Kóralrifin skoðuð í nærmynd

Litagleði. Núna notar Hafró sérstakan búnað sem látinn er síga …
Litagleði. Núna notar Hafró sérstakan búnað sem látinn er síga niður að hafsbotni til að mynda kóralrifin. Sjómenn leggja sitt af mörkum með því að benda á svæði þar sem þeir hafa orðið varir við kóral. Ljósmynd/Hafró

Svo mikið líf er í kringum íslensk kóralrif að það minnir Stefán Ragnarsson hjá Hafró á fjölbreytt lífríki regnskógarins. Kóralrifin þrífast vel á þeim svæðum þar sem botnveiði er ekki möguleg.

Á undanförnum árum hafa vísindamenn öðlast mun betri þekkingu á kóraldýrunum umhverfis Ísland. Stefán Áki Ragnarsson, sjávarlífræðingur á Hafrannsóknastofnun, er einn þeirra sem tekið hafa þátt í rannsóknum undanfarin ár og segir hann að á svæðum þar sem hefur verið lítil eða engin sókn bendir flesti til að kóralrifin undan ströndum Íslands séu heilbrigð og tiltölulega heilleg.

„Á þeim stöðum þar sem hægt er að stunda botnveiði er búið að eyðileggja að miklu eða öllu leyti kóralrif, ef þau voru til staðar, en á hinn bóginn þrífast kóralrifin vel á þeim svæðum þar sem ekki er hægt að toga s.s. vegna mikils dýpis eða botnlags. Dæmi um slík svæði eru Lónsdjúp og Reykjaneshryggurinn.“

Þó að þekking okkar á kóralsvæðunum hafi batnað segir Stefán …
Þó að þekking okkar á kóralsvæðunum hafi batnað segir Stefán erfitt að fullyrða um áhrif umhverfisbreytinga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Rannsóknaraðferðirnar hafa líka tekið miklum framförum á skömmum tíma. Stefán lýsir því hvernig rannsóknir á lífríki hafsbotnsins fóru áður þannig fram að einkum voru notaðir sleðar sem dregnir voru eftir sjávarbotni til að ná sýnum.

„Árið 2004 byrjuðum við síðan að nota ómannaðan kafbát til að framkvæma rannsóknir sem ekki valda skaða á kóralnum. Þá hlaut Hafrannsóknastofnun styrk frá Evrópusambandinu árið 2008 og var það fjármagn notað til kóralrannsókna næstu fjögur árin þar á eftir,“ útskýrir hann.

„Nú notum við ekki lengur ómannaða kafbáta heldur sérsmíðaða grind sem er slakað út fyrir borðstokkinn og er útbúin myndavélabúnaði sem kortleggur búsvæði botndýra á sjávarbotni, bæði með myndbandsupptöku og ljósmyndum í hárri upplausn. Við höfum getað kortlagt stór svæði og fengið dágóða mynd af búsvæðum kórala.“

Erfitt að fullyrða um umhverfisáhrif

Víða um heim hafa umhverfisverndarsinnar miklar áhyggjur af súrnun sjávar sem og af margvíslegum öðrumumhverfisbreytingum sem geta haft mjög skaðleg áhrif á ástand kóraldýra og kóralrifja. Ef kóralrifin skemmast þá getur það valdið keðjuverkun hjá öllum þeim sjávardýrum sem reiða sig á kóralrifin við fæðuleit, hrygningu eða til að leita þar skjóls. Stefán segir ekki hægt að greina þróun af þessum toga hjá íslenskum kóralrifum enda um djúpsjávarkóral að ræða sem ekki er jafn útsettur fyrir t.d. áhrifum hnattrænnar hlýnunar og heitsjávarkórall. Stefán gerir samt þann fyrirvara að rannsóknir á íslenskum kóral eru enn skammt á veg komnar og ekki hægt að fullyrða að hvaða marki umhverfisþættir, svo sem þeim sem geta valdið súrnun sjávar, kunna að hafa áhrif.

Mikið líf er á þeim svæðum þar sem finna má kóral í íslenskri lögsögu og má leiða líkur að því að ýmsar fisktegundir njóti góðs af því skjóli og fæði sem þar er að finna. „Fjölbreytnin er gríðarleg, og að koma í kóralrif er eins og að fara úr eyðimörk yfir í hitabeltisskóg.“

Að sögn Stefáns er t.d. ljósáta áberandi í kóralrifjunum og keilan sækir líka í kórala enda hrifin af búsvæðum sem eru flókin að gerð. „Það má líka sjá mikið af karfa á þessum svæðum en ekki hægt að fullyrða um hvort það er út af sjálfum kóralnum eða vegna þess að kóralrifin mynda flókið búsvæði. Hitt er víst að það getur verið mikið af karfa og öðrum fiski á þessum stöðum.“

Skjól. Lögun kóralrifanna hjálpar smærri sjávardýrum að fela sig fyrir …
Skjól. Lögun kóralrifanna hjálpar smærri sjávardýrum að fela sig fyrir hættu. Ljósmynd/Hafró

Sjómenn skilja mikilvægið

Kóralar eru óvenjuleg dýr og viðkvæm í byggingu. Sem lítil lirfa berst kóraldýrið með hafstraumum uns það finnur sér samastað og byrjar þá að vaxa og mynda utan um sig mjúkan eða harðan hjúp. „Það má flokka harða kórala gróflega í tvo meginhópa; rifmyndandi kórala annars vegar og staka kórala hins vegar,“ útskýrir Stefán. „Kóraldýrið myndar utan um sig kalkrör, og vex síðan út á við eða upp á við. Þegar um er að ræða kóralrif, að þá drepst neðsta lag kalkbyggingarinnar á meðan dýrið vex, og dökknar að lit og þegar kórallinn brotnar niður verður hann að grófgerðum salla. Á hinn bóginn geta sumir stakir kóralar myndað nokkurra metra há kóraltré neðansjávar.“

Stefán segir sjómenn oft meðvitaða um hve mikilvægt það er að vernda kóralrif. „Það var t.d. að frumkvæði sjómanna að svæði suðaustur af Hvalbak, svokallaður Rósagarður, var friðaður. Þá hafa sjómenn gefið rannsakendum Hafrannsóknastofnunar dýrmætar upplýsingar um hvar kóral er líklegt að finna enda þekkja þeir sjávarbotninn vel.“

Þá bendir Stefán á að það sé í dag eitt af skilyrðunum fyrir vottun um sjálfbærni veiða að útgerðir umgangist kóralsvæði af varkárni og fagmennsku. „Gæðavottun, t.d. frá MSC, er háð því að sjómenn forðist hvers kyns skemmdir á kóral og þar skiptir góð upplýsingagjöf höfuðmáli svo að önnur skip geti forðast þau svæði þar sem kóralar koma í veiðarfærin.“

Viðtalið birtist fyrst í sérstöku sjávarútvegsblaði 200 mílna og Morgunblaðsins, sem fylgdi blaðinu laugardaginn 1. september.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.4.24 456,57 kr/kg
Þorskur, slægður 23.4.24 532,04 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.4.24 237,25 kr/kg
Ýsa, slægð 23.4.24 143,44 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.4.24 177,15 kr/kg
Ufsi, slægður 23.4.24 227,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 23.4.24 177,61 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.4.24 Toni NS 20 Landbeitt lína
Þorskur 1.967 kg
Ýsa 1.209 kg
Steinbítur 816 kg
Skarkoli 14 kg
Samtals 4.006 kg
23.4.24 Eydís NS 320 Handfæri
Þorskur 305 kg
Ýsa 3 kg
Samtals 308 kg
23.4.24 Elfa HU 191 Grásleppunet
Grásleppa 1.151 kg
Þorskur 363 kg
Skarkoli 10 kg
Samtals 1.524 kg
23.4.24 Kristján SH 176 Handfæri
Þorskur 1.664 kg
Samtals 1.664 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.4.24 456,57 kr/kg
Þorskur, slægður 23.4.24 532,04 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.4.24 237,25 kr/kg
Ýsa, slægð 23.4.24 143,44 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.4.24 177,15 kr/kg
Ufsi, slægður 23.4.24 227,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 23.4.24 177,61 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.4.24 Toni NS 20 Landbeitt lína
Þorskur 1.967 kg
Ýsa 1.209 kg
Steinbítur 816 kg
Skarkoli 14 kg
Samtals 4.006 kg
23.4.24 Eydís NS 320 Handfæri
Þorskur 305 kg
Ýsa 3 kg
Samtals 308 kg
23.4.24 Elfa HU 191 Grásleppunet
Grásleppa 1.151 kg
Þorskur 363 kg
Skarkoli 10 kg
Samtals 1.524 kg
23.4.24 Kristján SH 176 Handfæri
Þorskur 1.664 kg
Samtals 1.664 kg

Skoða allar landanir »