Kútterinn sem hvarf sporlaust

Skipið við Látraströnd í Eyjafirði.
Skipið við Látraströnd í Eyjafirði. Ljósmynd/Hallgrímur Einarsson/Minjasafnið á Akureyri

Kútterinn Helga EA 2 er ef til vill ekki mörgum kunn, en skipið fórst að öllum líkindum síðla sumars árið 1944. Saga þessa skips er rifjuð upp í nýjasta tölublaði Kompáss, málgagni útskriftarnema Skipstjórnarskólans, en í blaðinu er m.a. rætt við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra, fjallað um siglingarherma og farið yfir tæknibyltingu í veiðarfærum, svo dæmi séu tekin.

Upprifjun sögunnar má lesa hér að neðan, með góðfúslegu leyfi ritstjórnar Kompáss:

„Sagan af Helgu EA 2 er sveipuð mikilli dulúð en aldrei hefur hulunni verið svipt af örlögum hennar. Helga EA 2 var 80 – 100 rúmlesta kútter, þetta fley var smíðað í Englandi árið 1874. Þegar skipasmiðirnir höfðu lokið smíðinni var komið að því að sjósetja hana. Þegar skipinu var hleypt af stokknum misstu þeir það á stjórnborðshliðina og við það varð hræðilegt slys; unnusta yngsta skipasmiðsins varð undir skipinu. Hún var borin stórslösuð um borð og lögð í koju stjórnborðsmegin. Þar lést hún af sárum sínum. Upphaflega bar skipið nafnið „Onward“ en þegar Íslendingar eignuðust skipið var þeirra fyrsta verk að nefna það upp á nýtt og fékk það nafnið „Helga“ í höfuð ungu stúlkunnar. Hét það Helga alla tíð eftir það. Þetta slys var fyrsta og síðasta slysið sem henti þetta skip í sjötíu ára sögu þess.

Skipverjar sögðu svip Helgu ávallt fylgja skipinu. Átti hún það til að birtast skipverjum í draumi og vara þá við aðsteðjandi hættum. Héldu þeir þá hiklaust í var, þótt blíðskapaveður væri. Nokkru síðar kom mannskaðaveður. Oft var það þannig að ef önnur skip sáu Helgu EA 2 sigla í var héldu þau rakleiðis á eftir henni. Helga bjargaði því íslenskum sjómönnum oftar en ekki frá mannskaða. Helga EA 2 var fyrsta íslenska skipið til að hefja síldarveiðar við Norðurland árið 1902. Þessir flottu kútterar voru með öllu vélarlausir og okkar grjóthörðu forfeður tóku upp aflann á handaflinu einu.

Í kringum árið 1916 var svo komið fyrir 60 hestafla vél í skipinu. Það var á tímum fyrri heimstyrjaldar þegar skortur var á olíu og var þeim skömmtuð nokkur föt af olíu og þurfti hún að duga fyrir vertíðina. Því var látið reka að öllum líklegum síldarblettum og stundum þegar torfur sáust í fjarska lét skipstjórinn hásetana róa bátnum að torfunni til að spara olíuna. Á þessum tíma stunduðu þeir síldveiðar með herpinót. Á árunum 1943 – 1944 gerðu ríkisskip og hernámslið út skipið. Undir stjórn Landhelgisgæslu Íslands stundaði Helga EA 2 tundurduflaveiðar. Skipverjar fengu herriffla og skot með sérstökum stálkúlum til að skjóta göt á duflin og grönduðu þeir 104 duflum á hafi úti, auk margra dufla sem gerð voru óvirk í fjörum.

Síðla sumars 1944 lá skipið við festar við Drangsnes. Að því er virðist slítur skipið sig laust og leggur af stað á fullri ferð á haf út, í brjáluðu veðri. Var hún hvorki knúin vél né seglum til að koma sér áfram. Sendu menn önnur skip á eftir henni en það bar engan árangur. Virtist Helga EA 2 á blússandi siglingu, mannlaus. Bóndi einn á þessum slóðum sagðist sjá skipið á siglingu með tvo eða fleiri menn um borð. Þá sagði einn uppsperrtur: „Þetta er Helga, unga stúlkan sem varð undir skipinu þegar verið var að sjósetja það.“

Margar sögur hafa komist á kreik um afdrif Helgu EA 2. Sumir héldu því fram að Spánverjar hefðu stolið því, aðrir sögðu að hún hafi horfið með veðurguðunum og þá að Helga, unga stúlkan hefði tekið við stjórninni en enginn hefur séð til þessa skips aftur.“

Lesa blaðið í heild sinni

Frásögn þessi er fengin úr skrifum Gríms Karlssonar heitins, skipstjóra og bátslíkanasmiðs. Hefur hún áður verið birt bæði á prenti og í Ríkissjónvarpinu, ásamt því að vera skráð í hefti sem fylgir líkaninu af Helgu EA 2, sem er í bátasafni Gríms í Duushúsum Reykjanesbæ.

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 16.10.18 315,93 kr/kg
Þorskur, slægður 16.10.18 344,48 kr/kg
Ýsa, óslægð 16.10.18 244,28 kr/kg
Ýsa, slægð 16.10.18 250,36 kr/kg
Ufsi, óslægður 16.10.18 84,75 kr/kg
Ufsi, slægður 16.10.18 131,61 kr/kg
Djúpkarfi 3.10.18 124,00 kr/kg
Gullkarfi 16.10.18 250,07 kr/kg
Blálanga, óslægð 16.10.18 270,00 kr/kg
Blálanga, slægð 16.10.18 204,19 kr/kg

Fleiri tegundir »

15.10.18 Berti G ÍS-727 Landbeitt lína
Þorskur 2.699 kg
Ýsa 1.531 kg
Skarkoli 32 kg
Steinbítur 13 kg
Samtals 4.275 kg
15.10.18 Helga Sigmars NS-006 Landbeitt lína
Þorskur 353 kg
Ýsa 181 kg
Samtals 534 kg
15.10.18 Siggi Bjarna GK-005 Dragnót
Skarkoli 4.138 kg
Tindaskata 999 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 185 kg
Samtals 5.322 kg
15.10.18 Benni Sæm GK-026 Dragnót
Skarkoli 2.718 kg
Tindaskata 1.168 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 152 kg
Steinbítur 106 kg
Samtals 4.144 kg

Skoða allar landanir »