„Flotinn er að skreppa saman“

Drekkhlaðinn til hafnar. Pétur segir að afkoman í greininni sé ...
Drekkhlaðinn til hafnar. Pétur segir að afkoman í greininni sé ekki beysin um þessar mundir. mbl.is/Árni Sæberg

Víða er pottur brotinn í fyrirkomulagi smábátaveiða og fiskmarkaða og allt stefnir í að útgerð smábáta leggist nánast af innan fárra ára. Þetta segir Pétur Sigurðsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Sólrúnar ehf. á Árskógssandi.

Sólrún er rótgróið fjölskyldufyrirtæki, stofnað árið 1961. Í dag fæst fyrirtækið fyrst og fremst við útgerð en Sólrún rak líka fiskverkun fram til ársins 2006. Bátarnir um þessar mundir eru tveir: einn línubátur með beitningarvél, Særún EA 251, og grásleppu- og handfærabáturinn Ingibjörg EA 351.

Fyrr á árinu barst 200 mílum til eyrna reikningur sem útgerðin fékk við löndun afla, þar sem 744 krónur fengust fyrir 62 kg af ufsa. Eftir að á upphæðina höfðu verið lögð hafnargjöld, sölugjöld, móttökugjöld og veiðigjöld þurfti útgerðin þó að greiða 1.522 krónur, eða 778 krónum meira en fengist hafði fyrir aflann.

„Auðvitað er þetta bara að gerast alla daga,“ segir Pétur, spurður um tilurð reikningsins.

Reikningurinn sem Pétur fékk fyrir að landa ufsanum.
Reikningurinn sem Pétur fékk fyrir að landa ufsanum.

„Hvetur til brottkasts“

„Til dæmis vorum við með bátinn á Skagaströnd um daginn, en þaðan fórum við í nokkra róðra. Þá fór stærri þorskurinn og stærri ýsan til Samherja í föstum viðskiptum, og afgangurinn, til dæmis smáýsa og undirmálsýsa, var seldur á markaði. Við lönduðum fimm sinnum en tvisvar kom fyrir að við fengum ekki krónu fyrir undirmálsýsuna. Hún seldist ekki,“ segir Pétur.

„Meðalverðið á þessum aukategundum þessa daga var í kringum sextíu til áttatíu krónur. Meðalveiðigjald á sama tíma nemur 22 krónum á þorsk og 26 krónum á undirmálsýsu. Og hún selst alla jafna ekki fyrir nema fimmtíu til hundrað krónur. Þetta er því gríðarlega hátt hlutfall veiðigjalda á þessum aukategundum,“ segir hann og bætir við að þetta hljóti að hafa skýr áhrif.

„Þetta náttúrlega hvetur beinlínis til brottkasts. Þegar menn sitja uppi með það að koma með aflann í land, vigta þetta, greiða veiðigjald og svo borga af þessu laun; þegar upp er staðið koma menn út í margföldum mínus.“

Fyrirkomulagið fjandsamlegt

Hann segir smábátasjómenn hafa gagnrýnt mikið þær aðferðir sem notaðar eru við útreikning veiðigjaldsins.

„Að það skuli vera föst krónutala en ekki tala sem tengd er að vissu leyti söluverðinu. Ef til vill gæti talan meira að segja verið föst í ákveðinni upphæð, en svo færi hún samt ekki yfir ákveðið hlutfall af söluverðinu. Ef fiskverð lækkar mikið gæti veiðigjaldið þannig tekið mið af því og gefið sjómönnum svigrúm svo þeir hreinlega leggi ekki upp laupana vegna endalausra gjalda.“

Hann segir þetta sérlega slæmt þegar línuveiðar séu annars vegar.

„Þetta er afar bagalegt, og í raun er margt í fyrirkomulagi veiðigjalda sem er okkur í smábátaútgerðinni afar fjandsamlegt,“ segir Pétur. „Til dæmis að gjaldstofn veiðigjaldsins skuli vera landaður afli en ekki seldur afli. Ef því yrði breytt myndi það muna ansi miklu fyrir okkur. Með sama hætti erum við í krókaaflamarkskerfinu bundnir þessum veiðarfæratakmörkunum, en greiðum samt sama veiðigjald og aðrir sem þó geta hagað sínum seglum eftir vindi og veitt í þau veiðarfæri sem skila þeim bestu tekjunum hverju sinni,“ segir Pétur.

Pétur segir fiskmarkaðina standa höllum fæti.
Pétur segir fiskmarkaðina standa höllum fæti. mbl.is/Sigurður Bogi

Njóta ekki hagnaðar af vinnslu

„Raunverulega skil ég ekki hvernig færa má rök fyrir þessu fyrirkomulagi, því margir af þessum sömu smábátum eru að landa á fiskmarkaði og njóta þar af leiðandi ekki hagnaðarins af vinnslunni, en veiðigjald er þó að hluta til tilkomið vegna hagnaðar vinnslu.“

Þess vegna segir Pétur að mun skynsamlegra væri að tengja veiðigjaldið við sölu aflans.

„Þá myndi vinnslan þurfa að taka tillit til þess við kaup á hráefninu á markaði, sem myndi þýða að vinnslan tæki gjaldið á sig í einhverjum tilvikum. Auðvitað spyrja margir: hvað með þá sem vinna aflann sinn sjálfir? Þetta á ekki að skipta neinu máli fyrir þá, enda kemur gjaldið bara á öðrum stað inn í framleiðsluferlið þeirra.“

Pétur nefnir annað dæmi um það sem hann segir vera misfellu í kerfinu.

„Það er línuívilnunin, sem verið hefur í langan tíma og komið sér mjög vel fyrir þá sem eru að vinna línuna í landi. Nú er svo komið að hún er orðin algjör forynja, að því leytinu til að þeim bátum sem vinna með landbeitta og landunna línu fækkar mjög hratt vegna þess að kostnaður í landi hefur einfaldlega hækkað verulega á sama tíma og fiskverð hefur lækkað.“

Afkoman ekki beysin

Landssamband smábátaeigenda greindi frá því í marsmánuði að 109 bátar hefðu fengið línuívilnun á yfirstandandi fiskveiðiári, en þeir voru 149 á fiskveiðiárinu 2016/2017. Felst ívilnunin í því að dagróðrabátar á línuveiðum geta í einstökum róðrum landað afla umfram aflamark í þorski, ýsu og steinbít. Til þess þarf að uppfylla fjölda skilyrða, en hafi línan verið beitt í landi má landa 20% umfram þann afla sem reiknast til kvóta, og hafi línan verið stokkuð upp í landi má landa 15% umfram þann afla sem reiknast til kvóta.

„En þeir sem senda línuna aldrei í land, þeir fá núll prósent,“ segir Pétur. „Þetta gerir það að verkum að víða eru bátar sem stokka upp í landi, sem eru með beitningarvél um borð og uppstokkara, en svo eru þeir með tvöfaldan skammt af línu og senda helminginn í land í hverjum róðri.“

Þeir útgerðarmenn sem ekki hafi ráð á þessu séu fljótir að yfirgefa greinina.

„Flotinn er að skreppa saman og það gerist mjög hratt. Afkoman er ekki beysin og menn horfa þannig á þetta að þeir geti alveg eins selt. Og það gera þeir. Ef til vill finnst sumum það góð þróun en ég held ekki. Menn standa svo frammi fyrir því eftir tvö, þrjú, fjögur ár að það eru engir smábátar eftir, kvótinn ekki nægilega dreifður, og þá fara menn að velta fyrir sér hvernig eigi að dreifa honum aftur. Þannig hefur kerfið okkar þróast í gegnum tíðina.“

Lítið magn þarf til að verð falli

Spurður hvernig hann meti stöðu fiskmarkaðanna segir Pétur að þeir standi mjög höllum fæti.

„Ég held að meginorsök þess sé í raun fækkun fiskverkana og jafnframt samþjöppun veiðiheimilda á hendur aðila sem vinna aflann sjálfir. Út frá þessu hefur framboð á fiskmörkuðum minnkað jafnt og þétt, sem hefur svo aftur gert það að verkum að þeim verkunum sem treysta alfarið á markaðina hefur fækkað.“

Sjá má viðtalið við Pétur í heild sinni í nýjasta sjávarútvegsblaði 200 mílna, sem fylgdi Morgunblaðinu föstudaginn 6. apríl.

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.12.18 307,84 kr/kg
Þorskur, slægður 18.12.18 389,41 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.12.18 250,54 kr/kg
Ýsa, slægð 18.12.18 212,49 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.12.18 79,72 kr/kg
Ufsi, slægður 18.12.18 123,37 kr/kg
Djúpkarfi 17.12.18 0,00 kr/kg
Gullkarfi 18.12.18 261,47 kr/kg
Litli karfi 24.10.18 17,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 18.12.18 192,57 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.12.18 Grímsey ST-002 Dragnót
Sandkoli 814 kg
Samtals 814 kg
18.12.18 Jónína Brynja ÍS-055 Lína
Þorskur 129 kg
Ýsa 113 kg
Steinbítur 72 kg
Hlýri 7 kg
Langa 4 kg
Samtals 325 kg
18.12.18 Guðmundur Einarsson ÍS-155 Landbeitt lína
Þorskur 94 kg
Ýsa 62 kg
Samtals 156 kg
18.12.18 Einar Hálfdáns ÍS-011 Landbeitt lína
Þorskur 2.085 kg
Ýsa 247 kg
Steinbítur 8 kg
Karfi / Gullkarfi 6 kg
Samtals 2.346 kg

Skoða allar landanir »