Heiðrún svarar Björgólfi

Heiðrún segir það rétt að halda því til haga að ...
Heiðrún segir það rétt að halda því til haga að yfir 95% þess kvóta sem upphaflega var úthlutað, hafi skipt um hendur í hefðbundnum viðskiptum. Fáir í sjávarútvegi geti því borið titil svokallaðra greifa, sem almennt komist í álnir fyrir ættir einar. mbl.is/Árni Sæberg

Alhæfingar Björgólfs Thors Björgólfssonar um meint brask í sjávarútvegi, þar sem kvótagreifar setji nýtt met í arðgreiðslum og gefi almenningi fingurinn, eru ómálefnalegar. Þetta segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Í grein, sem Heiðrún ritar á vef samtakanna, vísar hún til skrifa sem birtust á heimasíðu Björgólfs á dögunum.

„Leit hann þar um öxl nú þegar 10 ár eru liðin frá hruninu og vék meðal annars að eigin ábyrgð, auk þess að gagnrýna annað sem miður fór,“ segir Heiðrún og bætir við að taka megi undir með Björgólfi, um að margt hefði betur mátt fara í aðdraganda hrunsins.

Orðfæri Björgólfs valdi vonbrigðum

„Hvað sem því líður, þá er sú sem þetta ritar þeirrar skoðunar að íslenska bankakerfið sogaðist inn í alþjóðlegan efnahagslegan hvirfilbyl og fékk þar engri viðspyrnu við komið. Þó að sannanlega sé misjafn sauður í mörgu fé, þá er ósanngjarnt – og raunar rangt – að alhæfa að íslensku bankakerfi hafi verið stýrt af glæpamönnum eða bröskurum. Svo var alls ekki,“ segir hún.

„Meðal annars af þessum sökum leyfi ég mér að gagnrýna ómálefnalegar alhæfingar Björgólfs um meint brask í sjávarútvegi, þar sem kvótagreifar setji nýtt met í arðgreiðslum og gefi almenningi fingurinn, á meðan leiðir séu fundnar til að tryggja að útgerðin greiði sem allra minnst fyrir aðgang að sjávarauðlindinni. Orðfærið veldur vonbrigðum og efnistökin koma nokkuð á óvart, sér í lagi þegar litið er til mikillar reynslu Björgólfs af viðskiptum,“ segir Heiðrún og bætir við að rétt sé að fara yfir nokkur atriði.

Veiðigjald felur í sér að um þriðjungur af afkomu útgerða ...
Veiðigjald felur í sér að um þriðjungur af afkomu útgerða rennur í ríkissjóð, segir Heiðrún. mbl.is/Árni Sæberg

Arðgreiðslur þriðjungi lægri

„Á tímabilinu 2010-2016 voru arðgreiðslur í sjávarútvegi um 21% af hagnaði. Til samanburðar voru arðgreiðslur í viðskiptahagkerfinu öllu á sama tímabili um 31% af hagnaði. Þannig voru arðgreiðslur í sjávarútvegi um þriðjungi lægri en í viðskiptahagkerfinu á tímabili sem telur ein bestu ár í sögu sjávarútvegs og líklega ein verstu ár í innlendum atvinnurekstri. Hér er auðvitað um meðaltal að ræða, en til eru fyrirtæki sem greiða meira á meðan önnur greiða minna, eins og gengur og gerist. Arðgreiðslur fjarskiptafyrirtækisins Nova til hluthafa sinna voru til að mynda um 45% af hagnaði á tímabilinu 2010-2016.

Sjávarútvegur er að mörgu leyti frábrugðinn annars konar rekstri fyrirtækja. Því fer fjarri, eins og margir virðast halda, að hægt sé að sigla út á hvaða kopp sem er og dæla fjármunum af hafsbotni. Fiskur í sjónum er í sjálfu sér einskis virði ef hann syndir bara um sæll í sínu. Það þarf að hafa dýr tæki og tækni, og umfram allt kunnáttu og reynslu, til að hafa uppi á honum. Því næst þarf að gera úr honum eins mikil verðmæti og hægt er. Það hefst með vel tækjum búinni fiskvinnslu og skipulagðri markaðssetningu á erlendum markaði, en 98% af íslenskum fiski eru flutt út.“

Hvikulir stjórnmálamenn með misgáfulegar hugmyndir

Heiðrún bendir á að rekstri í sjávarútvegi fylgi einnig töluverð áhætta.

„Náttúran er stór áhættuþáttur, sem bæði gefur og tekur. Fiskistofnarnir eru villtir og lúta ekki boðvaldi mannanna. Síldin kom og síldin fór. Rækjan er svo gott sem horfin og humarinn virðist vera á sömu leið. Þorskstofninn fór niður úr öllu valdi, en hefur blessunarlega verið að rétta úr kútnum. Loðnan er svo sérkapítuli; á hana er ekki hægt að stóla og alltaf happdrætti hversu mikið má veiða á hverri vertíð.

Þá ber að nefna hina manngerðu áhættu, sem eru hvikulir stjórnmálamenn. Svo virðist sem sumir þeirra hafi af því sérstaka ánægju að níða skóinn af sjávarútvegsfyrirtækjum og misgáfulegar hugmyndir spretta upp með reglulegu millibili. Flestar þessara hugmynda eru því marki brenndar að þær miða að því að setja atvinnugreinina í hauslás og skrúfa fyrir súrefnið sem nauðsynlegt er atvinnugreininni í hinu alþjóðlega umhverfi sem hún starfar í.“

Björgólfur Thor talaði um kvótagreifa í nýjustu grein sinni.
Björgólfur Thor talaði um kvótagreifa í nýjustu grein sinni. mbl.is/RAX

Niðurstaðan yrði æði snautleg

Heiðrún segir ástæðu þess, að hún fari í greininni yfir þær áhættur sem fylgi rekstri í sjávarútvegi, kannski fyrst og síðast þá, að benda á að með aukinni áhættu verði ávöxtunarkröfur fjárfesta meiri.

„Þrátt fyrir þessa sérstöku áhættuþætti, sem aðrar atvinnugreinar búa ekki við, og að teknu tilliti til ávöxtunarkröfu og fjárbindingar, hefur arðsemi í sjávarútvegi ekki verið óeðlilega há, þvert á móti. Hið meinta brask er nú ekki meira en svo.

Þá spyr Björgólfur einnig af hverju arðurinn af auðlindinni renni ekki í sjóð landsmanna eins og arðurinn af olíuvinnslu Norðmanna. Auðlindinni, skrifar hann með ákveðnum greini, en þær eru fleiri en ein, þótt sjávarútvegurinn sé eina atvinnugreinin sem greiðir auðlindagjald. Náttúran, orkan og jafnvel fjarskiptatíðnisvið hafa verið skilgreind sem náttúrulegar auðlindir landsins, en ekkert hefur þó gjaldið verið frá fyrirtækjum sem slíkar auðlindir yrkja. Látum það liggja á milli hluta,“ segir hún og heldur áfram:

„Veiðigjald felur í sér að um þriðjungur af afkomu útgerða rennur í ríkissjóð. Það hefði verið upplýsandi fyrir málefnalega umræðu að heyra hvert þetta gjald ætti að vera að mati Björgólfs og hvernig hið hækkaða gjald kæmi við samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðlegum markaði. Það vekur raunar undrun að Björgólfur skuli í annars fátæklegum rökstuðningi bera saman olíuna og fiskinn í sjónum, enda er þar um að ræða samanburð á eplum og appelsínum. 

Rétt hefði verið að bera saman þann arð sem sjávarútvegur í Noregi greiðir, við þann sem sá íslenski greiðir. Eru þá bornar saman sambærilegar atvinnugreinar á milli landa, sem eiga jafnframt í harðri samkeppni sín á milli. Því er þá til að svara að sjávarútvegur í Noregi greiðir ekkert auðlindagjald. Ef Björgólfur vill að Íslendingar greiði af sjávarauðlindinni það sama og Norðmenn, þá verður niðurstaðan æði snautleg. Sem betur fer er íslenskur sjávarútvegur burðugari en svo.“

Ósmekkleg orðnotkun

„Að lokum er rétt í ljósi ósmekklegrar orðnotkunar um kvótagreifa að halda því til haga að yfir 95% þess kvóta sem upphaflega var úthlutað, hefur skipt um hendur í hefðbundnum viðskiptum. Fáir í sjávarútvegi geta því borið titil svokallaðra greifa, sem almennt komast í álnir fyrir ættir einar.

Björgólfur hefur að líkindum sjálfur fengið ofgnótt umræðu um eigin viðskipti. Undan henni er ekki hægt að kveinka sér, en þá kröfu hlýtur hann sjálfur að gera að umræðan sé upplýsandi og málefnaleg. Í gagnrýni hans á sjávarútveg hlýtur að mega gera sömu lágmarkskröfu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 9.12.18 301,16 kr/kg
Þorskur, slægður 9.12.18 360,78 kr/kg
Ýsa, óslægð 9.12.18 301,01 kr/kg
Ýsa, slægð 9.12.18 292,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 9.12.18 127,75 kr/kg
Ufsi, slægður 9.12.18 152,80 kr/kg
Djúpkarfi 6.12.18 307,00 kr/kg
Gullkarfi 9.12.18 319,38 kr/kg
Litli karfi 24.10.18 17,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 6.12.18 64,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

10.12.18 Sæþór EA-101 Þorskfisknet
Þorskur 1.942 kg
Skarkoli 44 kg
Samtals 1.986 kg
10.12.18 Guðmundur Á Hópi HU-203 Lína
Þorskur 2.193 kg
Ýsa 1.515 kg
Samtals 3.708 kg
10.12.18 Gullver NS-012 Botnvarpa
Ufsi 41.051 kg
Karfi / Gullkarfi 607 kg
Ýsa 602 kg
Grálúða / Svarta spraka 130 kg
Hlýri 77 kg
Langa 63 kg
Steinbítur 40 kg
Skötuselur 15 kg
Keila 8 kg
Blálanga 7 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 4 kg
Samtals 42.604 kg

Skoða allar landanir »