Meira plast í kvenfuglum en karlfuglum

Fýll flýgur yfir höfninni í Vestmannaeyjum. Plast fannst í maga ...
Fýll flýgur yfir höfninni í Vestmannaeyjum. Plast fannst í maga 70% fýla í nýrri rannsókn. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Plast fannst í yfir 70% fýla og í 40-55% af kræklingi samkvæmt rannsóknum sem Umhverfisstofnun lét gera á síðasta ári. Athygli vekur að marktækt meira plast var í kvenfuglum og að ekki reyndist marktækur munur á magni plastagna í mælingastöðvum í nágrenni höfuðborgarinnar og vestur á fjörðum.

Það var Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum sem sá um að skoða örplast í kræklingi á völdum stöðum við Ísland.

Örplast fannst í fjörukræklingi á öllum þeim stöðum sem kannaðir voru, en rannsóknarsvæðið náði frá Reykjanesi yfir á Vestfirði og fundust plastagnir í 40-55% kræklings á hverri stöð. Fjöldi örplastagna í hverjum kræklingi var á bilinu 0-4 og var meðalfjöldi örplastagna 1,27 á hvern krækling. Plastagnirnar voru aðallega þræðir af ýmsum gerðum og litum og var meðallengd þeirra 1,1 mm, en ekki reyndist marktækur munur á fjölda örplastagna í kræklingi á milli stöðva.

Kræklingur tíndur í Hvalfirði. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með ...
Kræklingur tíndur í Hvalfirði. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Ljósmynd/MAST

Hefði talið plastið meira á þéttbýlli svæðum

Katrín Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við mbl.is að þessi síðasta niðurstaða hafi komið sér nokkuð á óvart. „Fyrir fram hefði maður kannski haldið að það það mældist meira af plastögnum í nágrenni fjölbýlli staða þar sem er meiri skolplosun og annað, en svo var ekki,“ segir hún.

Spurð hvort þetta þýði að sjórinn sé orðinn svo mettaður plasti að staðsetning skipti ekki máli, segir Katrín Sóley þetta kalla á frekari rannsóknir. „Það er erfitt að draga ályktanir út frá einni rannsókn, en vonandi getum við haldið áfram að gera sambærilegar rannsóknir næstu árin þannig að við sjáum þá hvort það sé einhver breyting.“

„Núna vitum við alla vegna hvernig ástandið er og getum þá fylgst með í framtíðinni,“ segir hún.

Ekki hefur áður verið gerð sambærileg rannsókn á kræklingi hér við land, en fýllinn hefur í tvígang verið rannsakaður.

Minna plast en í fyrri rannsóknum

Náttúrustofa Norðausturlands rannsakaði plast í maga fýla og fannst plast í maga í um 70% þeirra 43 fýla sem skoðaðir voru nú og er það minna en í fyrri rannsóknunum tveimur. Í þeirri fyrri sem gerð var 2011 mældist plast í 79% fýla, en í rannsókn sem gerð var 2013 fannst það í 90% fuglanna. Óljóst er þó hvað veldur þessum mun milli rannsókna.

Að þessu sinni fannst meira en 0,1 g af plasti í 16% fuglanna, en viðmiðunarmörk OSPAR (samnings um vernd­un haf­rým­is Norðaust­ur-Atlants­hafs­ins) er að 0,1 g greinist í innan við 10% fuglanna. „Við erum í lægri kantinum miðað við það sem greinist annars staðar,“ segir Katrín Sóley og vísar til töflu yfir hlutfall fýla með plast í meltingarvegi á svæðum í Norður-Atlantshafi. „Þetta er þó náttúrulega bara ein rannsókn,“ bætir hún við.

Í tveimur fýlum sem komu frá Vestfjörðum fannst óvenjumikið magn af plasti, eða 28 agnir í hvorum fugli, en að öðru leyti var ekki munur milli landshluta og var meðalfjöldi plastagna í meltingarvegi fýlanna 3,65.

Marktækt meira plast var hins vegar í kvenfuglum en karlfuglunum, bæði hvað varðar fjölda plastagna og þyngd og segir Katrín Sóley þetta hafa komið nokkuð á óvart, en plast fannst í 61% karlfugla og 87% kvenfugla. „Það er spurning hvað veldur, því það er ekki talið að kynin beri mismikið plast,“ segir hún. Fáar rannsóknir hafi borið saman mun á plasti eftir kynjum , en í þeim sem það hefur verið gert hefur ekki greinst neinn munur. Katrín Sóley segir það því verða áhugavert að fylgjast með hvort kynjamunurinn mælist hér áfram á næstu árum.

Fylla magann af ólífrænu plastefni

Ekki hefur enn verið rannsakað hvaða áhrif örplastið hafi á fýlinn eða kræklinginn og segir Katrín Sóley margt enn órannsakað í þessum efnum. „Svo erum við að innbyrða t.d. kræklinginn og hversu mikið af plastinu og efnunum sem í því eru fer þá í okkur?“ spyr hún.

Katrín Sóley segir þá þekkt að fýlar, líkt og ýmis önnur dýr, telji plastið til matar. „þeir telja sig svo hafa fyllt magann af næringu, sem er síðan bara ólífrænt plastefni og þau dýr sem þetta gera deyja.“ Hún bætir við að rannsóknir hafi verið gerðar á þessu erlendis. „Síðan hafa kvenfuglar líka verið að fóðra ungana sína á plasti og þá lifa þeir náttúrlega ekki heldur.“

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 21.2.19 303,44 kr/kg
Þorskur, slægður 21.2.19 350,56 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.2.19 248,42 kr/kg
Ýsa, slægð 21.2.19 248,42 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.2.19 113,00 kr/kg
Ufsi, slægður 21.2.19 134,63 kr/kg
Djúpkarfi 4.2.19 109,00 kr/kg
Gullkarfi 21.2.19 239,69 kr/kg
Litli karfi 13.2.19 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.2.19 134,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.2.19 Magnús Jón ÓF-014 Þorskfisknet
Þorskur 369 kg
Samtals 369 kg
21.2.19 Sandfell SU-075 Lína
Ýsa 780 kg
Þorskur 232 kg
Steinbítur 81 kg
Keila 12 kg
Karfi / Gullkarfi 2 kg
Samtals 1.107 kg
21.2.19 Hvanney SF-051 Þorskfisknet
Þorskur 9.897 kg
Ýsa 344 kg
Langa 150 kg
Ufsi 112 kg
Skötuselur 42 kg
Steinbítur 4 kg
Karfi / Gullkarfi 2 kg
Samtals 10.551 kg

Skoða allar landanir »