Kallaði fram í fyrir ráðherra: „Þvæla!“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sem áður gegndi sama embætti, tókust á um stöðu yfirmanns fiskeldissviðs Hafrannsóknastofnunar í fyrirspurnatíma á Alþingi á mánudag.

Kristján sagði ekki sérlega heppilegt að yfirmaður fiskeldissviðs Hafrannsóknastofnunar hafi aðsetur á Ísafirði, þar sem meðal annars sé mikilvægt að sviðsstjórnin sé nærri starfsmönnum sínum og yfirstjórn stofnunarinnar vegna mótunar og uppbyggingar sviðsins.

Tilefnið var fyrirspurn Gunnars Braga, sem bent hafði á að í september 2016 hefði nefnd, sem skipuð hefði verið af þáverandi forsætisráðherra til að kanna hvernig efla mætti Vestfirði og fjölga þar störfum, lagt til að miðstöð fiskeldis yrði staðsett í fjórðungnum.

„Í kjölfar funda í ráðuneytinu, sem sá er hér stendur sat á þeim tíma, mjög stutt reyndar, var rætt við embættismenn ráðuneytisins og forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Sú ákvörðun var tekin að byggja upp starfsemi fiskeldissviðs Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði,“ sagði Gunnar Bragi og bætti við að þessi áform hefðu verið tilkynnt 6. október sama ár. Þá hefði starfsemin átt að hefjast á Ísafirði í ársbyrjun 2018.

200 mílur greindu frá áformunum samdægurs.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hvað í ósköpunum tefur?“

„Nú erum við komin inn í október 2018 og enn hefur þessi starfsemi ekki hafist fyrir vestan,“ hélt Gunnar Bragi áfram.

„Hugmyndin var að sjálfsögðu að sérfræðingurinn, yfirmaður fiskeldissviðsins, yrði staðsettur þar, síðan myndum við hlaða utan á þetta störfum. Að sjálfsögðu er það algjörlega í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórna líklega svo langt aftur sem við getum öll munað, það er að verið er að styrkja landsbyggðina, flytja störf út á land og fjölga störfum úti á landi. Þarna átti að búa til nýtt svið og efla það sem næst þeim iðnaði sem sviðið tilheyrir,“ sagði þingmaðurinn.

Beindi hann þá tveimur spurningum að ráðherranum, annars vegar hvort ákvörðun hans frá árinu 2016 hafi verið breytt, og hins vegar, væri sú raunin, hvaða rök væru fyrir því að breyta þeirri ákvörðun.

„Ef ákvörðuninni hefur ekki verið breytt, hvað í ósköpunum tefur það að starfsemin flytjist á Ísafjörð? Mér er ekki kunnugt um að það sé húsnæðisekla eða eitthvað slíkt sem komi í veg fyrir að menn setji sig niður á Ísafirði,“ sagði Gunnar Bragi.

Staðsetningin á Ísafirði er sögð ekki vera sérlega heppileg.
Staðsetningin á Ísafirði er sögð ekki vera sérlega heppileg. mbl.is/Sigurður Bogi

Aukið umsvifin á Ísafirði

Kristján Þór sagði Hafrannsóknastofnun hafa fagnað vilja ráðherra til að efla starfsstöðina á Ísafirði, í svari við fyrirspurn sem ráðuneytið hafi lagt fyrir stofnunina í október á síðasta ári, og reifaði svo svar stofnunarinnar:

„Hins vegar sé ekki heppilegt að færa stöðu sviðsstjóra fiskeldis og fiskræktar á Ísafjörð af þeim sökum að á Íslandi sé og muni verða fjölbreytt fiskeldi um allt land. Sjókvíaeldi á laxi sé einungis einn hluti fiskeldisins á Íslandi sem sé allt í þróun og taki nú miklum breytingum.“

Mikilvægt sé þá meðal annars að sviðsstjórnin sé nærri starfsmönnum sínum og yfirstjórn stofnunarinnar vegna mótunar og uppbyggingar sviðsins, og um leið vegna vinnu við stefnumótun fyrir fiskeldi í landinu og uppbyggingu rannsókna á greininni.

„Staðsetning á Ísafirði er ekki því sérlega heppileg fyrir þetta starf. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á að er forstjóri sem ber ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsskipulagi stofnunarinnar gagnvart ráðherra og gerir rekstraráætlun fyrir hana,“ bætti ráðherrann við.

„Ég hef rætt við forstjóra Hafrannsóknastofnunar um að ég telji mjög mikilvægt að fiskeldishluti stofnunarinnar verið treystur á Ísafirði. Ég tel þann stað heppilegastan og deili þeirri skoðun með háttvirtum þingmanni að til þess að byggja upp þátt ríkisins varðandi fiskeldið sé heppilegt að það skuli gert þar. Ég vil nefna það hér að Hafrannsóknastofnun hefur undanfarið aukið umsvif sín á Ísafirði. Þar hefur fjölgað úr fimm í sjö stöður.“

„Ef við ætlum að vera samkvæm sjálfum okkur í þessu …
„Ef við ætlum að vera samkvæm sjálfum okkur í þessu efni þarf einfaldlega að breyta lögum,“ sagði ráðherrann. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Algjörlega fáránlegt“

Gunnar Bragi svaraði ráðherranum skömmu síðar:

„Einhver embættismaður, alveg sama hvað hann heitir, getur ekki tekið einhverja aðra ákvörðun. Honum ber bara að hlýða því sem fyrirskipað er. Það er ekki eins og verið sé að offra Hafrannsóknastofnun með þessu. Talað er um að byggja upp deild sem er vaxandi, tiltölulega ný á þeim stað þar sem mest starfsemi í laxeldi fer fram í dag,“ sagði þingmaðurinn meðal annars.

„Auðvitað er hægt að segja það um öll störf að þau eigi betur heima í Reykjavík af því að það sé miklu nær öllu og starfsemi sé úti um allt land. Það er sagt um hvert einasta starf hjá ríkinu. Eru það rökin fyrir því að ekki eigi að byggja upp úti á landi að það séu mögulega fleiri störf sem verði til seinna einhvers staðar annars staðar? Það er algjörlega fáránlegt. Ég ætla ekki að trúa því að sá ráðherra sem hér situr ætli að láta embættismennina segja sér fyrir verkum í þessu máli. Ætlar ráðherrann virkilega að sitja hjá og láta þetta sigla fram hjá sér og segja: Ég hef ekkert um þetta að segja? Af því að hann hefur allt um þetta að segja. Ráðherrann hefur allt um það að segja hvernig þessi starfsemi fer fram.“

Kristján Þór sagði Hafrannsóknastofnun hafa fagnað vilja ráðherra til að …
Kristján Þór sagði Hafrannsóknastofnun hafa fagnað vilja ráðherra til að efla starfsstöðina á Ísafirði.

„Þetta er allt í lögum!“

Kristján Þór kom þá til svara og sagði að sér þætti það leitt, „að fyrrverandi ráðherra hafi ekki tekist að beygja forstjórann betur en hann segist hafa getað gert“.

„Það er einhver ástæða fyrir því, virðulegi forseti, að forstöðumenn ríkisstofnana hafa að lögum ákveðið hlutverk. Ég veit ekki hvað háttvirtir þingmenn ætla að gera ef einstakir ráðherrar eiga að fara að hlutast til um daglegan rekstur stofnana og fara að standa í mannaráðningum þar inni. Ef við ætlum að taka þetta mál munu menn verða krafðir svara víðar en bara í þessu efni. Vissulega skulum við taka þá umræðu, en ég kalla þá eftir því hvernig menn ætla að fara með aðra sambærilega hluti,“ sagði ráðherrann, en Gunnar Bragi kallaði oft fram í mál hans úr salnum.

„Ef við ætlum að vera samkvæm sjálfum okkur í þessu efni þarf einfaldlega að breyta lögum,“ hélt Kristján Þór áfram. 

„Þetta er allt í lögum!“ kallaði Gunnar Bragi þá hátt og skýrt úr salnum.

„Þetta er bundið í lög, virðulegi forseti,“ sagði ráðherrann og svaraði þannig þingmanninum.

„Eins og ég gat um áðan varðandi lög um Hafró, samkvæmt 2. mgr. 3. gr., þá ber forstjóri ábyrgð á stjórn og rekstri stofnunarinnar eins og hann tiltekur í svarinu sem ég fékk frá honum. Ætla menn virkilega að halda því fram að forstjórinn hafi ekki umboð til þess að ráða og reka starfsfólk? Hann hefur allt umboð til þess. Áherslur okkar geta legið í því að byggja upp eftirlit með fiskeldi,“ sagði Kristján.

Kallaði Gunnar Bragi þá enn og aftur fram í: „Pólitísk ákvörðun og þor!“

Einhver fyrirstaða hafi verið

„Stundum er mjög auðvelt, virðulegi forseti, eins og hér er kallað fram í úr sal að það skorti bara pólitískt hugrekki og þor. Hvers vegna í ósköpunum dettur þá sumum ráðherrum í hug að grípa til aðgerða sem ekki standast lög og lenda síðan í bölvuðum málarekstri og veseni með framkvæmd slíkra aðgerða? Hvernig í ósköpunum stendur á því að fyrrverandi ráðherra fullnustaði ekki málið? Einhver fyrirstaða hefur verið þar,“ fullyrti ráðherrann, gegn framíköllum Gunnars Braga.

„Ég vil meina það, virðulegi forseti ef ég fæ frið til að svara, ég vil meina það að það séu lögin sem forstjórinn ber fyrir sig sem valda því að þessi annars ágæti vilji háttvirts fyrrverandi ráðherra náði ekki að fullnustast. Það er ekkert flóknara mál en svo. Ráðherrann [fyrrverandi] verður bara að beygja sig undir það, að hann hafði ekki afl til þess að koma vilja sínum fram.“

„Þvæla!“ kallaði Gunnar Bragi þá fram í, á meðan ráðherrann steig úr pontu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.3.24 559,44 kr/kg
Þorskur, slægður 18.3.24 503,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.3.24 331,72 kr/kg
Ýsa, slægð 18.3.24 216,50 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.3.24 220,69 kr/kg
Ufsi, slægður 18.3.24 222,80 kr/kg
Gullkarfi 18.3.24 233,55 kr/kg
Litli karfi 18.3.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 18.3.24 194,27 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.3.24 Sunnutindur SU 95 Línutrekt
Þorskur 10.868 kg
Ýsa 818 kg
Langa 137 kg
Keila 127 kg
Steinbítur 87 kg
Ufsi 4 kg
Samtals 12.041 kg
18.3.24 Straumey EA 50 Línutrekt
Þorskur 3.803 kg
Ýsa 146 kg
Steinbítur 54 kg
Samtals 4.003 kg
18.3.24 Ás NS 78 Grásleppunet
Grásleppa 2.198 kg
Þorskur 772 kg
Skarkoli 197 kg
Samtals 3.167 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.3.24 559,44 kr/kg
Þorskur, slægður 18.3.24 503,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.3.24 331,72 kr/kg
Ýsa, slægð 18.3.24 216,50 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.3.24 220,69 kr/kg
Ufsi, slægður 18.3.24 222,80 kr/kg
Gullkarfi 18.3.24 233,55 kr/kg
Litli karfi 18.3.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 18.3.24 194,27 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.3.24 Sunnutindur SU 95 Línutrekt
Þorskur 10.868 kg
Ýsa 818 kg
Langa 137 kg
Keila 127 kg
Steinbítur 87 kg
Ufsi 4 kg
Samtals 12.041 kg
18.3.24 Straumey EA 50 Línutrekt
Þorskur 3.803 kg
Ýsa 146 kg
Steinbítur 54 kg
Samtals 4.003 kg
18.3.24 Ás NS 78 Grásleppunet
Grásleppa 2.198 kg
Þorskur 772 kg
Skarkoli 197 kg
Samtals 3.167 kg

Skoða allar landanir »