Allur strandveiðiafli fari á fiskmarkaði

Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og -útflytjenda.
Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og -útflytjenda. mbl.is/Hari

Skylda ætti allan strandveiðiafla til sölu á íslenskum fiskmörkuðum. Þetta segir Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og -útflytjenda. Í stuttum pistli sem hann hefur sent 200 mílum bendir hann á að verð á íslenskum fiskmörkuðum myndi grunn að allri verðmyndun á flestum fisktegundum á Íslandi.

„Þetta fiskverð sem þarna er myndað er svo notað til að reikna út afsláttarverð hjá Verðlagsstofu samkvæmt nýjustu kjarasamningum sjómanna. Fiskverð á mörkuðum myndast eins og á öllum samkeppnis mörkuðum af framboði og eftirspurn. Margir telja að magn hafi bein áhrif á þetta verð, en er það svo?“ spyr Arnar í grein sinni.

Vísar hann til viðtals við Einar Helgason strandveiðisjómann, sem birtist í 20. tölublaði Fiskifrétta í ár, þar sem hann gagnrýni verð á íslenskum fiskmörkuðum og beri það saman við verð í Grimsby.

Segist Arnar hafa þó nokkrar athugasemdir við framsetningu þess samanburðar sem Einar reifaði í viðtali sínu.

„Fyrst er að nefna að fiskmarkaðir hér heima líkt og í Grimsby eru að stærstu leyti uppboðsmarkaðir og verðráðarnir sem ég nefndi hér fyrir ofan stjórna því hvert verð er hverju sinni. Þannig er það afskaplega villandi að tala um stundarverð en ekki meðalverð. Það þekkja allir sem selt eða keypt hafa á markaði að verð sveiflast. Auðvelt er að skekkja umræðu með því að tiltaka dæmi um hátt verð á einum markaði og lágt á öðrum,“ segir Arnar.

Arnar bendir á að eitt af meginmarkmiðunum með strandveiðum, er ...
Arnar bendir á að eitt af meginmarkmiðunum með strandveiðum, er þær hófust fyrir 10 árum, hafi verið að auka verðmætasköpun og framboð á fiskmörkuðum innanlands, auk markmiða um nýliðun í útgerð. mbl.is/Alfons Finnsson

Tvöfalt hærra verð þurfi til útflutnings

„Í öðru lagi er það að nefna að gríðarlegur munur er á því hvort að verið er að selja óslægðan fisk á löndunarstað eða slægðan fisk til útflutnings. Telja má að munur á upprunalegri vigt óslægðs afla og slægðs afla til útflutnings geti numið allt að 15% og því ólíku saman að jafna. Stundum er talað um epli og appelsínur, hér er meira eins og búið sé að bíta í eplið sem borið er saman við appelsínuna.

Kostnaðarauki útflutnings gámafisks samanborið við sölu á fiskmarkaði á Íslandi er skv. mínum upplýsingum: flutningsgjöld, vátrygging, umboðslaun, slæging, gámafrágangur, erlendur kostnaður og önnur gjöld. Til lækkunar kemur sölukostnaður á innlendum mörkuðum. Mínar upplýsingar eru jafnframt þær að kostnaðarmunur þessi geti numið að lágmarki 100 ISK per/kg. Þessar 100 kr eru skv. opinberum meðal sölutölum fyrir gámafisk í Grimsby að lágmarki 35% af verðmæti aflans,“ segir Arnar.

Þegar þetta tvennt sé lagt saman megi áætla að tvöfalt hærra verð þurfi að fást að meðaltali til að útflutningur borgi sig.

„Ég hef þá trú á vinnslu hér innanlands að hún standist að meðaltali þennan samanburð.“

Mörg dæmi um uppsagnir og lokanir fyrirtækja

Arnar bendir á að eitt af meginmarkmiðunum með strandveiðum, er þær hófust fyrir 10 árum, hafi verið að auka verðmætasköpun og framboð á fiskmörkuðum innanlands, auk markmiða um nýliðun í útgerð.

„Hvergi var talað um aukna möguleika á útflutningi á óunnum fiski og þeim möguleikum sem það skapaði fyrir íslenska þjóð. Ég stend við þá skoðun mína að skylda eigi allan strandveiðiafla til sölu á íslenskum fiskmarkaði.“

Áhrif framboðs á fiskverð sé almennt svo að aukið magn til skamms tíma leiði af sér lægra verð og minnkað magn hærra verð.

„Langtímaáhrifin eru þó önnur. Skortmarkaðir eins og íslensku fiskmarkaðarnir hafa verið að leiða af sér viðvarandi minnkandi magn. Hærra verð til skamms tíma en til lengri tíma, veikingu á framleiðslugetu fyrirtækjanna sem þar keppa. Langtímaáhrifin af því eru því lækkandi verð með minnkandi langtímaeftirspurn. Í fréttum undanfarin misseri er auðvelt að sjá afleiðingar þessa, uppsagnir og lokanir hjá fyrirtækjum í landvinnslu. Mörg dæmi þess má finna,“ segir Arnar.

Hagfræðingar hafa bent á að til þess að viðhalda hagvexti ...
Hagfræðingar hafa bent á að til þess að viðhalda hagvexti á Íslandi sé ekki nóg að verðmæti sjávarafla haldist hátt, heldur þarf það stöðugt að aukast, segir Arnar. mbl.is/Alfons Finnsson

Kerfið aldrei staðið eins veikt og nú

„Ég vil hvetja útgerðarmenn og sjómenn til þess að hafa trú á íslenskri fiskvinnslu og á íslenskum fiskmörkuðum. Besta leið Íslands til að auka verðmæti sjávarafurða er að auka vinnslu afla hér innanlands. Það er eins og að pissa í skóinn sinn þegar þjóðhagslegum forsendum er varpað fyrir róða, einungis vegna þess að strandveiðisjómaður telur sig fá hærra skilaverð þegar fiskurinn er unnin erlendis.

Hagfræðingar hafa bent á að til þess að viðhalda hagvexti á Íslandi sé ekki nóg að verðmæti sjávarafla haldist hátt, heldur þarf það stöðugt að aukast. Það má ljóst vera að það gerist ekki með auknum útflutningi óunnins afla.

Stöndum vörð um innlent sölukerfi fisks, það hefur tryggt gríðarlega verðmætaaukningu allt frá 9. áratugnum þegar fyrstu uppboðin fóru fram. Kerfið hefur þó aldrei staðið eins veikt og nú og þurfa menn að snúa bökum saman til að verja það í stað þess að ráðast að því úr öllum áttum.

Spyrjum okkur öll, hvernig væri að starfa í sjávarútvegi á Íslandi án fiskmarkaða?“

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 17.4.19 355,41 kr/kg
Þorskur, slægður 17.4.19 380,86 kr/kg
Ýsa, óslægð 17.4.19 354,23 kr/kg
Ýsa, slægð 17.4.19 291,79 kr/kg
Ufsi, óslægður 17.4.19 91,66 kr/kg
Ufsi, slægður 17.4.19 125,76 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.19 224,97 kr/kg
Gullkarfi 17.4.19 208,01 kr/kg
Litli karfi 4.4.19 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 12.4.19 10,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.19 Guðmundur Þór SU-121 Grásleppunet
Grásleppa 1.094 kg
Þorskur 204 kg
Ýsa 28 kg
Skarkoli 6 kg
Samtals 1.332 kg
18.4.19 Fönix BA-123 Grásleppunet
Grásleppa 5.289 kg
Þorskur 505 kg
Rauðmagi 61 kg
Skarkoli 4 kg
Samtals 5.859 kg
18.4.19 Sæfari BA-110 Grásleppunet
Grásleppa 3.728 kg
Samtals 3.728 kg
18.4.19 Sindri BA-024 Grásleppunet
Grásleppa 878 kg
Þorskur 22 kg
Skarkoli 22 kg
Steinbítur 6 kg
Tindaskata 6 kg
Samtals 934 kg

Skoða allar landanir »