Þorskurinn vítamínsprauta og stuðpúði

Frá degi þorsksins í Húsi sjávarklasans fyrr í mánuðinum.
Frá degi þorsksins í Húsi sjávarklasans fyrr í mánuðinum. mbl.is/Hari

Verðmæti útfluttra þorskafurða frá aldamótum jafngildir um 20 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Önnur lönd saxa smám saman á gæðaforskot Íslands.

Skammt er síðan dagur þorsksins var haldinn hátíðlegur í fjórða sinn í Húsi sjávarklasans. Viðburðinum er ætlað að minna á hve mikilvægur þorskurinn er fyrir hagkerfi Íslands og hvernig þorskafurðir og tækni tengd veiðum og vinnslu standa árlega undir stórum hluta af útflutningstekjum landsins.

Í tilefni dagsins gaf Sjávkarlasinn út nýja samantekt, Heill sé þér þorskur, sem sýnir svart á hvítu hve ómissandi þessi dýrmæti fiskur er orðinn: „Bara frá aldamótum er heildarverðmæti útfluttra þorskafurða tæpir 1.700 milljarðar króna uppreiknað á verðlagi þessa árs. Það gerir um það bil 5 milljónir króna á hvern Íslending, eða 20 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu á aðeins 18 ára tímabili,“ segir Húni Jóhannesson, sérfræðingur hjá Arctica Finance. Húni er einn af höfundum samantektarinnar og hefur yfirumsjón með samstarfi Sjávarklasans og Arctica Finance.

Húni Jóhannesson, sérfræðingur hjá Arctica Finance.
Húni Jóhannesson, sérfræðingur hjá Arctica Finance.

Mikil nýsköpun sprottið úr sjávarútveginum

Húni bendir á að þorskurinn, sem og aðrar fisktegundir, hafi líka þjónað hlutverki stuðpúða á erfiðum tímum í efnahagslífi Íslands. „Ásgeir Jónsson hagfræðingur nefndi þetta í erindi á Sjávarútvegsdegi Deloitte á dögunum; að þegar hriktir í stoðum atvinnulífsins hjálpar sjávarútvegurinn til að efla hagkerfið og ná aftur jafnvægi,“ segir hann. „Verðmætin sem verða til í sjávarútvegi dreifast líka víða um samfélagið, bæði til þeirra sem starfa við fiskvinnslu og veiðar og líka tæknifyrirtækjanna sem hanna og smíða skip og tæki, og til annarra stoðgreina.“

Mikilvægi þorsksins segir Húni að mælist ekki bara í seldum afurðum, heldur komi líka fram í starfsemi þeirra fyrirtækja sem urðu til í kringum ýmsa þjónustu við sjávarútveginn. „Mikil nýsköpun hefur sprottið upp úr sjávarútveginum og ný fyrirtæki orðið til sem hafa í framhaldinu haslað sér völl á öðrum sviðum. Einnig hafa komið fram á sjónarsviðið hátæknifyrirtæki sem sérhæfa sig í að búa til glænýja vöruflokka úr sjávarfangi, s.s. verðmæt ensím, fæðubótarefni og lækningavörur.“

Húni segir að það sé vegna þessarar miklu nýsköpunar að á sama tíma og þorskveiðar hafi dregist saman um helming hafi heildarverðmæti þorskafurða tvöfaldast. „Þegar mest lét, áður en kvótakerfið var sett á, lönduðu íslensk skip um 460.000 tonnum af þorski en undanfarin þrjú ár hefur aflamarkið verið á bilinu 244 til 264.000 tonn. Hefur tekist að gera hvert þorskkíló um það bil fjórfalt verðmætara á hér um bil þremur áratugum enda blasti það við greininni eftir að kvótakerfinu var komið á að leggja þyrfti áherslu á hagræðingu, nýsköpun, tæknivæðingu og gæði.“

Forskotið fer minnkandi

Íslenskur fiskur þykir bera af og matgæðingar um allan heim taka íslenskan þorsk fram yfir þorsk sem veiddur er annars staðar. Húni bendir á að það megi samt ekki sofna á verðinum og að aðrar fiskveiðiþjóðir muni smám saman saxa á það forskot sem íslenskur sjávarútvegur hefur í dag. Hann nefnir sem dæmi að rússneskur sjávarútvegur hafi tekið miklum framförum á undanförnum árum og fjárfest í nýjum skipum og fiskvinnslum.

„Það er vert að íhuga hvað mun gerast þegar þorskur og aðrar fisktegundir sem veiddar eru í Norður-Atlantshafi verða orðnar mjög svipaðar að gæðum hjá öllum þjóðum. Íslandsstofa og SFS hafa unnið frábært starf við að markaðssetja íslenskan fisk en þegar lítill munur verður orðinn á íslenskum, grænlenskum, norskum, færeyskum og kanadískum fiski gæti þurft að breyta um stefnu,“ segir Húni og bætir hlæjandi við: „Ég veit að það jaðrar við landráð en þegar þessu marki verður náð gæti verið hyggilegast fyrir þjóðir sem veiða fisk í Norður-Atlantshafi að taka höndum saman um markaðssetningu, t.d. á Asíumarkaði, frekar en að berjast innbyrðis um markaðshlutdeild.“

Að því sögðu bendir Húni á að mörg góð tækifæri bíði íslenska þorsksins og nefnir hann þann glugga sem virðist hafa myndast á Bandaríkjamarkaði út af tollastríðinu við Kína. Eins og fjallað hefur verið um eru margar útgerðir í Alaska háðar því að láta verka afla sinn í Kína og flytja svo þaðan aftur til Bandaríkjanna en hækkaðir tollar raska því viðskiptamódeli. „Íslenskur sjávarútvegur gæti gripið tækifærið og haslað sér völl á Bandaríkjamarkaði. Jafnvel ef tollastríðið verður seinna blásið af þá væri búið að kynna neytendum þessa góðu vöru og vonandi auka markaðshlutdeild íslensks fisks til frambúðar.“

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.1.19 259,95 kr/kg
Þorskur, slægður 18.1.19 372,02 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.1.19 240,15 kr/kg
Ýsa, slægð 18.1.19 252,62 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.1.19 89,35 kr/kg
Ufsi, slægður 18.1.19 136,86 kr/kg
Djúpkarfi 16.1.19 253,00 kr/kg
Gullkarfi 18.1.19 220,19 kr/kg
Litli karfi 24.10.18 17,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 18.1.19 266,89 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.1.19 Gísli Súrsson GK-008 Lína
Langa 72 kg
Keila 71 kg
Þorskur 9 kg
Karfi / Gullkarfi 3 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 157 kg
19.1.19 Sunnutindur SU-095 Línutrekt
Þorskur 6.064 kg
Ýsa 194 kg
Steinbítur 44 kg
Langa 30 kg
Ufsi 8 kg
Samtals 6.340 kg
19.1.19 Sandfell SU-075 Lína
Þorskur 469 kg
Keila 446 kg
Langa 234 kg
Ýsa 187 kg
Ufsi 85 kg
Steinbítur 11 kg
Karfi / Gullkarfi 8 kg
Samtals 1.440 kg

Skoða allar landanir »