Milljarðasamningar í Rússlandi

Bjarni Þór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Naust Marine, segir mikið að gera …
Bjarni Þór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Naust Marine, segir mikið að gera hjá fyrirtækinu í Rússlandi. Þá hafa íslensk fyrirtæki í Knarr-samstarfinu gert samninga í landinu fyrir um 15,5 milljarða króna á tveimur árum. Haraldur Jónasson/Hari

Naust Marine er eitt þeirra fyrirtækja sem koma að gerð stærsta togara Rússlands. Mikil tækifæri eru fyrir íslensk sérhæfð fyrirtæki í þessu stóra landi, að sögn Bjarna Þór Gunnlaugssonar, framkvæmdastjóra Naust Marine.

„Við höfum verið mjög sterkir í Bandaríkjunum undanfarin ár eða frá því að við seldum fyrsta skipið árið 2006 í Seattle. Við vorum að senda búnað í tvö skip þar, það er verið að uppfæra þau skip og koma fyrir rafmagnsvindum í stað glussavinda. Við höfum sérhæft okkur í rafmagnsvindum alla tíð. Okkar stærsti markaður í dag er hins vegar Rússland. Við erum búin að semja um sex skip fyrir Norebo, sex stóra togara, og opið á fjóra til viðbótar,“ segir Bjarni Þór.

Rússneska útgerðin Norebo verður með einn stærstu togara Rússlands.
Rússneska útgerðin Norebo verður með einn stærstu togara Rússlands.

„Þetta er í gegnum okkar Knarr-verkefni,“ segir hann. Knarr er markaðsfyrirtæki fyrir fimm íslensk fyrirtæki sem sérhæfa sig á sviði búnaðar fyrir fiskveiðiskip og byggja á íslenskri tækni. Fyrirtækin sem koma að Knarr ásamt Naust Marine eru Brimrún, Frost, Nautic, Skaginn 3X og Skipatækni. „Fyrirtækin bjóða í þessi skip saman. Þó að þau starfi öll sjálfstætt þá reynum við að vinna saman og erum sterkari sem heild en hvert í sínu lagi þó að fyrirtækin komist ekki alltaf öll að í hverju verkefni,“ útskýrir framkvæmdastjórinn.

Heildarverðmæti Knarr-verkefna sem hafa verið gerðir samningar um á tveimur árum í Rússlandi nema um 15 milljörðum íslenskra króna. „Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Bjarni þór og bendir á að Naust Marine hafi þegar gert samninga um verkefni í Rússlandi að virði um 2,5 milljarðar króna og við það bætast samningar sem eru á lokastigi sem munu færa þá upphæð yfir þrjá milljarða.

Stærsti togari Rússlands

„Það er mikið að gerast í Rússlandi og við erum að ganga frá samningum í stærsta togara Rússlands sem smíðaður er fyrir útgerðarfélagið RK Lenina í Petropavlovsk, um er að ræða verksmiðjutogara,“ segir Bjarni Þór og bætir við að Skaginn 3X og Frost komi einnig að verkefninu. Um er að ræða verk upp á 800 milljónir króna fyrir Naust Marine. „Við sjáum um flestalla fylgihluti á dekkinu, krana og vindur. Við getum gert þetta í dag vegna þess að Naust Marine stofnaði fyrirtæki á Spáni fyrir tæpum tveimur árum, þar sem við hönnum og framleiðum allar vindurnar og annan stálbúnað.“

Hann segir 10 starfsmenn starfa hjá dótturfélaginu á Spáni. „Við erum aðallega með hönnunarteymi, við hönnum allt, svo erum við með samsetninguna, en látum undirverktaka um að framleiða fyrir okkur. Setjum svo saman sjálfir.“

Vindur Naust Marine á Spáni.
Vindur Naust Marine á Spáni.

Spurður hvort Rússland sé vaxandi markaður fyrir félagið segir Bjarni Þór svo vera. „Já eins og er. Þetta eru alltaf sveiflur í þessum mörkuðum, einn fer upp og annar niður. Þess vegna reynum við að vera á öllum mörkuðum í heiminum þar sem maður veit aldrei hvað fer upp eða niður næst. Við höfum verið að bíða eftir þessari sprengju í Rússlandi í allt að átta ár. Nýsmíðin byrjaði fyrir um tveimur árum og er þetta allt komið í fullan gang, að endurnýja stóran hluta skipaflota Rússlands. Þeir eru komnir virkilega vel af stað í því og vonandi er enn mikið eftir. Við sjáum fram á að þetta haldi áfram næstu fimm til átta árin, en það er aldrei gott að segja hvað gerist.

Svo koma aðrir markaðir inn eins og Bandaríkin, þar eru aðstæður aðeins öðruvísi en í Rússlandi. Það þarf að framleiða allt í Bandaríkjunum. Þeir eru ekki með mikla reynslu í þessu, orðið langt síðan þeir hafa smíðað mikið af fiskiskipum þar, en kostnaðurinn við smíðina er mjög hár,“ segir hann.

Ný mið í stöðugri skoðun

„Við höfum aðeins verið í Kína. Indland er mjög erfitt, við höfum ekki viljað sækja inn á þennan markað að svo stöddu. Það þarf margt að breytast áður en við sýnum þessum mörkuðum áhuga,“ svarar Bjarni Þór spurður hvort félagið sé einnig að leita á markaði vaxandi hagkerfa eins og Kína og Indlands.

„Kínverski markaðurinn er aftur á móti í stöðugri þróun. Við höfum verið að selja í eldri skip þar. Höfum einnig verið í tveimur íslenskum togurum sem voru smíðaðir þar, líka í skipum sem hafa verið framleidd í Taívan og Kína, en við höfum ekki beint spjótum okkar að Kína ennþá. Þar gengur allt út á verðið en maður veit aldrei.

Við erum að vinna í mjög góðu samstarfi við þessi fyrirtæki [í Knarr]. Þótt þau séu ekki mörg í dag, þá vonandi verða þau fleiri með árunum. Við erum stofnendur þarna með fimm öðrum fyrirtækjum. Þótt við höfum beint spjótum okkar aðallega að Rússlandi núna vegna uppgangs þar þá erum við á öðrum mörkuðum líka. Við erum að þreifa fyrir okkur á Nýja-Sjálandi þótt það sé langt í burtu og við erum að þreifa fyrir okkur í Bandaríkjunum með Knarr-lausnina. Óskastaðan er að við getum framleitt fiskiskip í samstarfi við slipp og boðið eigendum heildarlausn. Það eru kannski nokkur ár í að það takist,“ útskýrir hann. „Það er allavega mikið í gangi hjá okkur, brjálað að gera og allt lítur mjög vel út eins og staðan er í dag,“ bætir Bjarni Þór við.

Skortur á sérhæfðu starfsfólki

Stöðugur skortur er á sérmenntuðu starfsfólki að sögn Bjarna Þórs. „Okkur vantar tæknimenntað fólk, okkur vantar iðnaðarmenn. Það er orðinn það mikill skortur á þessu að hver starfsmaður er mjög dýr í samanburði við önnur lönd.“

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hann segir mikilvægt að fjölga í iðnnámi til þess að mæta þörfum greinarinnar. „Að sjálfsögðu þurfum við að auka verulega í þessu, það er reyndar eitthvað að gerast í dag í þessum iðngreinum. Ég heyri það að það er einhver fjölgun í vélvirkjun og rafvirkjun. Vonandi bætist ennþá meira við. Þetta eru góð störf og góðar tekjur sem þessir aðilar geta fengið. En það er orðinn of mikill skortur.“

Spurður hvort þessum iðngreinum sé gert nógu hátt undir höfði svarar Bjarni Þór: „Það er ekki gott að segja. Ég myndi vilja sjá íslensk fyrirtæki kaupa mun meira af íslenskum fyrirtækjum. Taka Norðmenn sér til fyrirmyndar; þeir styðja sín fyrirtæki vel. Það mætti gera miklu meira hér heima því við erum í algjörum sérflokki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.3.24 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Steinbítur 10.108 kg
Þorskur 718 kg
Ýsa 71 kg
Samtals 10.897 kg
27.3.24 Petra ÓF 88 Grásleppunet
Grásleppa 1.233 kg
Þorskur 118 kg
Skarkoli 6 kg
Rauðmagi 4 kg
Þykkvalúra 3 kg
Ufsi 2 kg
Samtals 1.366 kg
27.3.24 Júlía SI 62 Grásleppunet
Grásleppa 2.299 kg
Þorskur 251 kg
Rauðmagi 20 kg
Skarkoli 6 kg
Samtals 2.576 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.3.24 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Steinbítur 10.108 kg
Þorskur 718 kg
Ýsa 71 kg
Samtals 10.897 kg
27.3.24 Petra ÓF 88 Grásleppunet
Grásleppa 1.233 kg
Þorskur 118 kg
Skarkoli 6 kg
Rauðmagi 4 kg
Þykkvalúra 3 kg
Ufsi 2 kg
Samtals 1.366 kg
27.3.24 Júlía SI 62 Grásleppunet
Grásleppa 2.299 kg
Þorskur 251 kg
Rauðmagi 20 kg
Skarkoli 6 kg
Samtals 2.576 kg

Skoða allar landanir »