Greiði maður mútur hljóti einhvers að vera vænst aukalega

Björgólfur Jóhannsson segist í samtali við Dagens Næringsliv í dag …
Björgólfur Jóhannsson segist í samtali við Dagens Næringsliv í dag efast um að nokkrar mútugreiðslur hafi átt sér stað í tengslum við starfsemi Samherja í Namibíu, nú sé unnið í því að komast til botns í málinu og líklega verði hlutverki hans í forstjórastólnum lokið á útmánuðum 2020. mbl.is/​Hari

„Ísland uppsker sjaldan athygli á alþjóðavettvangi. Peningaþvættismál haustsins, svo ekki sé minnst á aðkomu DNB-bankans að því, sýnir hvort tveggja Samherja og stærsta banka Noregs í slæmu ljósi.“ Á þessum orðum hefst viðtal norska viðskiptadagblaðsins Dagens Næringsliv við Björgólf Jóhannsson, forstjóra Samherja, sem blaðið birtir í dag.

„Ég efast um að nokkrar mútugreiðslur hafi átt sér stað eða að fyrirtækið sé eða hafi verið flækt í nokkuð ólögmætt,“ hefur blaðið eftir Björgólfi sem segist telja að uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson hafi verið einn að verki. DN vitnar því næst í bréf sem Björgólfur sendi öllu starfsfólki Samherja í síðustu viku, þar sem hann gagnrýnir þá aðferðafræði Jóhannesar að velja úr tæplega helming tölvupóstsamskipta sinna við aðra starfsmenn fyrirtækisins um viðskipti Samherja í Namibíu og birta á Wikileaks.

„Augljóst er að aðeins valdir tölvupóstar eru birtir á Wikileaks,“ hefur DN eftir Björgólfi, „við veltum því til dæmis fyrir okkur hvers vegna ekkert er birt frá árinu 2015.“ DN ræddi einnig við Jóhannes Stefánsson sem segir frekari tölvupóstbirtingar væntanlegar, hann hafi í fyrstu lotu aðeins valið það sem honum hafi þótt mikilvægast að kæmi fram fyrst.

Einhvers staðar maðkur í mysunni

„Aðgerðirnar í Namibíu voru dálítið „messy“. Stjórni maður fyrirtæki og er sagt upp geta ástæðurnar fyrir því ekki verið margar. Einhvers staðar var maðkur í mysunni og eitthvað fór greinilega úrskeiðis,“ segir Björgólfur og vísar til þess þegar Jóhannesi var sagt upp störfum sem stjórnanda Namibíufélaga Samherja árið 2016.

Blaðamaður DN spyr Björgólf því næst út í greiðslur til eignarhaldsfélags í Dubaí í eigu James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanns namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor, sem haldið hafi áfram allt fram á þetta ár, þrátt fyrir að Jóhannes væri þá löngu hættur störfum.

Björgólfur segir ekkert benda til þess að þær greiðslur hafi verið ólöglegar, þar hafi einfaldlega getað verið um löglegar greiðslur fyrir fiskikvóta að ræða auk greiðslna fyrir ráðgjafaþjónustu. „Þetta voru kvótar frá yfirvöldum sem við skulum vona að hafi verið lögum samkvæmt, Samherji fékk enga kvóta umfram það,“ svarar hann spurningu blaðamanns um lögmæti greiðslnanna til félags Hatuikulipis.

„Þekki ekki bakgrunn starfseminnar í Afríku“

„Er það vani ykkar [Samherja] að greiða einkaaðilum þegar þið fáið úthlutað kvóta erlendis?“ spyr blaðamaður þá. „Því get ég ekki svarað, málið sætir nú rannsókn. Berist manni reikningur fyrir þjónustu eða kvóta þá greiðir maður hann,“ svarar Björgólfur og vísar því á bug að nokkrar ólögmætar greiðslur hafi átt sér stað. „Okkur bárust reikningar frá fyrirtækjum sem seldu kvóta og við greiddum þá.“

DN fer þá yfir rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wiborg Rein auk rannsóknar efnhagsbrotadeildar norsku lögreglunnar, Økokrim, og yfirvalda á Íslandi. Umsvif Samherja í Namibíu hafi numið um 50 milljónum Bandaríkjadala á ári síðustu ár. „Hafið þið tekið þessi viðskipti fyrirtækisins til ítarlegrar skoðunar?“ spyr blaðamaður.

„Því get ég ekki svarað af öryggi, einfaldlega vegna þess að ég þekki ekki bakgrunn starfseminnar í Afríku, þetta er annar heimur. Ég þykist þess hins vegar fullviss að við höfum fengið kvóta eftir löglegum leiðum í öllum löndum,“ segir Björgólfur við DN og bætir því við að greiði maður mútur hljóti þess að vera vænst að fá eitthvað aukalega í staðinn. „Og Samherji fékk kvóta,“ skýtur blaðamaður inn í. „En fyrir þá var greitt sama verð og önnur fyrirtæki greiddu,“ svarar Björgólfur.

Bankinn grafist fyrir um lögmæti

Talið berst nú að greiðslum sem fóru um reikninga fyrirtækisins Cape Cod Fs á Marshall-eyjum hjá DNB-bankanum, reikninga sem bankinn hafi svo lokað, og svarar Björgólfur því til að þar hafi verið um launagreiðslur til sjómanna að ræða. „Hefði DNB átt að kanna það betur til hverra greiðslur gegnum félög Samherja á Kýpur fóru?“ spyr blaðamaður þá.

„Það er vafamál hvað þeir [bankinn] hefðu þá átt að uppgötva. Þegar um náin viðskiptatengsl er að ræða gengur maður út frá því að bankinn geri allt sem í hans valdi stendur til að grafast fyrir um lögmæti peninga og uppruna þeirra. Hvor tveggja fyrirtækin, DNB og Samherji, eru meðvituð um alvöru málsins enda er málið nú rannsakað af hálfu beggja,“ segir Björgólfur.

Blaðamaður vill þá vita hvort Björgólfur telji að bankinn hefði átt að stöðva greiðslur til félags Hatuikulipis í Dubaí, vitandi af pólitískum tengslum eiganda þess (n. politisk eksponert person) og svarar Björgólfur því til að áður en slíkt sé gert þurfi að liggja fyrir hvort greiðslurnar séu í raun ólögmætar. „Nú er eigandi þessara reikninga í fangelsi,“ segir blaðamaður.

„Já, hann er borinn sökum en hefur ekki hlotið dóm,“ bendir Björgólfur á, „við höfum lagt fram öll þau skjöl sem DNB hefur beðið um. Nú ætlum við okkur að draga fram í dagsljósið hvað það var sem átti sér stað og svo munu til þess bær yfirvöld vega og meta afleiðingar þess. Ég hugsa að mínu hlutverki þarna verði lokið á fyrsta fjórðungi nýs árs,“ lýkur hann máli sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 9.9.20 961,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 30.9.20 440,62 kr/kg
Þorskur, slægður 30.9.20 345,02 kr/kg
Ýsa, óslægð 30.9.20 312,67 kr/kg
Ýsa, slægð 30.9.20 302,83 kr/kg
Ufsi, óslægður 30.9.20 119,15 kr/kg
Ufsi, slægður 30.9.20 153,88 kr/kg
Djúpkarfi 21.9.20 192,00 kr/kg
Gullkarfi 30.9.20 204,89 kr/kg
Litli karfi 19.8.20 16,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

30.9.20 Rifsari SH-070 Dragnót
Þorskur 24.883 kg
Skarkoli 1.476 kg
Ýsa 74 kg
Sandkoli 20 kg
Ufsi 10 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 3 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 26.468 kg
30.9.20 Áskell ÞH-048 Botnvarpa
Þorskur 11.305 kg
Samtals 11.305 kg
30.9.20 Neisti HU-005 Þorskfisknet
Þorskur 492 kg
Skarkoli 2 kg
Langa 2 kg
Samtals 496 kg
30.9.20 Sjöfn SH-707 Plógur
Ígulker 2.170 kg
Samtals 2.170 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 9.9.20 961,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 30.9.20 440,62 kr/kg
Þorskur, slægður 30.9.20 345,02 kr/kg
Ýsa, óslægð 30.9.20 312,67 kr/kg
Ýsa, slægð 30.9.20 302,83 kr/kg
Ufsi, óslægður 30.9.20 119,15 kr/kg
Ufsi, slægður 30.9.20 153,88 kr/kg
Djúpkarfi 21.9.20 192,00 kr/kg
Gullkarfi 30.9.20 204,89 kr/kg
Litli karfi 19.8.20 16,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

30.9.20 Rifsari SH-070 Dragnót
Þorskur 24.883 kg
Skarkoli 1.476 kg
Ýsa 74 kg
Sandkoli 20 kg
Ufsi 10 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 3 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 26.468 kg
30.9.20 Áskell ÞH-048 Botnvarpa
Þorskur 11.305 kg
Samtals 11.305 kg
30.9.20 Neisti HU-005 Þorskfisknet
Þorskur 492 kg
Skarkoli 2 kg
Langa 2 kg
Samtals 496 kg
30.9.20 Sjöfn SH-707 Plógur
Ígulker 2.170 kg
Samtals 2.170 kg

Skoða allar landanir »