Bátum fækkað um helming

Elías segir veiðina hafa gengið ágætlega að undanförnu.
Elías segir veiðina hafa gengið ágætlega að undanförnu. mbl.is/Sigurður Bogi

Um tíu bátum er um þessar mundir róið til strandveiða frá Norðurfirði, eða um helmingi færri en síðustu tvö ár. Þetta segir Elías S. Kristinsson, sem gerir bátinn Þyt út frá Norðurfirði.

„Veðrið hefur verið ágætt, það hefur verið ríkjandi vestanátt í sumar en þetta hefur verið allt í lagi,“ segir Elías þegar blaðamaður slær á þráðinn til hans að morgni miðvikudags, en þá hafði hann lokið veiði dagsins klukkan tíu að morgni. „Það er ágætis fiskirí og þetta er allt að lagast sýnist mér, fiskurinn er farinn að ganga í flóann.“

Fiskurinn gengur jafnan síðar á veiðislóðum Strandamanna og því leist mörgum illa á breytingar á strandveiðikerfinu, sem gerðar voru með frumvarpi atvinnuveganefndar Alþingis í vor. Með frumvarpinu var skipting afla til strandveiða á fjögur svæði eftir landshlutum afnumin, en hún hafði verið við lýði allt frá því strandveiðarnar hófu göngu sína árið 2009.

Áhyggjurnar miklar í vor

Svæðaskiptinguna segir Elías „galið fyrirkomulag“, þegar litið sé til þess að allir strandveiðimenn landsins gangi á sömu aflaheimildir.

„Menn eru kannski að mokveiða fyrir vestan en á sama tíma get ég ekki farið vestur fyrir Horn til að veiða,“ segir hann. Áhyggjur af þessu voru enda miklar við upphaf strandveiðanna í vor:

„Nú er kominn heill pottur fyrir allt landið, og það sem við hræðumstum hérna á B-svæðinu, og ég veit að fleiri hræðast líka, er þessi mikli sóknarþungi á A-svæðinu og gott fiskerí þar. Okkar martröð væri sú að heildarpotturinn kláraðist í júlí og við fengjum ekkert að veiða í ágúst,“ sagði Kristmundur Kristmundsson, sem gerir út á bátnum Lunda ST-11, í samtali við blaðamann í maí, eftir að frumvarpið tók gildi.

Afli dagsins. Strandveiðar eru nú í fullum gangi um allt ...
Afli dagsins. Strandveiðar eru nú í fullum gangi um allt land. mbl.is/Sigurður Bogi

„Arfavitlaust að breyta þessu“

Elías segir að betur hafi farið en á horfðist hvað þetta varðar. „Það sem bjargaði okkur hérna var að veiðin hefur reynst léleg fyrir vestan. Annars hefðu þeir klárað þetta, Vestfirðingarnir, í júlí,“ segir Elías. „Þetta var enda arfavitlaust að breyta þessu. Ef bætt hefði verið við meiri kvóta, til að tryggja að maður fengi þessa tólf daga til róðrar, þá hefði þetta verið allt í lagi.“

Veðrið hefur verið sjómönnum hagstætt eins og áður sagði, en tvísýnt þótti í gær með veðrið þennan fimmtudaginn.

„Það er spurning hvort það verði bræla á morgun [í dag]. Við erum í biðstöðu, skoðum veður og ræðum við alla þá veðurglöggvustu menn sem við þekkjum,“ segir Elías. „Það er tvísýnt á morgun, hvort það verður veður eða ekki,“ bætir hann við og bendir á að nauðsynlegt sé fyrir strandveiðimenn á Norðurfirði að samræma veiði sína.

Aflinn keyrður suður

„Það kemur bíll að sunnan að sækja aflann og þess vegna verðum við að taka sameiginlega ákvörðun; að róa, eða róa ekki. Það er ekki hægt að láta manninn keyra norður með tóman bíl og svo mætir honum lítill sem enginn afli. Þess vegna getur þetta verið svolítið vandasamt.“

Elías segist telja að um tíu bátum sé nú róið út frá Norðurfirði.

„Þetta voru fáir sem byrjuðu en síðan hefur aðeins bæst í. Maður óttaðist að þessar breytingar á kerfinu myndu rústa þessum stað en það hefur kannski ekki orðið að veruleika undir eins. Þó er þetta ekki svipur hjá sjón miðað við í fyrra og hittiðfyrra. Hér er ekki einu sinni helmingur þeirra báta sem voru þá.“ Verð á fiskmörkuðum segir hann heldur ekki gott. „Það er samt sem áður betra en það var í fyrra. Það er ekkert hátt en alveg viðunandi. Krónan er auðvitað sterk og það hefur mikið að segja.“

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 17.4.19 355,41 kr/kg
Þorskur, slægður 17.4.19 380,86 kr/kg
Ýsa, óslægð 17.4.19 354,23 kr/kg
Ýsa, slægð 17.4.19 291,79 kr/kg
Ufsi, óslægður 17.4.19 91,66 kr/kg
Ufsi, slægður 17.4.19 125,76 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.19 224,97 kr/kg
Gullkarfi 17.4.19 208,01 kr/kg
Litli karfi 4.4.19 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 12.4.19 10,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

20.4.19 Siggi Bjartar ÍS-050 Grásleppunet
Grásleppa 1.344 kg
Skarkoli 20 kg
Rauðmagi 18 kg
Samtals 1.382 kg
20.4.19 Kristín ÓF-049 Grásleppunet
Grásleppa 1.078 kg
Þorskur 38 kg
Samtals 1.116 kg
20.4.19 Þorbjörg ÞH-025 Grásleppunet
Grásleppa 2.330 kg
Þorskur 111 kg
Samtals 2.441 kg
20.4.19 Aþena ÞH-505 Grásleppunet
Grásleppa 2.275 kg
Þorskur 50 kg
Samtals 2.325 kg

Skoða allar landanir »