Erlendri fjárfestingu fylgir þekking

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir stjórnsýsluna hafa verið illa …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir stjórnsýsluna hafa verið illa búna undir vöxt fiskeldisins. Kristinn Magnússon

„Með nokkuð varfærnislegu mati má líklega segja að þetta geti tvímælalaust orðið ein grunnstoð undir útflutningstekjur okkar Íslendinga til framtíðar,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, um framtíðarhorfur fiskeldis á Íslandi. „Starfsemin er enn á upphafsstigum, að slíta barnsskónum ef svo má segja, en miðað við hvernig gengið hefur á undan- förnum tveimur til þremur árum má vænta þess að hið minnsta þau fjögur fyrirtæki sem hafa hafið slátrun séu komin fyrir vind og eigi þar af leiðandi tækifæri til töluverðs vaxtar, auk þess sem fleiri fyrirtæki munu vonandi bætast í þann hóp,“ bætir hún við.

Hún kveðst þó ekki vilja spá of langt inn í framtíðina eða hafa of miklar væntingar og leggur sérstaka áherslu á að uppbygging greinarinnar þurfi að vera skynsamleg. „Ef við myndum fara upp í það sem gildandi áhættumat kveður á um, 71 þúsund tonn í laxi, þá gætu útflutningsverðmæti þess farið í 55 til 60 milljarða króna. Þá erum við kannski komin upp í fjárhæðir sem eru 30 til 40 prósent af útflutningsverðmætum sjávarafurða. Það munar sannarlega um þær tekjur.

Það sverfur að í öðrum atvinnugreinum, eins og gengur og gerist, og af þeim sökum sérstaklega verðum við að fjölga stoðum undir útflutningsgreinar. Þannig að þegar niðursveiflur koma í einhverjum atvinnugreinum, eins og til dæmis í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu, þá séu aðrar atvinnugreinar sem grípa boltann og koma þannig í veg fyrir að samdráttur í efnahagskerfinu verður meiri heldur en hann ella hefði orðið. Því fleiri atvinnugreinar sem standa undir okkar útflutningi, því meiri verður sveiflujöfnunin, og þar af leiðandi stöðugra efnahagslíf,“ útskýrir framkvæmdastjórinn.

Vaxtarverkir í stjórnkerfinu

Fiskeldi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og voru um 26 þúsund tonn eldisafurða flutt út í fyrra. Þá nam útflutningsverðmæti afurðanna um 25 milljörðum króna sem er 89,4% aukning frá 2018. Á sama tíma er hins vegar áberandi að gögn sem fylgja tilkynningum um útgefin rekstrarleyfi fiskeldis- fyrirtækja sýna að sumar umsóknir um ný eða stækkuð leyfi hafa verið til meðferðar hjá opinberum stofnunum í fjögur ár.

Spurð hvort málsmeðferðartími og flækjustig leyfisveitinga haldi aftur af frekari vexti greinarinnar, svarar Heiðrún Lind: „Því miður verður ekki fram hjá því vandamáli litið og fáir geta mótmælt því að það eru vaxtarverkir í stjórnkerfinu. Við viljum að sjálfsögðu vanda til verka, fara varlega og byggja starfsemina upp með skynsam- legum hætti, en stjórnsýslan hefur því miður verið illa búin undir þau nýju verkefni sem henni hafa verið falin í tengslum við fiskeldi. Það virðist fyrst og fremst fjármagn sem skortir, þannig að unnt sé að hafa starfsfólk til að afgreiða mál fljótt og örugglega, í samræmi við fresti eins og lög kveða á um.

Ég nefni sérstaklega Skipulagsstofnun í þessu samhengi, þar sem umsóknir eru ekki afgreiddar innan lögbundinna fresta. Þetta hægir ekki aðeins á vexti starfseminnar, heldur veldur þetta beinlínis tjóni í starfsemi fyrirtækjanna. Það að ala fisk í sjó krefst mikils fjármagns og margra ára undirbúnings. Skortur á fyrirsjáanleika við afgreiðslu mála setur þennan mikilvæga þátt í uppnám.“

Hafa sýnt varfærni

Það verður ekki hjá því komist að verða var við talsverða gagnrýni í garð fiskeldisins, sérstaklega hvað eldi í sjókvíum varðar og snýr hún aðallega að áhyggjum af því að eldisfiskur sleppi úr kvíum og valdi erfðablöndun villtra laxastofna. Jafnframt eru áhyggjur af því hversu mikinn úrgang lífríkið í fjörðum landsins þolir. Innt álits á þessari gagnrýni kveðst Heiðrún Lind hafa skilning á því að ólíkir hagsmunir kunni að vegast á þegar uppbygging nýrrar atvinnustarfsemi er annars vegar.

„Ég held hins vegar að við eigum að vera skynsöm og gera okkur grein fyrir þeim veruleika að eitt útilokar ekki annað. Ég tel að löggjafinn hafi í allri sinni nálgun á málið farið fram með mjög varfærnislegum hætti og við erum að grípa til allra þeirra ráðstafanna sem raunhæfar og skynsamlegar eru til þess einmitt að koma í veg fyrir spjöll á náttúru eða spjöll á villtum laxi. Þessi starfsemi fer í gegnum ótrúlega langt ferli frá því að ákveðið er að hefja hana og þar til fyrsta laxi er slátrað.

Það má segja að ekkert land sé með jafn umfangsmikið kerfi í kringum sjókvíaeldi, sem allt miðar af því að takmarka áhættu. Fram fer mat á burðarþoli þeirra fjarða þar sem sjókvíaeldi er fyrirhugað, því næst er framkvæmt áhættumat, sem er óþekkt annar staðar í heiminum og miðar að því að koma í veg fyrir blöndun erfða við villtan lax þannig að honum stafi hætta af. Þá tekur nær undantekningarlaust við umhverfismat. Þegar umhverfismati er síðan lokið taka við ýmiss konar skilyrði til starfsemi í starfs- og rekstrarleyfum. Þannig að ferlið er nokkuð langt og strangt. Allt miðar það hins vegar að því að við komum í veg fyrir erfðablöndun á villtum laxi og að það sé ekki þess háttar mengun í sjó, að öðrum lífverum stafi hætta af.“

Er varðar áhyggjur af því að vöxtur greinarinnar sé of hraður segir hún það vissulega svo að það eigi að fara varlega, „en framleiðslumagnið verður að vera þannig að við getum tryggt afhendingaröryggi inn á stærri, hátt borgandi markaði eins og Asíu og Bandaríkin. Ef við ætluðum okkur til framtíðar að framleiða aðeins um 25 til 30 þúsund tonn mundi það ekki standa undir þeirri eftirspurn sem kemur frá best borgandi mörkuðunum. Ef við getum ekki tryggt jafna afhendingu allt árið um kring, þá fáum við einfaldlega ekki þessi viðskipti. Magnið þarf því að aukast ef við ætlum að vera raunhæfir keppinautar á þessum mörkuðum sem eru best borgandi.“

Mikil atvinnustarfsemi hefur byggst upp í kringum eldið.
Mikil atvinnustarfsemi hefur byggst upp í kringum eldið. mbl.is/Helgi Bjarnason

Þekking fylgi fjármagni

Annar þáttur sem borið hefur á í umræðunni um fiskeldi hérlendis er eignarhald þeirra fyrirtækja sem í greininni eru, en norsk eldisfyrirtæki eru þar stórtækir fjárfestar. Framkvæmdastjórinn telur þó ekki ástæðu til að óttast eignarhald, þvert á móti fylgja því ýmsir kostir. „Þessi umræða skýtur alltaf upp kolli og er ekki sér einkenni fyrir eldi, heldur heyrist hún því miður um erlenda fjárfestingu í heild. Við höfum verið að reyna að glæða hér erlendar fjárfestingar, enda eru þær nauðsynlegar. Í tilviki eldisins er þetta ekki bara í formi fjármagnsins sem hingað kemur til dreifðari byggða landsins, heldur er það líka þekkingin sem þessir erlendu aðilar búa yfir.

Það væri óskandi að þeir sem hafa áhyggjur af starfsemi fiskeldisins, gætu fagnað aðkomu erlendra aðila. Þessir erlendu aðilar hafa farið í gegnum uppbyggingu í sínu heimalandi og þar af leiðandi einnig gert einhver mistök á þeirri vegferð. Þeir hafa þá jafnframt lært af þeirri reynslu og geta þá komið í veg fyrir að við gerum sambærileg mistök hér á landi,“ segir Heiðrún Lind og vísar til áratuga reynslu Norðmanna af fiskeldi.

„Noregur hefur verið í eldisstarfsemi í sjó um áratuga skeið. Sú starfsemi var svo sannarlega ekki fullkomnuð á fyrsta degi og enn er raunar verið að gera breytingar í samræmi við betri þekkingu og bætta tækni. Öll atvinnustarfsemi hefur áhrif á umhverfi sitt, en sú þekking sem orðið hefur til í Noregi er af hinu góða og við fögnum því að henni sé miðlað áfram hingað í gegnum fjárfestingar erlendra aðila.“

Flutningskostnaður hærri

Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram af þeim sem hafa mestar áhyggjur af umhverfisáhrifum eldisins að eldinu væri betur komið í kvíum á landi. Landeldi getur þó kallað á mun hærri kostnað en það sem tíðkast í sjókvíum.

„Á þessum tímapunkti er það óraunhæft. Við verðum auðvitað að vera opin fyrir allri þróun sem verður í þessu, en kostnaður við framleiðsluna á landi er töluvert hærri heldur en kostnaður í sjó. Krafa um að færa sjóeldi á land, leiðir í raun til þess að starfsemin verður óháð Íslandi. Það eru miklu meiri líkur á því, ef fiskeldi er skikkað á land, að það einfaldlega fari til annarra landsvæða sem eru nær þeim mörkuðum sem laxinn er seldur á.

Fyrsti risinn í landeldi er einmitt að hefja starfsemi núna í Flórída. Mér er það til efs að umfangsmikið landeldi á Íslandi geti keppt við það, eins og staðan er í dag. Við erum eyja í miðju Atlantshafi, og á þeirri staðsetningu verður auðvitað aldrei breyting, þannig að flutningskostnaðurinn héðan er langtum hærri en flutningskostnaður þeirra sem eru nær mörkuðum eða hafa betri flutningsleiðir. Tækninni fleygir hins vegar fram og eins og ég sagði fyrr, þá eigum við að fylgjast vel með þessum tilraunum. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Viðtalið var fyrst birt í 200 mílum, sjávarútvegsblaði Morgunblaðsins, 7. febrúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.3.24 558,73 kr/kg
Þorskur, slægður 18.3.24 503,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.3.24 332,79 kr/kg
Ýsa, slægð 18.3.24 217,26 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.3.24 221,12 kr/kg
Ufsi, slægður 18.3.24 222,80 kr/kg
Gullkarfi 18.3.24 234,41 kr/kg
Litli karfi 18.3.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 18.3.24 208,37 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.3.24 Öðlingur SU 19 Línutrekt
Þorskur 7.380 kg
Samtals 7.380 kg
18.3.24 Sunnutindur SU 95 Línutrekt
Þorskur 10.868 kg
Ýsa 818 kg
Langa 137 kg
Keila 127 kg
Steinbítur 87 kg
Ufsi 4 kg
Samtals 12.041 kg
18.3.24 Straumey EA 50 Línutrekt
Þorskur 3.803 kg
Ýsa 146 kg
Steinbítur 54 kg
Samtals 4.003 kg
18.3.24 Ás NS 78 Grásleppunet
Grásleppa 2.198 kg
Þorskur 772 kg
Skarkoli 197 kg
Samtals 3.167 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.3.24 558,73 kr/kg
Þorskur, slægður 18.3.24 503,96 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.3.24 332,79 kr/kg
Ýsa, slægð 18.3.24 217,26 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.3.24 221,12 kr/kg
Ufsi, slægður 18.3.24 222,80 kr/kg
Gullkarfi 18.3.24 234,41 kr/kg
Litli karfi 18.3.24 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 18.3.24 208,37 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.3.24 Öðlingur SU 19 Línutrekt
Þorskur 7.380 kg
Samtals 7.380 kg
18.3.24 Sunnutindur SU 95 Línutrekt
Þorskur 10.868 kg
Ýsa 818 kg
Langa 137 kg
Keila 127 kg
Steinbítur 87 kg
Ufsi 4 kg
Samtals 12.041 kg
18.3.24 Straumey EA 50 Línutrekt
Þorskur 3.803 kg
Ýsa 146 kg
Steinbítur 54 kg
Samtals 4.003 kg
18.3.24 Ás NS 78 Grásleppunet
Grásleppa 2.198 kg
Þorskur 772 kg
Skarkoli 197 kg
Samtals 3.167 kg

Skoða allar landanir »