Munu leggja Bjarna og segja upp fólki

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarna Sæmundssyni, rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, verður að óbreyttu lagt fyrir fullt og allt í haust. Þá mun að minnsta kosti tólf til sextán manns verða sagt upp störfum. Þetta segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Um er að ræða viðbrögð við hagræðingarkröfu stjórnvalda.

„Við höfum núna tekið þá ákvörðun að leggja öðru rannsóknaskipinu, Bjarna Sæmundssyni, í haust. Þá munum við leigja Árna Friðriksson til Noregs í haust, í einn og hálfan mánuð,“ segir Sigurður í samtali við 200 mílur.

Verður Bjarna þá lagt fyrir fullt og allt?

„Það verður eiginlega svo að vera, nema það komi til einhver leiðrétting á þessu ástandi.“

Spurður hvort því muni fylgja uppsagnir segir Sigurður að það sé óhjákvæmilegt. „Þegar við leggjum einu skipi þá er farin ein áhöfn. Og því miður er það ekki nóg, það verður sjálfsagt eitthvað að fækka í landi líka,“ segir hann og bætir við að búið sé að tilkynna starfsmönnum um að fyrirhugað sé að leggja Bjarna.

Útlit er því fyrir að ekkert íslenskt hafrannsóknaskip verði á Íslandsmiðum á eins og hálfs mánaðar tímabili í haust. „Síðan verðum við bara að keyra á einu skipi, ef þetta verður raunin.“

Bjarni Sæmundsson, skip Hafrannsóknastofnunar, við bryggju í Reykjavíkurhöfn.
Bjarni Sæmundsson, skip Hafrannsóknastofnunar, við bryggju í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Styrmir Kári

Krafan tvöfölduð í þinginu

Sigurður bendir á að krafa um mikla hagræðingu í rekstri stofnunarinnar hafi komið starfsfólki hennar í opna skjöldu. 

„Það var eiginlega tvennt sem kom okkur að óvörum,“ segir Sigurður í samtali við 200 mílur. „Annars vegar að dregið sé úr fjárveitingu til verkefnasjóðs sjávarútvegsins, sem hefur borgað í kringum 400 milljónir á ári af kostnaði við grunnverkefni stofnunarinnar. Í fyrra var okkur lofað 390 milljónum og hér áður fyrr var um að ræða enn hærri tölur. En að lokum varð talan 250 milljónir, sem var óvænt.“

Hins vegar hafi stofnunin séð fram á hagræðingarkröfu upp á eitt prósent. „En sú krafa var tvöfölduð á milli annarrar og þriðju umræðu í þinginu, og varð því að 84 milljónum króna,“ segir Sigurður.

„Þá er þetta orðin svolítil glíma.“

Húsnæði Hafrannsóknastofnunar við Skúlagötu 4.
Húsnæði Hafrannsóknastofnunar við Skúlagötu 4. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fiskverðið ræður sértekjum

Hann nefnir einnig það sem hann kallar innbyggðan galla í ríkiskerfinu. „Þegar menn reikna verðlagsbætur og launabætur, þá reikna þeir þær á þann hluta starfsemi stofnunarinnar sem er fjármagnaður af ríkinu. Við erum að velta einhverjum fjórum milljörðum og fáum í kringum þrjá milljarða frá ríki. Þetta þýðir að settar eru auknar kröfur um sértekjur, en í okkar tilfelli þá eru sértekjurnar nokkuð sem við getum ekki hækkað, því að mestu er um að ræða sölu á rannsóknarafla,“ segir Sigurður.

„Það er bara fiskverð hverju sinni sem ræður þeim tekjum sem af honum fást. Þarna er því dulin hagræðing sem nemur um áttatíu milljónum í viðbót.“

Þegar allt þetta sé saman talið hljóði hagræðingarkrafa ríkisins upp á um 300 milljónir króna.

„Og það er enginn að koma til að bjarga okkur úr snörunni í bili.“

„Í bölvuðu basli við að rækja hlutverk okkar“

Spurður hvort hagræðingarkrafan hafi áhrif á tilvonandi smíði nýs skips fyrir stofnunina segir Sigurður að svo ætti ekki að vera, enda sé hún grundvölluð á annarri fjárveitingu.

„En auðvitað fer maður að hugsa, ef ramminn okkar á að vera svona lítill - þá er kannski til lítils að smíða nýtt skip, ekki nema bara til að endurnýja Árna. Hitt er svo annað að við erum þegar í bölvuðu basli við að rækja hlutverk okkar, og þetta mun þýða færri sjóferðir og skerta rannsóknaleiðangra.

Og það sem gerir mann lafhræddan er að það er allt á fleygiferð í höfunum og miklar breytingar að eiga sér stað. Manni er því ekki rótt með þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.1.19 258,69 kr/kg
Þorskur, slægður 18.1.19 372,02 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.1.19 241,94 kr/kg
Ýsa, slægð 18.1.19 252,62 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.1.19 88,82 kr/kg
Ufsi, slægður 18.1.19 136,86 kr/kg
Djúpkarfi 16.1.19 253,00 kr/kg
Gullkarfi 18.1.19 219,56 kr/kg
Litli karfi 24.10.18 17,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 18.1.19 267,94 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.1.19 Litlanes ÞH-003 Línutrekt
Ýsa 294 kg
Langa 137 kg
Ufsi 51 kg
Þorskur 37 kg
Steinbítur 13 kg
Samtals 532 kg
18.1.19 Sunnutindur SU-095 Línutrekt
Þorskur 9.684 kg
Ýsa 395 kg
Steinbítur 33 kg
Langa 20 kg
Ufsi 8 kg
Hlýri 8 kg
Samtals 10.148 kg
18.1.19 Öðlingur SU-019 Línutrekt
Þorskur 8.913 kg
Ýsa 959 kg
Langa 105 kg
Ufsi 59 kg
Steinbítur 8 kg
Karfi / Gullkarfi 1 kg
Samtals 10.045 kg

Skoða allar landanir »