Mannskæðar hamfarir til sjávar og sveita

Togarinn Egill Skallagrímsson. Minnstu munaði að hann færi niður í …
Togarinn Egill Skallagrímsson. Minnstu munaði að hann færi niður í Halaveðrinu. Þrotlaus barátta skipverjanna bjargaði skipi og áhöfn.

Í febrúar árið 1925 gekk mikið óveður yfir Ísland – það mesta frá upphafi mælinga. Fimm manns urðu úti í fárviðrinu og alls drukknuðu 74 sjómenn á Halamiðum úti fyrir Vestfjörðum. Í bókinni Halaveðrinu mikla rekur Steinar J. Lúðvíksson hamfarirnar á láði og á legi.

Togarinn Egill Skallagrímsson var einn þeirra togara sem voru á Halamiðunum í óveðrinu. Hér er gripið niður í frásögn af baráttu áhafnarinnar við náttúruöflin.

Síðari hluta nætur keyrði þó um þverbak. Það var eins og tröllahendur köstuðu skipinu sem leiksoppi á milli sín. Taldi Snæbjörn skipstjóri, samkvæmt fyrri reynslu sinni, að líklega væri skipið komið í straumröstina sem myndast þar sem Golfstraumurinn og Pólstraumurinn mætast. Hafði hann séð að á þeim slóðum gátu myndast miklir straumhryggir, jafnvel í blíðskaparveðri, þar sem straumamótin voru, en nokkuð auðvelt var að greina þau vegna litaskipta sem þar voru í sjónum.

Sjór fossar inn í káeturnar

Þegar Egill Skallagrímsson hafði verið skamma stund í þessum tröllasjó varð skipið fyrir stórkostlegu áfalli. Risavaxinn brotsjór hvolfdist yfir það stjórnborðsmegin, féll yfir þilfarið og skall á yfirbyggingunni. Kastaðist skipið algjörlega á bakborðshliðina. Sjórinn braut allar rúður í brúnni og flæddi stýrishúsið. Mennirnir sem voru í henni köstuðust til en enginn þeirra varð þó fyrir alvarlegum meiðslum. Stóðu þeir á bakborðsþilinu en svo djúpt lá skipið að sjór vatnaði stöðugt inn í stýrishúsið. Fossaði sjór niður í klefa Snæbjörns skipstjóra sem átti erfitt með að komast upp á móti flaumnum. Þegar menn höfðu áttað sig á því hvað gerst hafði, skipaði skipstjórinn að leggja stýrinu hart í bak og binda það fast.

Sjór fossaði einnig inn í káeturnar bakborðsmegin og færði neðstu kojurnar nánast í kaf. Varð mönnum fyrst fyrir að huga að Vilhjálmi. Hafði hann reynt að losa sig og komast úr kojunni en gat það ekki og minnstu munaði að hann drukknaði í kojunni. Gátu þeir Hilmar Norðfjörð og Gísli Kristjánsson háseti komið honum til bjargar á síðustu stundu, hjálpað honum út úr káetunni og á öruggari stað uppi í brúnni.

Fljótlega kom í ljós að loftræstirör sem lá úr káetunni og upp á bátaþilfar hafði farið í sundur og streymdi sjór gegnum það niður í káetuna. Tóku menn teppi sem þeir kuðluðu saman og tókst að troða inn í rörið og minnka þannig lekann.

Slíkt var heljarafl brotsins að það reif upp allar lifrartunnurnar sem höfðu verið vandlega festar á þilfarinu og báða björgunarbátana tók fyrir borð og kipptu þeir með sér bátsuglunum úr festingum sínum á bátaþilfarinu með beinu átaki, þannig að ekkert sá á festingunum. Matarkistan sem boltuð var niður á bátaþilfarinu rifnaði laus og fór fyrir borð.

Þeir sem voru í lúkarnum voru flestir sofnaðir þegar ósköpin dundu yfir og vöknuðu við vondan draum þegar ískaldur sjórinn fossaði þangað niður. Þegar brotsjórinn reið yfir hafði hann slitið upp stóra bobbinga sem geymdir voru undir hvalbaknum og einn þeirra hafði skollið á lúkarshurðina og brotið hana upp. Hafnaði bobbingurinn í koju eins skipverjans. Tókst mönnunum fljótlega að loka lúkarshurðinni og minnkaði þá sjórennslið þangað niður. Á skammri stundu urðu menn vissir um að skipið myndi ekki rétta sig af sjálfsdáðum og fóru þeir í hlífðarföt og bjuggust til þess að reyna að komast aftur á. Fóru þeir upp á lúkarskappann og tókst að komast til félaga sinna í yfirbyggingunni. Var ferð þeirra þangað mjög áhættusöm þar sem stöðugt braut á skipinu en svo giftusamlega tókst til að þeir sluppu allir inn í ganginn. Einn maður varð þó eftir í lúkarnum. Sá var lasinn og treysti sér ekki til þess að fylgja félögum sínum.

Ísinn hlóðst á reiða og stög sem urðu gild eins …
Ísinn hlóðst á reiða og stög sem urðu gild eins og staurar. Þetta hafði áhrif á stöðugleikann og gerði skipin enn varnarlausari fyrir brotsjó.

Egil Skallagrímsson flatrak undan sjó og vindi og lá svo á hliðinni þannig að reykháfurinn var í sjó. Hér var þörf á snörum handtökum. Mennirnir sem komu úr lúkarnum og flestir þeirra sem voru aftur á fóru rakleiðis niður í vélarrúm og ætluðu að komast þaðan milli kolaboxanna fram í afturlestina. Mikill sjór var kominn í vélarrúmið og hafði hann hitnað svo mjög að varla var hægt að hafast þar við. Í ganginum var svo djúpur sjór að aðeins höfuð mannanna stóðu upp úr þegar þeir fetuðu sig þar áfram. Í ljós kom að lúga milli gangsins og lestarinnar hafði fest svo rækilega að ekki var hægt að hagga henni fyrr en sótt höfðu verið verkfæri í vélarrúmið og hún brotin upp.

Eftir að komist varð í lestina tóku menn rösklega til hendinni við að kasta fiski úr kös sem hrúgast hafði upp bakborðsmegin yfir í stjórnborðssíðuna. Aðstaða til þess var erfið. Þeir stóðu í sjó og engin lýsing var í lestinni.

Í vélarrúminu hafði allt úr lagi gengið við áfallið. Gólfplötur losnað og gengið til og eldur drepist undir öllum fýrum nema einum. Erlendur Helgason 1. vélstjóri stóð í sjóðandi heitum sjónum og reyndi hvað hann gat til þess að halda dampi á fýrnum sem enn var við lýði. Tókst honum að koma dælu í gang og eftir það minnkaði sjórinn í vélarrúminu fljótlega. Gufuaflið minnkaði hins vegar fljótt og dælan varð óvirk. Þá komst einnig sjór í ljósavélina og hún drap á sér.

Smátt og smátt bar elja mannanna við að kasta til fiski í lestinni árangur. Egill Skallagrímsson tók að rétta sig þótt enn væri mikil slagsíða á honum. Eftir að drapst á dælunni gripu menn til þess ráðs að ausa úr lest og vélarrúmi með fötum. Valdimar Helgason stóð neðstur og dýfði fötunum í austurinn en síðan voru þær handlangaðar upp stigann og aftur ganginn þar sem hellt var úr þeim. Þótt vinnan við að færa til í lestinni hefði verið erfið var ekki þreytu á nokkrum manni að sjá. Án afláts gengu föturnar milli manna og þegar þess fóru að sjást merki að sjór minnkaði í skipinu léttist á mönnum brúnin og þeir fóru jafnvel að gera að gamni sínu. Þannig hafði Þórður Halldórsson aðstoðarmatsveinn orð á því að það væri kominn tími á að menn fengju sér kaffisopa. Þórður, sem seinna varð þjóðkunnur maður og jafnan kenndur við Dagverðará á Snæfellsnesi, var í einum af sínum fyrstu togaratúrum.

Loks leið hin dimma og örlagaríka nótt og það tók að gráma af degi. Menn vonuðu að hið versta væri yfirstaðið. Veðurofsinn var þó hinn sami og áður og sjólag engu betra en um nóttina. Dagsbirtan gaf hins vegar meiri möguleika á að fylgjast með því sem fram fór, þótt enn væri ekkert hægt að gera til þess að bjarga skipinu undan þeim háskasjó sem að því reið.

Mikill skaði á landi

Fregnir bárust líka fljótlega um hörmulegar slysfarir á landi. Á bænum Flesjustöðum í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi urðu tvö börn úti. Magnús Sveinsson sem átti heima á bænum Valshamri á Mýrum lýsir óveðrinu á þessu svæði. Hann segir að þegar fólk fór á fætur á sunnudagsmorgninum hafi veður verið sæmilegt en svartur bakki verið í norðvestri. Nokkru eftir hádegi hafi skollið á svo mikið fárviðri að ekki hafi verið fært út úr húsi. Þetta ofsaveður hafi staðið allt fram til morguns daginn eftir. Veðrið var svo óskaplegt að beyg setti að fólki og grunur um að veðrið hefði valdið tjóni og slysum.

Á Flesjustöðum bjuggu á þessum tíma þau Bergur Teitsson og Kristín Sigurðardóttir með tveimur börnum sínum, Jóhannesi sem var ellefu ára og Sigríði sem var sjö ára. Um morguninn var sæmilegt veður og var þá Jóhannes sendur til að líta eftir hestum sem voru í haga ekki langt frá bænum. Mun Sigríður síðan hafa hlaupið á eftir honum. Líklega hafa börnin verið að koma eða verið komin til hestanna er fárviðrið, ofsarok og svo dimm hríð að vart sást út úr augum, skall á sem hendi væri veifað. Brá Bergur við og fór að leita að börnunum. Hann fann þau fljótlega en varð áttavilltur og hraktist allan daginn með börnin í veðurofsanum og fann hvergi skjól þar sem hægt var að láta fyrirberast. Um nóttina örmögnuðust börnin. Reyndi Bergur að hlúa að þeim og beið hjá þeim uns hann taldi að þau væru bæði látin. Hann hélt síðan áfram að leita bæja og seint um nóttina komst hann að bænum Krossholti og gat gert vart við sig. Þá var hann meðvitundarlítill og aðframkominn. Var honum veitt aðhlynning og gat þá sagt frá ferðum sínum og barnanna. Veður var þá tekið að ganga niður og hófst þegar leit að börnunum og fundust lík þeirra eftir nokkra leit. Allan tímann var Kristín ein heima á Flesjustöðum og vissi ekkert um afdrif Bergs og barnanna fyrr en um sólarhring eftir að þau fóru að heiman. Eftir þennan voðaatburð fluttu Kristín og Bergur frá Flesjustöðum og bjuggu lengi að Laufási í Borgarhreppi.

Lést 18 ára

Til marks um veðurofsann á svæðinu var að þegar hann skall á var hópur manna á ferð á þjóðveginum með 14 lausa hesta sem ekki var stætt. Slengdi veðrið hestunum af fótum hvað eftir annað og komust mennirnir við illan leik til bæja þar sem þeir leituðu skjóls.

Í Húnavatnssýslu varð tvennt úti í bylnum. Rósa Helgadóttir húsfreyja á bænum Skyttudal var ein heima. Hafði maður hennar brugðið sér til næsta bæjar. Þegar óveðrið skall á mun Rósa hafa ætlað að freista þess að bjarga kindum sem voru skammt frá bænum í hús. Hafði hún sig ekki í hús aftur og fannst örend skammt frá bænum. Rósa var 47 ára, ættuð úr Eyjafirði.

Vermundur Guðmundsson bóndi í Kollugerði við Skagaströnd varð úti á leið sinni að bænum Hnjúkum. Þegar hans var saknað hófst leit og fannst lík hans í svokölluðum Hnjúkaflóa, rétt við túngarð bæjarins. Þorsteinn var 65 ára.

Fimmti maðurinn sem varð úti hét Halldór Þorsteinn Grant frá Dalvík. Hann var staddur í Svarfaðardal og var þar að leita kinda. Var lífsmark með honum er hann fannst en ekki tókst að koma honum til meðvitundar og lést hann skömmu eftir að komið var með hann til bæja. Halldór Þorsteinn var 18 ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.4.24 456,31 kr/kg
Þorskur, slægður 23.4.24 532,04 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.4.24 237,18 kr/kg
Ýsa, slægð 23.4.24 143,44 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.4.24 177,69 kr/kg
Ufsi, slægður 23.4.24 227,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 23.4.24 177,61 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.4.24 Silfurborg SU 22 Dragnót
Steinbítur 3.980 kg
Skarkoli 1.183 kg
Þorskur 328 kg
Sandkoli 195 kg
Ýsa 82 kg
Samtals 5.768 kg
23.4.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 2.549 kg
Steinbítur 321 kg
Keila 115 kg
Ýsa 98 kg
Ufsi 19 kg
Karfi 17 kg
Langa 7 kg
Samtals 3.126 kg
23.4.24 Gunnar Bjarnason SH 122 Dragnót
Steinbítur 1.270 kg
Samtals 1.270 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.4.24 456,31 kr/kg
Þorskur, slægður 23.4.24 532,04 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.4.24 237,18 kr/kg
Ýsa, slægð 23.4.24 143,44 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.4.24 177,69 kr/kg
Ufsi, slægður 23.4.24 227,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 23.4.24 177,61 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.4.24 Silfurborg SU 22 Dragnót
Steinbítur 3.980 kg
Skarkoli 1.183 kg
Þorskur 328 kg
Sandkoli 195 kg
Ýsa 82 kg
Samtals 5.768 kg
23.4.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 2.549 kg
Steinbítur 321 kg
Keila 115 kg
Ýsa 98 kg
Ufsi 19 kg
Karfi 17 kg
Langa 7 kg
Samtals 3.126 kg
23.4.24 Gunnar Bjarnason SH 122 Dragnót
Steinbítur 1.270 kg
Samtals 1.270 kg

Skoða allar landanir »