10 kg
Samtals 1.330 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 426,28 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,31 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 192,17 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 117,21 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,14 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Elva Björg SI 84 Grásleppunet
Grásleppa 1.593 kg
Þorskur 132 kg
Skarkoli 89 kg
Ufsi 22 kg
Steinbítur 12 kg
Samtals 1.848 kg
25.4.24 Lundey SK 3 Grásleppunet
Grásleppa 1.552 kg
Þorskur 189 kg
Ufsi 46 kg
Samtals 1.787 kg
25.4.24 Erling KE 140 Þorskfisknet
Þorskur 7.829 kg
Samtals 7.829 kg
25.4.24 Kaja ÞH 66 Grásleppunet
Grásleppa 1.269 kg
Þorskur 51 kg
Skarkoli 10 kg
Samtals 1.330 kg

Skoða allar landanir »