Vísa hvalir á loðnugöngur við landið?

Fyrirhugað er að merkja allt að 20 hnúfubaka í loðnuleiðangri ...
Fyrirhugað er að merkja allt að 20 hnúfubaka í loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar í haust. Ljósmynd/Tryggvi Sveinsson

Í loðnuleiðangri í september í haust er fyrirhugað að meta fjölda hvala á loðnuslóð norður og vestur af Íslandi eins og reynt hefur verið að gera þrjú síðustu haust. Jafnframt verða allt að 20 hnúfubakar merktir með gervitunglamerkjum í leiðangrinum. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir að megintilgangur merkinganna sé að kortleggja ferðir hnúfubaka og jafnvel langreyða á haustin en ef vel takist til geti merktir hvalir vísað á loðnugöngur þegar kemur fram yfir áramót og frekari mælingar og veiðar á loðnu hefjast.

Vísbendingar um afrán hvala

Gísli segir að í loðnuleiðangrinum verði ýmsum vistkerfisrannsóknum sinnt og mat á fjölda hvala sé hluti af því verkefni. Mat á fjölda hvala á loðnuslóðinni á þessum tíma gefur vísbendingu um hversu mikið hvalir éta af loðnu þar til vertíð hefst. Slíkar upplýsingar um afrán hvala má síðan hugsanlega nota við ráðgjöf á því sem leyft verður að veiða af loðnu, en þegar er farið að taka tillit til afráns nokkurra fisktegunda, t.d. þorsks. Þetta líkan er í þróun og ekki er ljóst hvort og þá hvenær afrán hvala verður hluti af ráðgjöf um loðnuveiðar

Tvö síðustu haust voru aðstæður erfiðar vegna veðurs til að meta fjölda hvala á loðnuslóð norður og vestur af Íslandi og inn í grænlenska lögsögu. Haustið 2015 voru skilyrði betri og benti matið til að verulegur fjöldi hvala væri á svæðinu á þessum tíma. Þá var metið að um sjö þúsund hnúfubakar hefðu verið þarna og um fimm þúsund langreyðar. Gísli segir að þessum tölum verði þó að taka með miklum fyrirvara því byggt sé á mun minni gögnum en í venjulegum hvalatalningum. „Það er þó óyggjandi að þarna var mikið af hval,“ segir Gísli.

Mikil fjölgun hvala

Samkvæmt síðustu stóru hvalatalningu fyrir þremur árum var talið að yfir tíu þúsund hnúfubakar hefðu verið á Mið-Norður-Atlantshafssvæðinu, þ.e. hafsvæðinu frá Austur-Grænlandi, til Íslands og Jan Mayen, og fjöldinn hefði náð stöðugleika eftir mikla fjölgun. Þegar skipulagðar hvalatalningar hófust á svæðinu árið 1987 var metið að innan við tvö þúsund hnúfubakar hefðu verið þar.

Gísli Víkingsson.
Gísli Víkingsson.

Á sama svæði var talið að væru tæplega 40 þúsund langreyðar fyrir þremur árum og þá var talið að 33.500 langreyðar hefðu verið á afmörkuðu svæði frá lóðréttri línu í gegnum Ísland vestur til Austur-Grænlands, sem hefur verið skilgreint sem veiðisvæði Íslendinga. Langreyðum hefur fjölgað mikið síðustu ár, en 2007 var talið að um 27 þúsund dýr hefðu verið á svæðinu frá A-Grænlandi til Jan Mayen.

Hnúfubakar hafa áður verið merktir við Ísland, en þá einkum í fjörðum og flóum fyrir norðan land. Tilgangur þeirra merkinga hefur fyrst og fremst verið að afla upplýsinga um suðurfar hvalanna á æxlunarstöðvar í Karíbahafi. Merkingarnar nú eru hins vegar hluti af verkefnum sem tengjast loðnurannsóknum og því hvort líklegt sé að hvalir vísi á loðnugöngur á vertíðinni.

Á loðnumiðum allan veturinn

„Það er mörgum spurningum ósvarað,“ segir Gísli. „Við vitum ekki hversu mörg dýr við náum að merkja, ekki hversu lengi merkið tollir í dýrunum og ekki heldur hvort hvalirnir halda áfram að elta loðnuna eða halda suður á bóginn. Það er alls ekki útilokað að hvalur með gervitunglamerki komi að gagni við loðnuleit og rannsóknir en við vitum það, meðal annars frá loðnusjómönnum, að talsvert er af hnúfubak á loðnumiðum allan veturinn.“

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.5.18 253,63 kr/kg
Þorskur, slægður 22.5.18 280,91 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.5.18 291,57 kr/kg
Ýsa, slægð 22.5.18 233,54 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.5.18 65,54 kr/kg
Ufsi, slægður 22.5.18 86,94 kr/kg
Djúpkarfi 15.5.18 33,00 kr/kg
Gullkarfi 22.5.18 110,80 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.5.18 281,87 kr/kg
Blálanga, slægð 22.5.18 274,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.5.18 Sigurður Ólafsson SF-044 Humarvarpa
Humar / Leturhumar 731 kg
Samtals 731 kg
23.5.18 Kjói ÍS-427 Sjóstöng
Þorskur 188 kg
Samtals 188 kg
23.5.18 Bliki ÍS-414 Sjóstöng
Steinbítur 71 kg
Þorskur 21 kg
Samtals 92 kg
23.5.18 Lundi ÍS-406 Sjóstöng
Steinbítur 19 kg
Samtals 19 kg
23.5.18 Máni ÞH-098 Grásleppunet
Grásleppa 2.337 kg
Þorskur 26 kg
Skarkoli 18 kg
Rauðmagi 12 kg
Ýsa 2 kg
Samtals 2.395 kg

Skoða allar landanir »