Björguðu hundruðum flóttamanna af stjórnlausu skipi

Um borð í Ezadeen var fjöldi flóttamanna. Engin var áhöfnin …
Um borð í Ezadeen var fjöldi flóttamanna. Engin var áhöfnin og skipið sigldi stjórnlaust um Miðjarðarhafið.

Stjórnlaust skip, yfirfullt af flóttamönnum frá Sýrlandi, mætti skipverjum á varðskipinu Tý á Miðjarðarhafi á nýársdag fyrir fjórum árum. Halldór B. Nellett, skipherra Landhelgisgæslunnar, greinir hér frá aðgerðum áhafnar Týs um þessi eftirminnilegu áramót.

Frásögnin birtist fyrst í sjávarútvegsblaði 200 mílna, sem síðast fylgdi Morgunblaðinu föstudaginn 14. desember:

Rétt fyrir miðnætti sunnudaginn 28. desember 2014 lentum við tólf áhafnarmeðlimir á varðskipinu Tý á flugvellinum í Valettu á Möltu í Miðjarðarhafi. Týr var í höfn þar og voru áhafnarskipti fyrirhuguð, eða að skipta út tólf af átján manna áhöfn varðskipsins.

Landhelgisgæslan hafði sinnt landamæravörslu fyrir landamærastofnun Evrópu eða Frontex frá árinu 2010, bæði með flugvél Gæslunnar og varðskipunum Týr og Ægi, mislengi eftir atvikum, fyrst undan ströndum Senegal í Afríku og síðan á Miðjarðarhafi.

Þegar þarna var komið sögu var Týr úti við eftirlitsstörf en flugvélin og Ægir heima á Íslandi. Týsmenn voru búnir að standa í stórræðum undanfarnar vikur og höfðu komið að björgun um 2.000 flóttamanna en skipið hafði farið út í lok nóvember.

Á þessum tíma virtist það fara vaxandi að skipulögð glæpasamtök tækju stór skip, fylltu þau af flóttafólki sem borgaði aleiguna fyrir, eða allt að sex til átta þúsund dollara, og síðan voru skipin send af stað án áhafnar. Flutningaskip hafði strandað við Ítalíustrendur skömmu áður, það var fullt af flóttafólki og talið hafa komið frá Tyrklandi.

Varðskipið Týr, á siglingu í Eyjafirði.
Varðskipið Týr, á siglingu í Eyjafirði. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirhugað var að sigla úr höfn á Möltu þriðjudaginn 30. desember og átti því að vera nægur tími fyrir nýja áhafnarmeðlimi að kynnast aðstæðum um borð fyrir brottför. Flestir voru reyndar búnir að vera á skipinu áður, en einhverjir voru að koma þarna í fyrsta skipti eins og einn háseti og brytinn.

Ég var búinn að segja Kristófer, brytanum okkar, að nægur tími gæfist fyrir hann til að komast inn í málin, ganga frá kostinum o.fl. en það átti eftir að breytast.

Mánudagsmorgunninn 29. des. hófst með því að tekinn var kostur og skipið undirbúið fyrir brottför sem fyrirhuguð var daginn eftir. Það var ekki langt liðið á morguninn þegar okkur bárust fréttir af því frá fulltrúa Landhelgisgæslunnar, Níelsi Finsen í björgunarmiðstöðinni í Róm, að fréttir hefðu borist um að grunsamlegt skip væri á vesturleið djúpt austur af Möltu, fullt af flóttamönnum og allar líkur á því að flýta yrði brottför Týs.

Skipið var talið koma alla leið frá Tyrklandi eða jafnvel Kýpur. Nokkru síðar kom fyrirspurn um það hvort skipið gæti lagt úr höfn sem fyrst og var ákveðið að verða við því og hafðar hraðar hendur við að ganga frá öllum birgðum og gera skipið sjóklárt.

Halldór B. Nellett skipherra í brú Týs. „Keðjan er aldrei …
Halldór B. Nellett skipherra í brú Týs. „Keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn,“ segir hann um áhöfnina. Ljósmynd/Hilmar Snorrason

Haldið út til eftirlits

Haldið var úr höfn upp úr hádegi sama dag og haldið með aukinni ferð austur á bóginn eða á svæðið austur af Sikiley á Ítalíu.

Miðvikudaginn 31. desember var varðskipið komið á svæðið djúpt austur af Sikiley. Um kl.16.00 að staðartíma hafði fulltrúi LHG í Róm samband við okkur og vildi að varðskipið kannaði svæðið sem það var komið á og sagði að grunur væri um að flutningaskipið EZADEEN væri þar með fjölda flóttamanna um borð.

Einnig var upplýst að skipið væri að öllum líkindum með AIS opið, eða svokallað auðkenningarkerfi skipa, en þá sjást nöfn skipa ásamt staðsetningum.

Seinnipart dags var varðskipið við eftirlit á svæðinu um 130 sjómílur austur af Sikiley og var stefnan sett til norðaustur og síðar í norður. Veður var afleitt eða norðaustan bræla um 15-20 metrar á sek, talsverður sjór og ausandi rigning.

Haldið var áfram leit að skipinu á umræddu svæði og um kvöldið versnaði veðrið enn og bætti í vind sem fór upp í 25 m/sek með haugasjó, áfram var úrhellisrigning og himinninn leiftraði af eldingum og miklar þrumur heyrðust.

Kristófer bryti gerði sitt besta í að hafa hátíðarkvöldverð en boðið var upp á kalkún á þessu gamlárskvöldi. Skiljanlega gekk það illa, það sjá allir að erfitt var að matast við slíkar aðstæður, skipið lét illa í þessum sjógangi sem þarna var.

Ég sagði við brytann eitthvað á þá leið að við bara frestuðum áramótunum til næsta kvölds. Þá yrði vonandi komið betra veður til almennilegs borðhalds.

Engar flugeldasýningar voru þetta kvöld, enda bannað á sjó en þó fengum við að sjá himininn með leiftrandi eldingum. Þetta var stórkostlegt sjónarspil og eftirminnilegt gamlárskvöld. Flestir sem ekki voru á vakt fóru í káetur sínar og hugsuðu eflaust heim á kvöldi sem þessu.

Seint um kvöldið fengum við upplýsingar um hið grunsamlega skip, að AIS-sendingar með staðsetningum hefðu hætt að berast frá skipinu þegar það fjarlægðist strendur Grikklands.

Fimmtudaginn 1. janúar 2015 var áfram lónað á svæðinu og svipast um eftir umræddu skipi. Veðrið hafði heldur gengið niður en enn var hvasst af norðaustri, eða eins og dæmigert íslenskt vetrarveður.

Fengum áfram upplýsingar frá Níelsi í Róm um að allar líkur væru á að skipið hefði haldið áfram vestlægri stefnu og til stæði að ítalska strandgæslan sendi flugvél til leitar að skipinu upp úr hádegi.

Seinnipartinn sama dag bárust skilaboð frá Níelsi um að skipið væri á vestlægri stefnu og átta sjómílna hraða, engin staðsetning barst.

Horft til Ezadeen. Skipið var fljótt að tæma olíutankana eftir …
Horft til Ezadeen. Skipið var fljótt að tæma olíutankana eftir að áhöfnin stakk af.

Flutningaskipið finnst

Rétt fyrir kl. 17.00 heyrðist að ítölsk flugvél frá strandgæslunni væri í samskiptum við nauðstatt skip á örbylgjustöðinni rás 16 og skömmu síðar náðist samband við eftirlitsflugvélina sem sagði okkur að skipið væri um 20 sjómílur suður af okkar stað, skipverjar hefðu lýst yfir neyð og um það bil 400 manns væru um borð, að talið væri.

Nafn skipsins var EZADEEN, um 50 ára gamalt gripaflutningaskip frá Síerra Leóne og var óskað eftir því að varðskipið héldi þegar á staðinn á fullri ferð. Einnig var upplýst að engin áhöfn væri á skipinu, einungis flóttamenn.

Á þessum tíma vorum við staddir tæpar 30 sjómílur suður af „hælnum“ á Ítalíuskaganum og var haldið á staðinn á fullri ferð.

Allur mannskapur var umsvifalaust ræstur út og skipið gert klárt með tilliti til fyrirhugaðs verkefnis eins og verklagsreglur sögðu til um og margbúið var að æfa.

Þarna var nokkuð ljóst að aftur urðum við að fresta áramótunum, brytinn var tilbúinn með dýrindis veislu þarna á þessu nýárskvöldi, nautasteikin beið í ofninum og ilmurinn var farinn að berast um allt skip en enginn tími gafst til að snæða hana í rólegheitum og í raun enginn matartími, menn gleyptu bara í sig á hlaupum.

Meðan varðskipið öslaði öldur Miðjarðarhafsins á fullri ferð í átt að EZADEEN skipaði Björgunarstjórnstöðin í Róm varðskipið sem vettvangsstjóra í fyrirhuguðum björgunaraðgerðum. Uppfærðar upplýsingar frá Róm sögðu að um borð væru um 400-450 manns, þar af 60 börn og þrjár ófrískar konur. Þyrftu þau nauðsynlega að fá mat og vatn sem fyrst.

Svartamyrkur var skollið á og um kl. 19.15 komum við að EZADEEN á stað: 39°04,4´N –018°35,5´A. eða um 43 sjómílur suður af „hælnum“ á Ítalíuskaga. EZADEEN var þarna á NV-lægri stefnu eða með stefnu beint á Ítalíu og átta hnúta ferð.

Þegar við nálguðumst skipið var það lýst upp með ljóskösturum Týs og sást þá mikill fjöldi flóttafólks úti á þilförum skipsins. Strax var reynt að ná sambandi við skipið á neyðarrásinni 16 og beðið um að slegið yrði af ferð skipsins svo við gætum sent mannskap um borð.

Kona varð fyrir svörum og sagði okkur að ekki væri hægt að minnka hraða skipsins þar sem búið væri að vinna skemmdir á stjórntækjum fyrir aðalvélina í brúnni.

Engin áhöfn væri á skipinu - einungis flóttamenn.

Konan sagði aðspurð að þau gætu hugsanlega drepið á vélinni en var hún beðin um að láta það ógert.

Að fengnum þessum upplýsingum var Róm upplýst um stöðu mála og tjáð að útilokað væri að fara um borð vegna sjógangs meðan skipið væri á þessum hraða, það væri of mikil áhætta við þær veðuraðstæður sem þarna væru.

Fulltrúa LHG í Róm voru kynntir tveir möguleikar í stöðunni:

Fá konuna eða þá sem treystu sér um borð í EZADEEN til þess að drepa á vél skipsins, þá kæmumst við um borð, eða senda þyrlu á staðinn til aðstoðar við að koma mannskap um borð í hið nauðstadda skip.

Björgunarstöðin í Róm vildi ekki að drepið yrði á aðalvél skipsins en var tilbúin að kalla út þyrlu með tveimur þriggja manna uppgönguliðum frá ítölsku strandgæslunni til þess að fara um borð í skipið og einnig að flytja að minnsta kosti tvo menn frá varðskipinu um borð í EZADEEN.

Í heimahöfn. Varðskipin Týr og Ægir við bryggju í Reykjavík. …
Í heimahöfn. Varðskipin Týr og Ægir við bryggju í Reykjavík. Verkefni við eftirlit í Miðjarðarhafi hafa dregið varðskipin fjarri Íslandsmiðum undanfarin ár. Reynsla áhafna skipanna getur þá komið að góðum notum. mbl.is/Árni Sæberg

Fljótlega eftir samtalið við Róm slokknuðu skyndilega öll ljós um borð í EZADEEN og varð skipið almyrkvað í nokkra stund, síðan kviknuðu öll ljós aftur en slokknuðu endanlega skömmu síðar.

Fljótlega eftir þetta sást að hraði skipsins minnkaði og skipið fór fljótlega á rek.

Þegar ljóst var að skipið var komið á rek breyttust aðstæður og allar líkur á að hægt yrði að senda mannskap frá Tý yfir í skipið þrátt fyrir að enn væri slæmt veður.

Léttbátur Týs var strax mannaður uppgöngusveit með þeim Gísla Val stýrimanni, Jóhanni bátsmanni, Martin og Magnúsi hásetum og siglt að skipinu. Þegar báturinn var kominn að síðu skipsins hlémegin og í skjóli fyrir sjógangi og vindi ókyrrðist fólkið mjög þannig að bátsverjum leist ekkert á blikuna og höfðu samband og sögðu að þeim litist illa á að komast um borð. Þeir voru hræddir um fólkið myndi jafnvel stökkva í bátinn í einhverri geðshræringu, það var eins og að skipið sjálft væri yfirfullt af fólki, það hékk allt fram af öllum borðstokkum þeim megin sem léttbáturinn kom að skipinu. Léttbáturinn fór einn könnunarhring hringinn í kringum skipið.

Ég bað þá að koma aftur um borð til skrafs og ráðagerða en finna enskumælandi mann áður og fullvissa fólkið um að við værum komin til að bjarga þeim og kæmum aftur fljótlega.

Léttbáturinn kom síðan aftur um borð í Tý, farið var yfir málin og niðurstaðan sú að ekkert væri annað í stöðunni en að reyna aftur, taka þann tíma sem þyrfti og reyna að róa fólkið.

Léttbáturinn var síðan aftur sendur yfir að EZADEEN og upp úr kl. 23.00 þetta nýárskvöld komust þessir fjórir menn af varðskipinu um borð í EZADEEN.

Hér er lýsing Gísla Vals stýrimanns á aðstæðum þegar þeir fóru um borð í EZADEEN:

„Það var þó ákveðið að fara yfir og freista þess að fara um borð. Það var enginn fastur leiðari á skipinu og engin augljós leið um borð. Hinsvegar þar sem fríborðið var lægst, þar sem sett hafði mögulega verið upp landgangsbrú fyrir dýrin, og við ákváðum að láta á það reyna. Jói bátsmaður lét fyrstur vaða enda höfðinu hærri og þar af leiðandi lengri en hinir, og á eftir honum fór ég. Þetta var hálfglæfralegt en það eina í stöðunni. Ég fór ofan á hvalbakinn á léttbátnum og á réttu róli lét ég vaða, stökk yfir og á síðu skipsins. Hékk á höndunum og náði svo að koma hnénu upp á og príla þaðan þannig um borð. Við tókum á móti spotta frá strákunum og drógum upp og festum leiðara á bakborðssíðu skipsins.

Það var mikill æsingur í fólkinu þarna um borð og það áttu allir erindi við okkur virtist vera. Við skiptum okkur niður tveir og tveir í könnun um skipið. Fólkið um borð sagði að áhöfnin væri farin frá borði og að þau hefðu verið læst í stíunum þar til áhöfnin fór. Eftir að þau fóru, fóru fjölskyldur og barnafólk inn í íbúðir í yfirbyggingu skipsins og kom börnum fyrir í rúmum og þess háttar. Það var allt á öðrum endanum, bókstaflega, inni í vistarverunum hafði örugglega flætt upp úr klósettum því þar var allt á floti, í stíunum hafði fólk hreiðrað um sig með teppum og virtist hafa það ágætt. Það gerði greinilega þarfir sínar í einu horninu og út um einn hlerann, sem ég opnaði og sá hvað þar var að finna.

Ég og Jói bátsmaður athuguðum vistaverurnar og brúna á meðan Martin og Maggi fóru niður í stíurnar og tóku á móti vatni fyrir fólkið. Það loguðu einhver viðvörunarljós í brúnni og það var lítið eftir heillegt þar. Ég fann til dæmis aldrei, eða fann ekki út úr því, hvaða talstöð konan kallaði á okkur úr þegar við komum fyrst að skipinu. Við fórum líka niður í vélarrými og þar var sömu sögu að segja. Það var allt á þýsku þar og við gáfum okkur það svo sem að það yrði ekki fundið út úr neinu þar til að ná vélum í gang og sigla skipinu í land.

Við tókum á móti Pétri vélstjóra og þegar hann komst upp leiðarann leiddi ég hann niður í vélarrými. Hann komst að því sama, það væri væntanlega eldsneytislaust. Þá lét ég strax vita svo að hægt væri að hefja undirbúning um borð í varðskipinu að græja skipið í tog.

Við sendum fólk aftur í vistarverurnar sínar og útskýrðum fyrir því að það yrðu ekki ferjað frá borði og að skipið yrði dregið til hafnar. Það var ótrúlegt hvað ástandið róaðist fljótt við þá upplýsingagjöf og ánægjulegt hvernig fólk tók því. Það var þarna ein kona sem leiddi okkur um íbúðirnar með vatn og sá til þess að allir fengju. Ég spáði í það eftir á að þetta hefði mögulega verið konan í talstöðinni.

Einn annar hafði farið niður í vélarrýmið þegar áhöfnin fór frá borði og leiddi mig og Jóa þangað niður þegar að því kom. Annars voru nokkrir sem fóru ekkert í ró um nóttina, stóðu og mældu okkur út hvar sem við vorum en höfðu sig ekkert frammi og okkur stóð engin ógn af þeim, en við höfðum auga með þeim og vissum hvar þeir voru yfirleitt.“

Skipverjar Týs gefa barni vatn um borð í Ezadeen.
Skipverjar Týs gefa barni vatn um borð í Ezadeen.

Skipið virtist fara vel í sjó og var í sjálfu sér ekki í yfirvofandi hættu, enginn leki sjáanlegur, utan smá kjölvatn.Var mjög létt á sjó. Annar björgunarbáturinn var farinn, þ.e. bátadavíðan stjórnborðsmegin var tóm og héngu vírarnir í sjó.

Engin áhöfn, einungis flóttamenn. Smyglarar gætu þó hafi falið sig meðal flóttamanna, voru víst með grímur á andlitum að sögn flóttamanna og hurfu svo.

Það þarf ekki að taka það fram að vítavert var að senda skipið út á opið haf án áhafnar og nokkurs björgunarbúnaðar, stjórnlaust og einungis á sjálfstýringu í mikilli umferð eins og þarna er, en hvað gera menn ekki fyrir peninga.

Um miðnætti kom þyrlan frá ítalska flughernum og slakaði niður þremur mönnum frá ítölsku strandgæslunni. Þessir menn fóru rakleiðis upp í brú og héldu sig þar eða svo lengi sem varðskipsmenn voru um borð.

Um svipað leyti óskaði björgunarstjórnstöðin í Róm eftir því að tvö nærstödd skip héldu á vettvang til að veita aðstoð ef þörf yrði á.

Tvö flutningaskip komu síðan fljótlega og héldu sig í nágrenni við okkur.

Kl. 01.15 tilkynnti Pétur vélstjóri sem sendur var yfir í EZADEEN að engin olía væri eftir á skipinu, allir tankar galtómir og komin skýring á því að skipið stoppaði snögglega og öll ljós slokknuðu.

Þar sem ljóst var að skipið kæmist ekki áfram af eigin rammleik, sem hefði verið best, og útilokað við þær veðuraðstæður sem þarna voru að flytja fólkið milli skipa, var strax hafist handa við að gera dráttarbúnað varðskipsins kláran.

Um kl. 02.30 kom þyrlan aftur á svæðið og slakaði niður í EZADEEN þremur mönnum, þá voru alls komnir sex menn frá ítölsku strandgæslunni um borð.

Af einhverjum ástæðum sem ég fékk aldrei skilið fór þyrlan síðan og sótti, að ósk Ítala í björgunarstjórnstöðinni í Róm, tvo vélstjóra af öðru flutningaskipinu sem var í nágrenni við okkur og flutti þá um borð í EZADEEN til að staðfesta að aðalvél skipsins yrði ekki komið í gang að nýju.

Fljótlega eða skömmu fyrir kl. 04.00 staðfestu vélstjórarnir, það sama og okkar vélstjóri hafði sagt, að vélarnar væru gagnslausar án olíu sem engin var um borð. Þegar þarna var komið sögu var einnig komið á vettvang skip ítölsku strandgæslunnar, CP-310 og þeir fluttu vélstjórana aftur yfir í skip sitt.

Um borð í Ezadeen reyndust að lokum vera alls 360 …
Um borð í Ezadeen reyndust að lokum vera alls 360 flóttamenn.

Ezadeen tekið í tog

Um kl. 04.00 var allt klárt um borð hjá okkur til að taka skipið í tog. Við vorum í sambandi við okkar menn um borð í EZADEEN og báðum þá að fara fram á og vera tilbúnir að ná skotlínu sem við vorum að fara að skjóta yfir í skipið og síðan dráttartaugar. Eins og fram hefur komið var skipið algjörlega vélarvana og því voru engin tök á því að fá inn spil til að auðvelda vinnu við að hífa dráttartaugarnar um borð. Það eru nokkrar aðferðir til að koma dráttartaug um borð í vélarvana skip en við þessar aðstæður, mikill vindur og mikið rek á skipinu, kom ekkert annað til greina en að gera þetta einfaldlega á handkraft eins og kallað er.

Ítalirnir sex voru enn uppi í brú og buðust ekki til að fara fram á stefni til aðstoðar. Á þessum tíma vorum við komnir með svokallað „ofurtóg“ kallað dynex, sem er mjög sterkt tóg og létt.

Ég lónaði því Tý upp að stefni EZADEEN og reyndi að halda skuti Týs eins nærri og þorandi var án þess að skipin rækjust saman í sjóganginum, til að auðvelda mönnum dráttinn á dráttartaugum milli skipanna. Þetta yrðu mikil átök þrátt fyrir að ofurtógið væri talsvert léttara en vírar.

Veður var enn afleitt eða vindur af norðri, um 15 til 20 m/sek, og mikill sjór.

Kl. 04.04 var línu skotið með línubyssu varðskipsins yfir í stefni EZADEEN, skipverjar varðskipsins náðu línunni en skotlínan slitnaði skömmu áður en svokölluð tildráttartaug var komin yfir, mikið rek var á skipunum eða um 2,5-3,0 sjómílur á klukkustund.

Kl. 04.37 var línu skotið aftur yfir í EZADEEN og tókst að ná henni og draga allar dráttartaugar um borð.

Gísli Valur stýrimaður um borð í Ezadeen:

„En þegar við drógum leggina um borð og komum þessu upp á polla þá vorum það bara við fjórir, ég, Martin, Jói stóri og Maggi Guðjóns. Ég man að það slitnaði hjá okkur tildráttartógið eða fyrsta eða önnur línan úr fluglínubyssunni.

Svo í seinni tilrauninni heppnaðist þetta alveg fullkomlega en það voru þvílík átök að draga þetta inn á höndunum, við stóðum næstum því láréttir með lappirnar á pollunum og út í lunningu til að halda við þegar skipin fjarlægðust, svo við myndum ekki missa tógið og svo leggina út þótt það væri verið að slaka út með jöfnum hraða út af spilinu.“

Kl. 05.30 var lokið við að slaka út dráttartauginni sem samanstóð af áðurnefndu „dynex“-ofurtógi og síðan var slakað út öflugum 5 tomma dráttarvír en alls var dráttartaugin um 630 metrar að lengd.

Björgunarstjórnstöðin í Róm hafði ákveðið áður að farið yrði með skipið til Corigliano á Suður-Ítalíu, stefnan sett þangað og siglt í fyrstu á um fimm sjómílna hraða á móti veðrinu.

Þegar ljóst var að vel fór á öllu í drættinum var óskað eftir aðstoð ítalska varðskipsins CP-310 að sækja okkar menn um borð í EZADEEN og komu þeir um borð aftur klukkan rúmlega sex um morguninn.

Allir úr áhöfn varðskipsins voru komnir um borð og varðskipið fullmannað en sex Ítalir skildir eftir um borð í EZADEEN.

Næst á dagskrá var að senda menn í kojur eftir ansi langa törn, sumir búnir að vera uppi í sólarhring og vaktir skipaðar eins og efni stóðu til.

Sjálfur tók ég fyrstu vakt í brú og sendi stýrimenn og háseta utan einn í brú með mér í langþráða hvíld.

Ég vissi eins og kom í ljós að best væri að ég tæki fyrstu vakt til að hnýta ýmsa lausa enda og til að undirbúa komu okkar í höfn, ég gæti lagt mig um hádegið þegar stýrimenn kæmu úr stuttri hvíld.

Fyrir hádegið hafði ég samband við ýmsa, eins og mína yfirmenn heima á Íslandi og hafnsögumann í Corigliano, og við fórum yfir það hvernig best væri að koma EZADEEN að bryggju.

Einn dráttarbátur yrði einnig tiltækur til að aðstoða við að koma skipinu að bryggju. Ákveðið var að varðskipið drægi skipið inn í höfnina og dráttarbáturinn yrði tengdur aftan í EZADEEN.

Rétt fyrir hádegið kom annað skip Ítölsku strandgæslunnar, CP-321, að skipunum og fylgdi okkur. Stuttu síðar kom dráttarskipið A.H. VARAZZE og fylgdi skipalestinni sömuleiðis til hafnar. Þegar var orðin ágætis sjö skipa skipalest, Týr með EZADEEN í togi, síðan tvö flutningaskip, stórt dráttarskip og tvö ítölsk varðskip, eða réttara sagt varðbátar.

Sjálfur komst ég í koju um hádegið og var ljúft að leggjast á koddann eftir að hafa verið á fótum í um þrjátíu klukkustundir.

Allan daginn héldum við norður um, áleiðis til hafnar á Ítalíu, vind lægði aðeins þegar leið á daginn og gerði ferðina þægilegri. Upp úr kvöldmat var hafist handa við að stytta í dráttartauginni, um fjórar sjómílur utan við höfnina í Corigliano.

Dráttarspilið bilar

Rétt fyrir klukkan 20.00 þegar langt var komið með að hífa inn dráttarvír varðskipsins bilaði dráttarspilið, glussaslanga undir dráttarspilinu sprakk og spilið var óstarfhæft vegna glussaleka.

Af einhverjum ástæðum hafði umrædd glussaslanga orðið eftir við endurnýjun á öllum glussaslöngum sem gerð var reglulega en þessi slanga sem gaf sig var falin undir undirstöðum dráttarspilsins og viðgerðarmönnum hafði yfirsést hún.

Aldeilis glæsileg staða sem við vorum nú komnir í, með eitthvað um 400 farþega á vélarvana skipi í drætti, bilað dráttarspil í svarta myrkri rétt undan landi. Lögmál Murphys, það klikkar ekki.

Vélstjórar varðskipsins voru strax kallaðir út til viðgerðar og farið yfir málið með þeim. Í ljós kom að engin varaslanga var tiltæk sem passaði en til voru aðrar slöngur sem þeir ætluðu að reyna að blanda saman þannig að hægt yrði að tengja þær við spilið.

Einnig var hafist handa við að hafa plan B tiltækt og púllari og annar búnaður gerður klár til að reyna að ná inn dráttarvírnum ef ekki tækist að gera við dráttarspilið. Síðan gætum við alltaf notað svokallaðan „capstan“, eða dráttarkopp, til að stytta í dráttartauginni þegar vírinn væri kominn inn.

Ég hafði fulla trú á því að vélstjórarnir gætu lagfært spilið og dró því úr ferð Týs þar sem ljóst var að einhver seinkun yrði á komu til hafnar, þó ekki það mikil að hætta væri á því að dráttarvírinn færi í botn því þá var mögulegt að hann eða dráttartaugin slitnaði sem ekki væri gott mál.

Upp úr kl. 21.00 kom hafnsögumaðurinn um borð, tæpar tvær sjómílur utan við höfnina, með dráttarbát og skömmu síðar var sett dráttartaug úr stefni dráttarbátsins í skut EZADEEN.

Þegar ég ræddi við hafnsögumanninn fyrr um daginn og skoðaði sjókortin okkar af höfninni þar sem hann vildi að skipið færi upp að bryggju rak ég augun í það að umræddur hafnarbakki var ekki í okkar sjókortum, fann hann ekki þó að við ættum að vera með nýuppfærð rafræn sjókort svo ég bað hann að taka með sér sjókort þegar hann kæmi um borð til okkar.

Hafnsögumaðurinn var strax upplýstur um ástand dráttarspilsins, ég sagði honum að ég væri með góða vélstjóra sem myndu án efa redda þessu. Hann virtist ekki eins sannfærður og stakk upp á að dráttarbáturinn sem enn fylgdi okkur tæki við drættinum en ég hafnaði því, sagði honum að hafa engar áhyggjur af þessu.

Góðir vélstjórar eru gulls ígildi eins og reyndar allar áhafnir skipa, keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn.

Einnig kom hafnsögumaðurinn með sjókort af höfninni í Corigliano í stórum Ipad og kom þá í ljós að höfnin hafði verið stækkuð en ekki búið að senda út leiðréttinguna og mér skildist á hafnsögumanninum að höfnin ætti sjálf að sjá um þetta, væri einkarekin, sem hún hefði greinilega ekki gert, var í einhverjum fjárhagsörðugleikum.

Ipadinn og kortið í honum dugði mér vel og hafði ég hann til hliðsjónar á leið okkar inn í höfnina.

Um kl. 21.30 tókst Tryggva yfirvélstjóra og hans mönnum í vélinni að lagfæra dráttarspilið, tekin var varaslanga úr öðrum krana skipsins, hún rafsoðin föst við varatengi sem til voru um borð og pössuðu upp á gengjurnar á dráttarspilinu.

Þetta var vandasamt verk því margþurfti að sjóða þetta saman og kæla á milli því annars var hætta á að skemma slöngurnar ef þetta ofhitnaði.

Dráttartaugin var nú stytt ennþá meira, og nú niður í innan við 50 metra rétt utan hafnargarðanna í Corigliano og lónað hægustu ferð inn á höfnina.

Mér fannst hafnsögumaðurinn vera nokkuð órólegur þegar hann kom upp í brú og ég spurði hann því hvort hann hefði áður tekið skip inn í höfn í drætti. Sagði hann svo ekki vera, þetta væri í fyrsta skipti.

Ég sagði honum að hann væri heppinn. Ég hefði gert þetta nokkrum sinnum og einnig án dráttarbáta sem ekki væru margir við Ísland. Við myndum klóra okkur út úr þessu sameiginlega.

Varðskipið Týr, með Ezadeen í eftirdragi í ítölsku höfninni.
Varðskipið Týr, með Ezadeen í eftirdragi í ítölsku höfninni.

Haldið í höfn á Ítalíu

Við vorum ljónheppnir með vindátt þegar inn í höfnina kom, en þá hafði vind lægt talsvert og stóð beint upp á þá bryggju sem við áttum að leggja skipinu upp að.

Rétt fyrir miðnætti föstudagsins 2. janúar 2015 var síðan EZADEEN komin að bryggju í Corigliano og formlega afhent ítölskum yfirvöldum.

Einnig voru gögn sem fundust uppi í brú eins og leiðbeiningar um hvernig ætti að nota sjálfstýringu skipsins og þær kompásstefnur sem átti að stýra til Ítalíu, allt skrifað á bakhlið sjókorts.

Í ljós kom daginn eftir, við talningu ítalskra yfirvalda, að um borð í EZADEEN voru alls 360 flóttamenn og nær allir frá Sýrlandi.

Daginn eftir eða 3. janúar héldum við síðan aftur út til eftirlits á Miðjarðarhafi, eftir ansi annasöm áramót. Frestuðum áramótaveisluföngum okkar voru síðan að lokum gerð góð skil á Sikiley í næstu inniveru skipsins, nokkrum dögum síðar.

Að lokum skal þess getið að strax að morgni 2. janúar barst okkur þakkarbréf frá björgunarstjórnstöðinni í Róm. Sjálfum fannst mér þetta ekki alveg tímabært því björgun fólksins var alls ekki lokið en bréfið var eftirfarandi og þakkarvert:

„Dear sirs.

Conserning the search and rescue operation that is still going on involving your OPV, the italian Maritime Rescue Coordination centre wants to thank the crew for the job very well done and the excellent cooperation. Thanking to your tangible seamanship expertise, it has been possible to save more than 450 lives in distress on board of a ship left adrift in the Medirerranean sea.

Rear Admiral (ITCG) Giovanni Pettorino.“

Í Corigliano. Flóttamennirnir höfðu ferðast langa leið frá Sýrlandi vestur …
Í Corigliano. Flóttamennirnir höfðu ferðast langa leið frá Sýrlandi vestur til Ítalíu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »