Veiðigjöldin þrefölduðust á milli ára

Frá Súðavík. „Það er óumdeilt að sjávarútvegur er burðarásinn í …
Frá Súðavík. „Það er óumdeilt að sjávarútvegur er burðarásinn í flestum samfélögum á Vestfjörðum,“ segir í umsögn FV. mbl.is/Sigurður Bogi

Útgerðir á Vestfjörðum voru á nýliðnu fiskveiðiári krafðar um rúmlega 923 milljónir króna í veiðigjöld. Veiðigjöldin þar á undan námu tæpum 289 milljónum. Þannig hafa þau meira en þrefaldast á milli ára. Á sama tíma hefur afkoma útgerða og vinnslufyrirtækja í botnfiski versnað hlutfallslega meira í Norðvesturkjördæmi en annars staðar á landinu.

„Samsetningin á flotanum hér fyrir vestan veldur þessu. Hér er fjöldi smárra og meðalstórra útgerða sem stunda aðallega botnfiskveiðar, en þau fyrirtæki hafa komið verr út en þau sem hafa tekjur af uppsjávarveiðum,“ segir Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðasviðs Vestfjarðastofu, í samtali við 200 mílur. „Afkoman er hreinlega verri og það er það sem við erum að reyna að sýna stjórnvöldum fram á.“

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fólu endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte að greina rekstur sjávarútvegsfyrirtækja í kjördæminu á árunum 2016 og 2017.

Í framhaldinu hefur Fjórðungssamband Vestfirðinga, í umsögn til Alþingis um nýtt frumvarp til breytingar á lögum um veiðigjöld, lýst miklum áhyggjum af áhrifum veiðigjalda á litlar og meðalstórar útgerðir, sem margar eigi nú í verulegum rekstrarerfiðleikum.

„Á síðasta ári greiddu vestfirskar útgerðir yfir 900 m.kr. í veiðigjöld og þreföldust þau frá fyrra ári á sama tíma og afkoman dróst saman um 80%. Þetta hefur sérstaklega slæm áhrif á útgerðir sem eingöngu mega stunda krókaveiðar, en rekstrargrundvöllur þeirra er annar en þeirra útgerða sem stunda t.a.m. togveiðar,“ segir í umsögn sambandsins.

Þróun veiðigjalda á Vestfjörðum síðustu tvö ár, samkvæmt úttekt Baldurs …
Þróun veiðigjalda á Vestfjörðum síðustu tvö ár, samkvæmt úttekt Baldurs Smára Einarssonar, viðskiptafræðings og bæjarfulltrúa í Bolungarvík.

Bæti hlutdeild sveitarfélaga

„Það er óumdeilt að sjávarútvegur er burðarásinn í flestum samfélögum á Vestfjörðum. Áhrif stóraukinna veiðigjalda eru augljós og munu leiða til fækkunar starfa, minni veltu og samdráttar í atvinnulífinu á Vestfjörðum.“

Þess er þá krafist að sjávarútvegsráðherra og stjórnvöld beiti sér fyrir því að veiðigjöld á litlar og meðalstórar útgerðir verði lækkuð og leiðrétti jafnframt rekstrargrundvöll útgerða í krókaaflamarki þannig að veiðigjöld endurspegli afkomu þeirra. Eins þurfi að bæta hlutdeild sveitarfélaga í skattstofnum og koma af stað skynsamlegri umræðu um hlutdeild sveitarfélaga í tekjum hins opinbera af hagnýtingu auðlinda, þar á meðal veiðigjöldum.

Frá Bolungarvík. „Margir útgerðarmenn hafa nefnt það við mig að …
Frá Bolungarvík. „Margir útgerðarmenn hafa nefnt það við mig að þeir gætu kannski þolað þessa gjaldtöku ef þeir sæju peninginn renna aftur til baka í nærumhverfið,“ segir Aðalsteinn. mbl.is/Sigurður Bogi.

Breytingarnar étið upp sparnaðinn

Eins og mörgum er kunnugt hefur fyrirkomulag innheimtu veiðigjalda verið með þeim hætti að þau eru reiknuð miðað við afkomu útgerða tveimur árum áður.

„Gott árferði fyrir tveimur árum kemur mjög harkalega niður á fyrirtækjunum í ár. Þó svo að í einhverjum draumaheimi eigi menn að búa í haginn, þá hafa þeir um leið lent í því að gengi krónu hefur hækkað mjög, ásamt því að erfiðleikar hafa verið á mörkuðum erlendis, og ekki síst hefur kostnaður og laun þar með talin hækkað mikið. Þessar breytingar hafa í raun étið upp það sem menn reyndu að halda til hliðar,“ segir Aðalsteinn.

Áður fyrr stunduðu Vestfirðingar rækjuveiðar og segja má að rækjan hafi þá verið helsta uppsjávartegund fjórðungsins. „Svo hrundi hún náttúrlega á tíunda áratugnum. En menn veðjuðu á hana og seldu frá sér ýmsan annan kvóta, svo að staðan í dag á sér margvíslegar skýringar. Skuldsetning fyrirtækja hefur þá verið töluverð eftir að menn hófu að kaupa sér kvóta aftur.“

Frá Hólmavík. „Ruðningsáhrifin af veiðigjöldunum eru því orðin töluverð, og …
Frá Hólmavík. „Ruðningsáhrifin af veiðigjöldunum eru því orðin töluverð, og geta aukist enn frekar,“ segir Aðalsteinn. mbl.is/Golli

Vildi ekki vinna fyrir ríkið

Aðalsteinn segist vita af útgerðarmönnum sem langþreyttir séu orðnir á gjaldtöku stjórnvalda á sama tíma og þeir sjái peninginn hverfa úr byggðarlaginu og inn í ríkissjóðinn fyrir sunnan. Rannsóknir hafi enda sýnt að önnur hver króna sem íbúar landsbyggðanna greiði í skatta verði eftir í Reykjavík en hin krónan fari til ríkisútgjalda utan borgarinnar.

„Einn útgerðarmaður sem ég þekki orðaði það þannig að hann vildi ekki lengur vinna fyrir ríkið. Hann sá bara fram á að þurfa að borga svimandi há veiðigjöld og seldi útgerðina. Við óttumst það líka – að útgerðirnar verði einfaldlega keyptar héðan upp af þeim sem peningana eiga og kvótinn hverfi úr byggðinni. Ruðningsáhrifin af veiðigjöldunum eru því orðin töluverð, og geta aukist enn frekar,“ segir Aðalsteinn og bætir við að fyrir vestan vilji fólk að stjórnvöld kanni til hlítar áhrif þessa fyrirkomulags.

„Margir útgerðarmenn hafa nefnt það við mig að þeir gætu kannski þolað þessa gjaldtöku ef þeir sæju peninginn renna aftur til baka í nærumhverfið og til eflingar því – ef peningurinn færi sannanlega í uppbyggingu innan svæðisins og sveitarfélagsins.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðmundur Arnar EA 102 Grásleppunet
Grásleppa 811 kg
Þorskur 429 kg
Skarkoli 36 kg
Steinbítur 15 kg
Samtals 1.291 kg
19.4.24 Björn Hólmsteinsson ÞH 164 Grásleppunet
Grásleppa 1.840 kg
Þorskur 148 kg
Skarkoli 15 kg
Steinbítur 5 kg
Samtals 2.008 kg
19.4.24 Bobby 4 ÍS 364 Sjóstöng
Þorskur 126 kg
Samtals 126 kg
19.4.24 Bobby 6 ÍS 366 Sjóstöng
Þorskur 213 kg
Samtals 213 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 496,08 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 362,62 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 196,14 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.4.24 Guðmundur Arnar EA 102 Grásleppunet
Grásleppa 811 kg
Þorskur 429 kg
Skarkoli 36 kg
Steinbítur 15 kg
Samtals 1.291 kg
19.4.24 Björn Hólmsteinsson ÞH 164 Grásleppunet
Grásleppa 1.840 kg
Þorskur 148 kg
Skarkoli 15 kg
Steinbítur 5 kg
Samtals 2.008 kg
19.4.24 Bobby 4 ÍS 364 Sjóstöng
Þorskur 126 kg
Samtals 126 kg
19.4.24 Bobby 6 ÍS 366 Sjóstöng
Þorskur 213 kg
Samtals 213 kg

Skoða allar landanir »