Risastór tækifæri í sjónmáli

Þór Sigfússon, fstofnandi Íslenska sjávarklasans, mikil tækifæri felast í haftengdri …
Þór Sigfússon, fstofnandi Íslenska sjávarklasans, mikil tækifæri felast í haftengdri starfsemi á komandi árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reikna má með að velta sjávarútvegstengdrar starfsemi á Íslandi þrefaldist á næstu tveimur áratugum. Spilar þar inn í að fiskeldi mun stóraukast en einnig umsvif tæknifyrirtækja sem og fyrirtækja sem nota líftækni til að skapa verðmætar vörur úr hliðarafurðum sjávarútvegsins.

Þetta kemur fram í Bak við ystu sjónarrönd, veglegu nýju riti sem Íslenski sjávarklasinn hefur gefið út. Þar er þess freistað að skyggnast inn í framtíð bláa hagkerfisins og dregin upp mynd af tækifærum og áskorunum framundan með innleggjum 26 innlendra og erlendra álitsgjafa úr ýmsum áttum.

Þór Sigfússon er stofnandi Íslenska sjávarklasans og einn af höfundum ritsins. Hann segir vöxt í veiðum og vinnslu m.a. skýrast af því að vænta má verulegra hækkana á fiskverði á komandi áratugum, í takt við fólksfjölgun í heiminum og vaxandi kaupmátt neytenda í öllum heimshlutum. Þá megi reikna með að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki láti að sér kveða erlendis og taki t.d. þátt í verkefnum af ýmsum toga í Evrópu og Bandaríkjunum. Sjávarklasinn spáir hins vegar hlutfallslega meiri vexti í fiskeldi og áætlar að þar aukist veltan nærri sautjánfalt á næstu tuttugu árum:

„Bæði má vænta þess að umsvif sjókvíaeldis á tegundum eins og laxi haldi áfram að aukast og einnig getum við búist við að fleiri fisktegundir verði ræktaðar í eldisstöðvum jafnt á landi og í sjó,“ segir Þór.

Ungir sprotar orðnir verðmætari en útgerðir

Það kann að koma sumum lesendum á óvart að í ritinu er spáð öllu hægari vexti hjá sjávarútvegstengdum tæknifyrirtækjum og í þeim geira sem snýr að fullnýtingu afurða og líftækni. Þar væntir Sjávarklasinn rösklega fjórföldunar í veltu annars vegar og rúmlega þreföldunar hins vegar. Þór bendir á að hér kunni vel að vera að spáin vanáætli vöxtinn enda megi þegar finna dæmi um tiltölulega ung líftæknifyrirtæki sem vinna með sjávarafuðrir og eru orðin verðmætari en margar stöndugar útgerðir, og eiga samt enn mikið inni.

En þessi mikli vöxtur sem spáð er mun ekki gerast af sjálfu sér, og rétt eins og sjá má glitta í tækifærin við sjóndeildarhringinn þá blasa líka ýmsar áskoranir og hindranir við. Þór nefnir fyrst af öllu að vöxturinn verði háður því að bláa hagkerfið búi að þeim mannauði sem þarf.

Hann segir brýnt að gert verði átak í menntamálum og rannsóknum til að vekja áhuga ungs og efnilegs fólks á að starfa við bláa hagkerfið og tryggja að á Íslandi séu stundaðar rannsóknir á heimsmælikvarða: „Er gott að hafa það hugfast að flest þau nýsköpunarverkefni sem orðið hafa að öflugum fyrirtækjum áttu upphaf sitt í rannsóknum á vegum háskólanna eða stofnana eins og Matís. Bæði er þáttur rannsókna gríðarlega þýðingarmikill fyrir vöxt greinarinnar og um leið erum við háð háskólunum um að ala upp sjávarútvegsfrumkvöðla framtíðarinnar.“

Þór bætir við að þó aðsókn í sjávarútvegstengt nám hafi farið vaxandi þá þurfi að gera enn betur. „Er vert að skoða að sameina skóla sem bjóða upp á kennslu á þessu sviði og samhliða því byggja upp alþjóðlegt nám svo að við getum laðað til starfa í hafgeiranum hæfileikafólk frá öllum heimshornum.“

Þurfum ekki að vera áhorfendur

Þá þykir ljóst að greinin þurfi að sýna sveigjanleika og aðlögunahæfni enda vísbendingar um að lífríkið í hafinu muni breytast í takt við sveiflur í hitastigi og sýrustigi. Stærðir fiskstofna gætu tekið breytingum, sumir stofnar yfirgefið íslenska lögsögu og aðrir komið inn í staðinn. Þór segir hluta af því að auka sveigjanleika greinarinnar að renna sem flestum stoðum undir bláa hagkerfið, en þá hafi reynslan sýnt að íslenskur sjávarútvegur kann að aðlagast hratt og skemmst að minnast þess hvernig greinin nýtti sér komu makrílsins í íslenska lögsögu.

Koma makrílsins í íslenska lögsögu gaf fyrirtækjunum tækifæri til þess …
Koma makrílsins í íslenska lögsögu gaf fyrirtækjunum tækifæri til þess að sýna sveigjanleika sjávarútvegsins. mbl.is/Árni Sæberg

Í riti Sjávarklasans er því spáð að loftslagsbreytingar og plastmengun muni þrengja að greininni og ljóst að nú þegar er mikil umræða um plast í sjávarfangi farin að lita viðhorf neytenda.

Þór segir að þrátt fyrir að smæð landsins þýði að Ísland geti eitt og sér litlu breytt um áhrif mannsins á náttúruna þá þurfi Ísland ekki að sætta sig við að vera bara áhorfandi: „Við getum áorkað heilmiklu með því t.d. að vera öðrum þjóðum góð fyrirmynd, og erum nú þegar langt komin á þeirri vegferð, t.d. með fyrstu rafvæddu fiskveiðiskipunum,“ útskýrir Þór. „Þá eru mörg frumkvöðlafyrirtæki, bæði ung og rótgróin, að koma með nýjar og umhverfisvænar lausnir á markað, ætlaðar til notkunar í sjávarútvegi um allan heim. Sú tækniþekking sem hefur orðið til á Íslandi ætti því að geta breytt heiminum og gert sjávarútveg annarra þjóða grænni.“

Viðtalið við Þór var fyrst birt í ViðskiptaMogganum miðvikudaginn 4. desember.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 16.4.24 483,02 kr/kg
Þorskur, slægður 16.4.24 455,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 16.4.24 225,04 kr/kg
Ýsa, slægð 16.4.24 252,44 kr/kg
Ufsi, óslægður 16.4.24 257,55 kr/kg
Ufsi, slægður 16.4.24 256,86 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 16.4.24 209,29 kr/kg
Litli karfi 16.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

16.4.24 Benni ST 5 Grásleppunet
Grásleppa 4.015 kg
Þorskur 1.392 kg
Steinbítur 41 kg
Skarkoli 36 kg
Samtals 5.484 kg
16.4.24 Kóngsey ST 4 Grásleppunet
Þorskur 856 kg
Grásleppa 190 kg
Skarkoli 54 kg
Samtals 1.100 kg
16.4.24 Hafrafell SU 65 Lína
Keila 826 kg
Langa 168 kg
Ufsi 46 kg
Skötuselur 33 kg
Steinbítur 28 kg
Ýsa 18 kg
Karfi 3 kg
Samtals 1.122 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 16.4.24 483,02 kr/kg
Þorskur, slægður 16.4.24 455,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 16.4.24 225,04 kr/kg
Ýsa, slægð 16.4.24 252,44 kr/kg
Ufsi, óslægður 16.4.24 257,55 kr/kg
Ufsi, slægður 16.4.24 256,86 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 16.4.24 209,29 kr/kg
Litli karfi 16.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

16.4.24 Benni ST 5 Grásleppunet
Grásleppa 4.015 kg
Þorskur 1.392 kg
Steinbítur 41 kg
Skarkoli 36 kg
Samtals 5.484 kg
16.4.24 Kóngsey ST 4 Grásleppunet
Þorskur 856 kg
Grásleppa 190 kg
Skarkoli 54 kg
Samtals 1.100 kg
16.4.24 Hafrafell SU 65 Lína
Keila 826 kg
Langa 168 kg
Ufsi 46 kg
Skötuselur 33 kg
Steinbítur 28 kg
Ýsa 18 kg
Karfi 3 kg
Samtals 1.122 kg

Skoða allar landanir »