Það versta sem gæti gerst

Olíuflutningaskipið Prestige brotnaði og sökk við norðvestanverðan Spán árið 2002.
Olíuflutningaskipið Prestige brotnaði og sökk við norðvestanverðan Spán árið 2002. AFP

Skiljanlegt er að athygli stjórnvalda og sjávarútvegsfyrirtækja beinist einkum að því að veiðar séu sjálfbærar og reynt sé að skapa sem mest verðmæti úr íslenskum fiski. En hefur gleymst að huga að ytri hættum sem gætu kippt fótunum undan greininni?

Tölfræðingurinn Nassim Taleb hefur fjallað um það í bókum sínum að oft eru það sjaldgæf og ófyrirsjáanleg stóráföll sem móta söguna meira en nokkuð annað. Hann tiltekur fyrri heimsstyrjöldina, endalok Sovétríkjanna og árásirnar á Tvíburaturnana sem dæmi um slíka viðburði, svokallaða „svarta svani“, sem komu flestum í opna skjöldu og sneru öllu á haus.

Ef Taleb myndi skoða íslenska hagkerfið og leita þar að svörtum svönum myndi hann sennilega beina sjónum sínum að sjávarútveginum, enda undirstöðuatvinnugrein. Ef til vill myndi Taleb segja að rétt eins og við eigum að gæta vel að því hvernig hámarka megi veiðar og verðmætasköpun, eða hvernig best væri að reikna út upphæð veiðigjalda, þá þurfi líka að skoða hvers konar stóráföll geti dunið á greininni og hvernig má þá reyna að forðast áföllin, eða a.m.k. lágmarka af þeim tjónið. Stóráföllunum þarf að gefa gaum, enda færi allt á annan endann ef eitthvað yrði til þess að spilla veiðum eða sölu á verðmætum fisktegundum.

Olíuflekkur í hafi undan ströndum eyjarinnar Korsíku í Miðjarðarhafi. Myndin …
Olíuflekkur í hafi undan ströndum eyjarinnar Korsíku í Miðjarðarhafi. Myndin er tekin 8. október. AFP

Mengun þynnist hratt út

Héðinn Valdimarsson, sviðsstjóri á umhverfissviði Hafrannsóknastofnunar, segir að blessunarlega sé fátt sem gæti valdið miklu tjóni í hafinu umhverfis Ísland, og líkurnar á stóráföllum ekki miklar. Ef t.d. kjarnorkuslys yrði í Norður-Íshafi, Evrópu eða á austurströnd Bandaríkjanna, eða olía myndi leka úr skipi úti á miðju Atlantshafi, þá er bæði óvíst hvort hafstraumar myndu bera mengunina til Íslands og líka hægt að reikna með að mengunin þynnist svo hratt út í risastóru hafinu að áhrifin væru þverrandi. „Við sáum það t.d. þegar Deepwater Horizon-olíulekinn varð í Mexíkóflóa að mengunin var öll takmörkuð við það svæði. Þynningin er svo geysileg þegar komið er út á meira dýpi,“ segir hann.

Slysin eru alvarlegri ef þau verða á grunnsævi, þar sem þynningin er minni, og segir Héðinn að þegar gámaflutningaskipið Vikartindur strandaði á Háfsfjöru árið 1997 hafi margir óttast að efni gætu borist úr skipinu og mengað viðkvæmar hrygningarstöðvar. Í kjölfarið voru gerðar þær breytingar að færa siglingaleiðir flutningaskipa fjær landinu til að draga úr hættunni á slysum á grunnsævi. Einnig var farið að huga betur að viðbrögðum ef kæmi til efna- eða olíuleka svo að tryggt væri að réttur búnaður og þjálfaðir viðbragðsaðilar væru til taks til að lágmarka tjónið af slysum.

Héðinn bendir á að það séu ekki bara óvænt stórslys sem geti valdið búsifjum. „Til dæmis gæti súrnun sjávar og vaxandi plastmengun verið vandi sem við ættum að sinna enn betur. Nú þegar má greina súrnun umhverfis Ísland og plastmengun orðin vandamál í Atlantshafi rétt eins og annars staðar, og gæti spillt ímynd íslensks hráefnis.“

Og ímyndartjón getur haft veruleg áhrif. Er skemmst að minnast sjómannanna sem veiða undan ströndum Fukushima og gátu ekki selt aflann sinn á erlendum mörkuðum í sjö ár eftir slysið sem varð í kjarnorkuverinu þar árið 2011. Voru neytendur líka lengi efins um heilnæmi kyrrahafsfisks, þrátt fyrir fullyrðingar vísindamanna um að aukning geislunar í fiski á svæðinu væri vart greinanleg.

Gámaflutningaskipið Vikartindur strandaði á Háfsfjöru árið 1997.
Gámaflutningaskipið Vikartindur strandaði á Háfsfjöru árið 1997. mbl.is/RAX

Evrópuþjóðir á varðbergi

Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, segir að það sé m.a. á vettvangi OSPAR sem hafðar eru gætur á hættum sem steðja að hafinu. „Að OSPAR-sáttmálanum koma fimmtán Evrópuþjóðir og starfa saman að umhverfisvernd í Norðaustur-Atlantshafi. Var það m.a. á þeim vettvangi sem aðildarlönd beittu sér fyrir því að kjarnorkuverinu í Sellafield yrði lokað vegna losunar geislavirkra efna út í sjó.“

Kristján bætir við að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, utanríkis-, umhverfis- og auðlindaráðuneyti starfi saman að því að samræma afstöðu Íslands á alþjóðasviði hvað varðar málefni hafsins. „Er um að ræða sérstakt verkefni sem miðar að því að samræma afstöðu og efla forsvar Íslands varðandi málefni hafsins og er stýrt af Jóhanni Sigurjónssyni, fyrrverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar,“ segir hann. „Einnig höfum við mælingar og gögn um ástand hafsins áratugi aftur í tímann og getum greint hvers kyns frávik með hraði.“

Hugað er að vöktun og forvörnum víðar og nefnir Kristján að Norræna ráðherranefndin hafi fjallað um hugsanlegar mengunarhættur í Rússlandi og einnig aðstoðað Eystrasaltsríkin við að bæta stöðu umhverfismála með fjármagni og ráðgjöf. „Þá hefur Norræni fjárfestingabankinn verið nýttur til að færa þessi lönd nær okkur á sviði umhverfismála og styðja við uppbyggingu minna mengandi starfsemi.“

Hvað gerist í olíuslysi?

Sigríður Kristinsdóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir áhrifin af olíuslysi úti á sjó ráðast af mörgum þáttum. Díselolía hvarfist t.d. og gufi upp hraðar en svartolía og valdi því minna tjóni, og ef djúpt er til botns dreifist mengunin og þynnist út yfir stærra svæði svo áhrifin verða ekki eins alvarleg.

„Olían getur drepið allt líf þar sem hún lendir. Fyrst um sinn flýtur olían á yfirborði sjávar og er þá reynt að koma í veg fyrir að hún berist upp í fjöru því þar getur skaðinn orðið hvað mestur og alfleiðingarnar miklar og langvarandi fyrir botndýra- og fuglalíf,“ útskýrir Sigríður. „Smám saman leitar olían niður á hafsbotn og getur þar valdið eituráhrifum og jafnvel kæft allt lífríki svo það gæti verið mörg ár að jafna sig.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 343 kg
Ýsa 113 kg
Karfi 7 kg
Samtals 463 kg
19.4.24 Straumey EA 50 Línutrekt
Þorskur 3.105 kg
Karfi 23 kg
Steinbítur 3 kg
Samtals 3.131 kg
19.4.24 Guðrún GK 96 Grálúðunet
Grásleppa 345 kg
Samtals 345 kg
18.4.24 Guðmundur Þór NS 121 Handfæri
Ufsi 1.163 kg
Þorskur 189 kg
Karfi 6 kg
Samtals 1.358 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 343 kg
Ýsa 113 kg
Karfi 7 kg
Samtals 463 kg
19.4.24 Straumey EA 50 Línutrekt
Þorskur 3.105 kg
Karfi 23 kg
Steinbítur 3 kg
Samtals 3.131 kg
19.4.24 Guðrún GK 96 Grálúðunet
Grásleppa 345 kg
Samtals 345 kg
18.4.24 Guðmundur Þór NS 121 Handfæri
Ufsi 1.163 kg
Þorskur 189 kg
Karfi 6 kg
Samtals 1.358 kg

Skoða allar landanir »