Laxeldi ógnar villta laxastofninum

Trostansfjörður. Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur, við rafveiðar í Norðdalsá. Áin ...
Trostansfjörður. Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur, við rafveiðar í Norðdalsá. Áin rennur til sjávar í Trostansfirði sem gengur inn úr Arnarfirði. Ljósmynd/Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir

Stefnt er að því að kafa í nokkrar ár á Vestfjörðum næsta haust og telja í þeim villta laxa og athuga um leið hvort þar sjást eldislaxar. Sjáist þeir verða þeir veiddir. Svona er farið að á hverju ári í fimmtíu ám í Noregi, að sögn Leós Alexanders Guðmundssonar, líffræðings hjá Hafrannsóknastofnun.

„Vonandi fáum við styrk til að skoða þetta. Við höfum sent umsókn í umhverfissjóð sjókvíaeldis. Við sóttum líka um í fyrra en fengum ekki jákvætt svar þá,“ sagði Leó. En stafar íslenskum villtum laxi ógn af fiskeldi, að mati Leós?

„Alveg klárlega, það er ekki spurning,“ sagði Leó.

„Mín stofnun [Hafrannsóknastofnun] hefur gefið út skýrslu um áhættumat á erfðablöndun. Þar eru lagðar ákveðnar línur um hvað megi ala mikið af laxi og á hvaða svæðum. Einnig eru taldar upp mótvægisaðgerðir. En í meginatriðum tel ég að íslenskum laxi stafi ógn af norskum laxi sem alinn er í sjókvíum hér við land. Sérstaklega laxastofnum á eldissvæðum sem eru ekki inni í áhættumatinu. Erfðablöndun getur dreifst út fyrir eldissvæðin með strokulöxum úr eldi en einnig vegna blendinga villts lax og eldislax frá eldissvæðum. Rannsóknir sýna einmitt að blendingar hafa verri rötun en villtur lax og geta því gengið í ár til hrygningar langt frá sinni heimaá.“

Tvö efstu seiðin eru urriðaseiði en þau neðri eru laxaseiði. ...
Tvö efstu seiðin eru urriðaseiði en þau neðri eru laxaseiði. Seiðin eru úr Bakkadalsá í Ketildölum í Arnarfirði. Myndirnar voru teknar sumarið 2016. Ljósmynd/Leó Alexander Guðmundsson

Mikið af seiðum í litlum ám

Leó hélt erindi á málþingi um erfðafræðileg áhrif laxeldis á villta laxastofna sem var haldið 1. febrúar. Erindi hans fjallaði um erfðablöndun eldislax og náttúrulegs lax á Vestfjörðum. Hann kynnti m.a. niðurstöður rannsókna á útbreiðslu laxfiska á svæðinu frá Súgandafirði í norðri til Rauðasands í suðri. Er mikið um laxfiska þar?

„Já, þar er mikið af laxfiskum. Við höfum mælt mikinn þéttleika af laxaseiðum í átta ám á svæðinu. Seiðaþéttleikinn sem við mældum t.d. sumarið 2016 var alveg á pari við það sem sjáum í góðum laxveiðiám. Árnar fyrir vestan eru stuttar og standa því ekki undir stórum stofnum eins og stórar laxveiðiár,“ sagði Leó.

Leó sagði margt enn á huldu um líffræði laxins á þessu svæði. Í svona litlum ám eru þess dæmi að laxarnir séu haustgöngulaxar. Þeir eru ekki í ánum á laxveiðitímanum heldur ganga í árnar til hrygningar á haustin. Haustgöngur laxa eru þekktar sums staðar erlendis. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða, að mati Leós. Bóndi í Arnarfirði sagði honum að lax í ám í Ketildölum í Arnarfirði væri einmitt haustgöngulax. Sé laxinn haustgöngulax þá getur það verið ein ástæða þess hvað lítið er vitað um laxinn á þessu svæði. Leó telur víst að villtur lax hrygni víða á svæðinu og gangi í árnar ýmist á sumrin eða að hausti. Laxveiði er t.d. í Sunndalsá í Arnarfirði og Staðará í Súgandafirði. Þar gengur því lax á veiðitímanum.

Vestfirskir laxar erfðahópur

Erfðasamsetning stofna á Vestfjörðum gefur til kynna að þeir myndi sérstakan erfðahóp og séu skyldari hver öðrum en laxastofnum í öðrum landshlutum. Leó sagði að betri greiningu þyrfti á stofngerð villtra laxa á Vestfjörðum.

Íslenski laxastofninn hefur mesta erfðafræðilega sérstöðu allra laxastofna í Evrópu. Norski laxinn tilheyrir annarri þróunarlínu. Sýnt hefur verið fram á erfðablöndun villtra laxa og eldislaxa í nágrenni eldissvæða á Vestfjörðum, eins og kom fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar sem gefin var út í fyrra. Sú staðreynd ógnar líffræðilegri fjölbreytni og getur valdið því að villtu laxastofnarnir á svæðinu hverfi í þeirri mynd sem þeir eru nú, að sögn Leós. Hann sagði engar rannsóknir styðja það að slík blöndum hefði jákvæð áhrif heldur þvert á móti. Því væri brýnt að rannsaka hver staðan væri og grípa til aðgerða til verndar íslenska villta laxinum.

Fiskeldiskvíar framan við ármynnið.
Fiskeldiskvíar framan við ármynnið. Ljósmynd/Leó Alexander Guðmundsson

Aðskilja á eldislax og villtan

Aðalfyrirlesari á málþinginu var dr. Kevin Glover við Hafrannsóknastofnunina í Noregi og Háskólann í Bergen. Hann er einn af fremstu vísindamönnum Noregs á sviði erfðablöndunar eldislax og náttúrulegs lax og vöktunar á erfðafræðilegum áhrifum laxeldis. Leó sagði að dr. Glover hefði birt fjölda vísindagreina, væri mjög virtur á heimsvísu og að það hefði verið hvalreki að fá hann hingað. Að sögn Leós kom staðan á Íslandi dr. Glover mjög á óvart og hann taldi að hér væri verið að taka mikla áhættu. „Glover fór yfir stöðuna í Noregi og endaði fyrirlestur sinn á að segja að það yrði að aðskilja eldislaxa frá villtum löxum. Það verður að gerast með eldisaðferðinni eða með því að gera eldislaxana ófrjóa,“ sagði Leó. Ýmsar aðferðir eru til að gera eldislaxa ófrjóa. Sú sem mest hefur verið rædd er að þrýstingsmeðhöndla hrognin þannig að þau verði þrílitna og þar með ófrjó.

Leó sagði að eldi á þrílitna laxi hefði reynst misvel og því hefðu fylgt ýmis vandamál. Það krefðist meiri aðgæslu en eldi frjórra laxa. Brýnt væri hins vegar að hefja tilraunir með eldi á ófrjóum laxi sem fyrst og þróa það fyrir íslenskar aðstæður.

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.9.18 365,82 kr/kg
Þorskur, slægður 18.9.18 309,67 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.9.18 323,94 kr/kg
Ýsa, slægð 18.9.18 275,40 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.9.18 113,58 kr/kg
Ufsi, slægður 18.9.18 121,19 kr/kg
Djúpkarfi 28.6.18 87,90 kr/kg
Gullkarfi 18.9.18 142,13 kr/kg
Litli karfi 28.6.18 45,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 18.9.18 221,98 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.9.18 Þórunn Sveinsdóttir VE-401 Botnvarpa
Karfi / Gullkarfi 34.356 kg
Djúpkarfi 2.443 kg
Samtals 36.799 kg
18.9.18 Flugaldan ST-054 Þorskfisknet
Þorskur 1.044 kg
Skarkoli 50 kg
Samtals 1.094 kg
18.9.18 Þura AK-079 Landbeitt lína
Þorskur 210 kg
Ýsa 89 kg
Langa 11 kg
Samtals 310 kg
18.9.18 Sunnutindur SU-095 Línutrekt
Þorskur 4.123 kg
Ýsa 606 kg
Ufsi 133 kg
Skötuselur 36 kg
Langa 31 kg
Karfi / Gullkarfi 16 kg
Steinbítur 16 kg
Samtals 4.961 kg

Skoða allar landanir »