Vildu fá fréttastjóra RÚV á fund til Lundúna

Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja var ítrekað boðið að koma …
Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja var ítrekað boðið að koma í viðtal vegna umfjöllunar Kveiks í gærkvöldi, auk þess sem skorað var á Samherja að koma öllum upplýsingum sem skipt gætu máli á framfæri við fjölmiðilinn. mbl.is/​Hari

Í samskiptum fréttamanna og fréttastjóra Ríkisútvarpsins við Samherja, sem hafa verið opinberuð á vef RÚV, kemur fram að Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri boðaði Rakel Þorbergsdóttur á fund í Lundúnum í síðustu viku, til þess að ræða „bakgrunnsupplýsingar“ sem hann taldi að myndu „breyta“ umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu.

Upplýsingarnar, að sögn Þorsteins Más, snerust um viðkvæm persónuleg málefni fyrrverandi starfsmanns Samherja og meint lögbrot hans í félagi við erlenda ríkisborgara. RÚV hafnaði því að sitja fundinn í London, eða nokkurn fund sem háður yrði skilyrðum Samherja. Fundarboð á bak við luktar dyr gæti aldrei talist „eðlilegt eða gegnsætt ferli“ sem íslenskur fjölmiðill gæti fallist á að taka þátt í.

Viðtalsbeiðnir til Þorsteins Más og beiðnir um svör við skriflegum spurningum voru margítrekaðar af hálfu RÚV, auk þess sem skorað var á fyrirtækið að koma hverjum þeim upplýsingum sem gætu skipt máli fyrir umfjöllunina á framfæri við fréttamenn RÚV.

Viðtalsbeiðni fyrst sett fram um miðjan október 

Fram kemur á vef RÚV að fyrst hafi verið óskað eftir viðtali við Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja 15. október, en þeirri viðtalsbeiðni verið fljótt hafnað. Hún var síðan ítrekuð 25. október.

Í því bréfi, sem Þorsteini Má barst frá Helga Seljan og Aðalsteini Kjartanssyni, fréttamönnum Kveiks, var farið yfir þær upplýsingar sem þeir höfðu aflað sér og birtar voru í þættinum um meintar mútugreiðslur Samherja til áhrifamanna í namibíska sjávarútvegskerfinu, þar á meðal til sjávarútvegsráðherrans Bernhardt Esau.

Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV.
Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV. Skjáskot af RÚV

„Tölvupóstar, fundargerðir og myndir virðast einnig staðfesta að þú, sem forstjóri fyrirtækisins, hafir verið meðvitaður um þessa háttsemi. Myndir staðfesta svo að þú hafir sjálfur átt leynilega fundi með Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, annars vegar á heimili tengdasonar hans, Tamson Hatuikulipi, og á búgarði ráðherrans. Esau hefur í viðtali við Kveik staðfest þessa fundi,“ sagði í bréfi fréttamannanna til Þorsteins Más 25. október.

Þorsteini Má var boðið í viðtal til þess að svara því sem fram kemur í bréfinu, en erindi Kveiks-liða var ekki svarað.

Vildu ræða „bakgrunnsupplýsingar“ í Lundúnum

Þorsteinn Már ritaði Rakel Þorbergsdóttur fréttastjóra RÚV svo bréf 6. nóvember, þar sem henni var boðið, sem fréttastjóra og ábyrgðarmanni Kveiks, að koma á fund í Lundúnum til að ræða málið og hlýða á „bakgrunnsupplýsingar“ sem Samherji taldi mikilvægar. Fyrirtækið sagðist taka fyrirspurn RÚV vegna málsins „alvarlega“.

„Við munum ræða málið opinskátt og reyna að upplýsa ykkur eins vel og okkur er mögulegt á þessu stigi. Við teljum að þær staðreyndir, sem við viljum kynna fyrir ykkur, muni sýna fram á að þær upplýsingar sem þið hafið undir höndum eru bæði afbakaðar og villandi. Ef RÚV vill enn þá senda þáttinn út eftir þetta samtal, sem við stórlega efumst um að verði raunin, þá er ykkur að sjálfsögðu frjálst að gera það,“ sagði í bréfi Þorsteins Más til fréttastjórans.

Rakel svaraði daginn eftir, 7. nóvember, og hafnaði beiðni Samherja um fund. Fréttastjórinn sagði umfjöllun Kveiks standa óhaggaða óháð viðtölum við Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmann Samherja, sem gerst hefur uppljóstrari í málinu. Á sama tíma ítrekaði Rakel viðtalsbeiðni til Þorsteins Más í þriðja sinn og bætti því við að Samherja væri „að sjálfsögðu frjálst“ að koma gögnum eða bakgrunnsupplýsingum á framfæri við Kveik.

„Blessunarlega er frjáls fjölmiðlun við lýði hér á landi“

Næsta bréf barst frá Þorsteini Má strax daginn eftir, 8. nóvember. Tónn forstjórans er í því orðinn nokkur hvass. Hann segir það vekja „nokkra undrun“, en komi ekki „algjörlega á óvart“ að RÚV neiti Samherja um fund til að „hlýða á staðreyndir“.

„Eins og málið horfir við okkur þá höfum við vissan skilning á því að það sé erfitt að verða við ósk okkar um fund vegna þess að það gæti leitt til breytinga á frétt sem RÚV hefur unnið að mánuðum saman. Það er alltaf erfitt að horfast í augu við að mikil vinna í tilteknu máli skili ekki þeirri niðurstöðu sem stefnt var að,“ skrifar forstjórinn.

Þorsteinn Már sagði að þar sem RÚV hefði synjað ósk Samherja um fund, þar sem markmiðið hefði verið að miðla upplýsingum til þess að veita fréttamönnunum „dýpri innsýn í málið“, gæti fyrirtækið aðeins túlkað það sem „enn einn vitnisburð þess að RÚV vilja ekki taka til skoðunar upplýsingar og staðreyndir sem gætu varpað ljósi á málið og haft áhrif á ykkar einhliða og hlutdrægu vinnubrögð“.

„Starfsmönnum RÚV er auðvitað frjálst að flytja fréttir og fréttaskýringar eftir eigin höfði. Blessunarlega er frjáls fjölmiðlun við lýði hér á landi. Hins vegar ber að undirstrika að með því neita okkur um samtal mun fréttastjóri RÚV ein bera ábyrgð á því að RÚV setur í loftið efnislega ranga frétt þar sem ekki er tekið tillit til allra staðreynda,“ skrifaði Þorsteinn Már.

Beiðni um svör ítrekuð á ný

Rakel svaraði Þorsteini Má aftur degi síðar, 9. nóvember. Þar ítrekaði hún beiðni RÚV um viðtal við forstjórann eða skrifleg svör við spurningum á ný og ítrekaði einnig boð Kveiks til Samherja um að koma á framfæri gögnum eða bakgrunnsupplýsingum sem kynnu að skipta máli fyrir fyrirhugaða umfjöllun.

Skoraði fréttastjórinn á Samherja um að „veita umbeðið viðtal á Íslandi eða svara spurningum Kveiks skriflega sem allra fyrst“.

Þá sagði Rakel „fráleitt að halda því fram að fundarboð til London á bak við luktar dyr teljist eðlilegt eða gegnsætt ferli sem íslenskur fjölmiðill geti fallist á að taka þátt í“ og að „frjálsleg túlkun“ Samherja á afstöðu fréttastjóra til slíks fundarboðs standist ekki skoðun.

Viðkvæmar upplýsingar um fyrrverandi starfsmann

Þorsteinn Már Baldvinsson svaraði fréttastjóra RÚV á ný á sunnudag, 10. nóvember. Þar sagði hann að sú afstaða hennar, að það væri óeðlilegt að hitta Samherja á fundi til þess að fá bakgrunnsupplýsingar, væri móttekin.

„Við göngum þar með út frá því að RÚV samþykki ekki sambærilegar viðræður vegna bakgrunnsupplýsinga með öðrum heimildarmönnum í þessu máli,“ skrifaði forstjórinn, sem einnig bauðst til þess að funda með RÚV í Reykjavík.

„Eina ástæða þess að við vildum halda fundinn í Lundúnum var sú að við eigum einnig í viðræðum við Al Jazeera, eins og ykkur er kunnugt um, og við vildum veita bæði RÚV og Al Jazeera færi á að fá upplýsingar samtímis um allar staðreyndir málsins. Af þessari ástæðu töldum við hagræði í því að halda fundina á sama stað,“ skrifaði Þorsteinn Már.

Hann sagði að Samherji hefði undir höndum upplýsingar, sem myndu „breyta“ þeirri frétt sem Kveikur ætlaði að birta.

„Að hluta til er um að ræða mjög viðkvæmar upplýsingar sem varða persónuleg málefni eins fyrrverandi starfsmanns og einnig upplýsingar um mögulega ólögmæta háttsemi sem hann og erlendir ríkisborgarar viðhöfðu. Við göngum út frá því að þið mynduð virða það við Samherja, sem ætíð hefur reynt að sinna sinni starfsemi af mikilli kostgæfni og bestu getu, að sýna varkárni og deila ekki þessum upplýsingum með almenningi að svo stöddu. Við erum hins vegar reiðubúin að deila þessum upplýsingum með ykkur en aðeins undir þeim formerkjum sem nefnd eru framar,“ skrifaði forstjórinn, sem sagði að lokum að RÚV gæti að sjálfsögðu hafnað því að fá þessar upplýsingar afhentar.

Þá myndi fréttastofan þó birta umfjöllun sem væri „efnislega röng, villandi og ekki byggð á öllum staðreyndum.“ Það yrði á ábyrgð RÚV.

Ítrekaði viðtalsbeiðni enn einu sinni

Á mánudag, 11. nóvember, svaraði Rakel svo Þorsteini Má aftur. Aftur voru viðtalsbeiðni og beiðni um skrifleg svör við spurningum Kveiks ítrekaðar og því haldið til haga að Samherja hefði verið veittur rúmur tími til andsvara í samræmi við vinnureglur fréttastofu RÚV.

„Þrátt fyrir að sá frestur sé löngu liðinn ítrekar Kveikur nú boð sitt til Samherja um að búi fyrirtækið yfir gögnum og bakgrunnsupplýsingum sem kunna að skipta máli fyrir fyrirhugaða umfjöllun er mikilvægt að fréttamenn Kveiks fái slík gögn afhent strax,“ sagði í bréfi fréttastjóra.

Þar kom einnig fram að fréttamenn Kveiks væru, sem fyrr, reiðubúnir að „hitta forstjóra Samherja á fundi til þess að fá svör við spurningum, gögn sem tengjast málinu eða yfirlýsingu frá fyrirtækinu svo koma megi andsvari Samherja á framfæri í fyrirhugaðri umfjöllun“.

Fundurinn yrði þó að vera opinn og gegnsær og ekki háður skilyrðum frá Samherja. Skorað var á fyrirtækið að koma upplýsingum á framfæri við Kveik fyrir lok dags.

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 9.9.20 961,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 21.9.20 438,29 kr/kg
Þorskur, slægður 21.9.20 477,37 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.9.20 318,76 kr/kg
Ýsa, slægð 21.9.20 314,94 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.9.20 141,65 kr/kg
Ufsi, slægður 21.9.20 174,85 kr/kg
Djúpkarfi 21.9.20 192,00 kr/kg
Gullkarfi 21.9.20 248,89 kr/kg
Litli karfi 19.8.20 16,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.9.20 Óli G GK-050 Lína
Þorskur 197 kg
Ýsa 90 kg
Hlýri 15 kg
Keila 10 kg
Ufsi 8 kg
Steinbítur 7 kg
Karfi / Gullkarfi 3 kg
Samtals 330 kg
21.9.20 Hafaldan EA-190 Handfæri
Ufsi 2.222 kg
Þorskur 47 kg
Samtals 2.269 kg
21.9.20 Fanney EA-082 Handfæri
Þorskur 816 kg
Ufsi 102 kg
Samtals 918 kg
21.9.20 Sævík GK-757 Lína
Ýsa 3.958 kg
Þorskur 1.873 kg
Karfi / Gullkarfi 16 kg
Ufsi 7 kg
Steinbítur 6 kg
Samtals 5.860 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 9.9.20 961,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 21.9.20 438,29 kr/kg
Þorskur, slægður 21.9.20 477,37 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.9.20 318,76 kr/kg
Ýsa, slægð 21.9.20 314,94 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.9.20 141,65 kr/kg
Ufsi, slægður 21.9.20 174,85 kr/kg
Djúpkarfi 21.9.20 192,00 kr/kg
Gullkarfi 21.9.20 248,89 kr/kg
Litli karfi 19.8.20 16,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.9.20 Óli G GK-050 Lína
Þorskur 197 kg
Ýsa 90 kg
Hlýri 15 kg
Keila 10 kg
Ufsi 8 kg
Steinbítur 7 kg
Karfi / Gullkarfi 3 kg
Samtals 330 kg
21.9.20 Hafaldan EA-190 Handfæri
Ufsi 2.222 kg
Þorskur 47 kg
Samtals 2.269 kg
21.9.20 Fanney EA-082 Handfæri
Þorskur 816 kg
Ufsi 102 kg
Samtals 918 kg
21.9.20 Sævík GK-757 Lína
Ýsa 3.958 kg
Þorskur 1.873 kg
Karfi / Gullkarfi 16 kg
Ufsi 7 kg
Steinbítur 6 kg
Samtals 5.860 kg

Skoða allar landanir »