Maraþonköfun við Runólf

Halldór B. Nellett, skipherra Landhelgisgæslunnar, segir frá þvíe r hann …
Halldór B. Nellett, skipherra Landhelgisgæslunnar, segir frá þvíe r hann tók þátt í björgunarköfun til þess að bjarga togaranum Runólfi árið 1991. Hér gerir hann sig kláran fyrir köfun á dekki Óðins. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Fljótlega eftir að Landhelgisgæslan var stofnuð 1926 voru kafarar ráðnir á varðskipin. Samhliða kafarastörfum vinna kafarar ýmsa aðra vinnu eftir því sem störf þeirra eru hverju sinni. Kafarastörf hjá Gæslunni eru hliðarstörf þeirra sem það stunda, samhliða aðalstarfi, og hafa ýmsar starfsstéttir gegnt þessu, þar á meðal skipherrar, stýrimenn, vélstjórar, loftskeytamenn, bátsmenn og hásetar.

Kafarar hafa sumir sótt menntun sína til útlanda, eins og í Danmörku og Bandaríkjunum og hafa mörg námskeið einnig verið haldin hér á landi. Þá eru í öðrum deildum Landhelgisgæslunnar starfandi kafarar eins og Séraðgerðar- og sprengjueyðingarsveit og í Flugdeild.

Almennir lesendur gera sér ekki alltaf grein fyrir þeim störfum sem Gæslumenn vinna út frá stuttum fréttatilkynningum og því er tilgangur minn að fara aðeins dýpra í lýsingum á þessum störfum okkar, eða eins og þau voru hér áður fyrr.

Sjálfur fór ég í þetta kafaranám árið 1985, alls ekki af áhuga á því að vera mikið í undirdjúpunum þó að ég hafi haft gaman af því að synda á yngri árum, heldur til að drýgja tekjur mínar og gaf þetta oft ágætis aukatekjur í aðra hönd.

Kafaranámið var skemmtilegt en oft erfitt og byrjaði í Sundhöll Reykjavíkur þar sem við kafaranemar sem vorum fjórir alls vorum teknir út ef svo má segja.

Þar þurftum við að synda nokkuð langa vegalengd innan ákveðins tíma til að standast inntökupróf og síðan voru nokkrar vikur í stanslausum köfunum í Reykjavíkurhöfn, samhliða bóklegu námi og fékk ég að loknu námskeiði þegar tilskildum botntíma var náð réttindi til köfunar í öllum búnaði að 50 metra dýpi eins og stendur í atvinnukafaraskírteini mínu nr. 190.

Halldór ásamt lærimeistara sínum Höskuldi Skarphéðinssyni skipherra. Þeir sigldu mikið …
Halldór ásamt lærimeistara sínum Höskuldi Skarphéðinssyni skipherra. Þeir sigldu mikið saman og byrjaði Halldór til sjós 16 ára með Höskuldi 1972 á Ægi og voru þeir samskipa allt þorskastríðið á Baldri.

Kennarar á þessu námskeiði voru þeir Höskuldur heitinn Skarphéðinsson, fyrrverandi skipherra, og Kristján Þ. Jónsson, einnig fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Höskuldur var mest í verklegu kennslunni en Kristján sá nær alfarið um bóklega þáttinn og hluta þess verklega.

Kafarastörf geta verið virkilega erfið og ekki hættulaus. Menn þurfa að vera vel á sig komnir líkamlega og ekki síður andlega. Oftast voru þetta kafanir undir fiskiskip til þess að skera veiðarfæri úr skrúfum skipa, oft við slæmar aðstæður í náttmyrki, kulda og sjógangi. Kafarar gæslunnar þurfa í raun að vera undir það búnir að fara í hvað sem er, s.s. leitarkafanir, mikið er um almennar kafaraæfingar og síðan samhliða þyrluæfingum á sjó en þá þurfa kafarar að vera til taks. Einnig sinna kafara í Séraðgerðar- og sprengjueyðingarsveit leit að djúpsprengjum, tundurduflum o.fl. og gera þau óvirk.

Í dag er mun minna um það að fiskiskip fái veiðarfæri sín í skrúfuna, sennilega vegna betri tækjabúnaðar, rafræn sjókort eru hjá nær öllum skipum og mörg komin með hliðarskrúfur, straummæla o.fl. þannig að skipstjórar fiskiskipa hafa mun betri yfirsýn yfir allar hreyfingar skipanna.

Haldið til móts við togarann Runólf

Umrætt atvik gerðist árið 1991, en þá var ég yfirstýrimaður á varðskipinu Tý. Við lágum við akkeri inni á Dýrafirði á Vestfjörðum vegna brælu úti fyrir þennan dag, föstudaginn 18. janúar, þegar togarinn Runólfur frá Grundarfirði hafði samband rétt fyrir miðnætti og óskaði eftir okkar aðstoð. Togarinn hafði fengið veiðarfæri sín eða botntrollið í skúfuna þegar skipið var að láta trollið fara í brælu. Hnútur kom á skipið framanvert þannig að það fór eitthvað afturábak með þessum afleiðingum. Akkeri Týs var þegar létt á Dýrafirði og haldið áleiðis til togarans, sem var lengst vestur af Snæfellsnesi, eða um 90 sjómílur.

Veður á leið til Runólfs suðvestur um var í fyrstu NA-bræla en lagaðist þegar sunnar dró.

Runólfur á siglingu.
Runólfur á siglingu. Ljósmynd/Guðlaugur Albertsson

Komið var að Runólfi rétt fyrir hádegi daginn eftir og fljótlega var búið að koma dráttartaug yfir í togarann og byrjað að draga skipið til lands. Ekki var mögulegt vegna sjógangs að skera úr skrúfu skipsins á staðnum og því þurfti að leita vars eins og oft var gert eða fara á sléttari sjó svo við kafararnir gætum athafnað okkur.

Ferðin til lands gekk og vel og upp úr klukkan fjögur aðfaranótt sunnudagsins 20. janúar, eftir um 16 tíma drátt, var lagst við akkeri undan Búðahrauni á Snæfellsnesi, en áður hafði verið stytt í dráttartaugum og togarinn því enn tengdur dráttartaug rétt aftan við varðskipið.

Oftast eru tveir kafarar á varðskipunum því ekki er heimilt af öryggisástæðum að menn kafi einir eins og gert var hér áður fyrr. Það er ekki þægilegt að festast undir skipi í netaflækju og loftbirgðir að tæmast, sem hefur gerst, og hafa engan nálægan að hjálpa sér. Þótt ávallt sé reynt að fara varlega eru veiðarfæri sem föst eru í skrúfum skipa í rúmsjó alltaf að flaksast í allar áttir vegna sogs við skrúfurnar.

Í þessu tilviki vorum við þrír kafarar um borð í Tý, þ.e. undirritaður og þeir Bárður Ólafsson 2. stýrimaður og Bjarki Vilbertsson, þáverandi háseti en vinnur í dag sem vélstjóri á erlendum fiskiskipum.

Á leið til lands með Runólf undirbjuggum við kafararnir og aðstoðarmenn okkar sem best eins og venja er fyrir köfun. Farið var vandlega yfir allan búnað og tekin til þau verkfæri sem nota átti og athugað hvort allir hnífar bitu ekki vel.

Skera, klippa, rífa og tæta

Farið var á léttbát varðskipsins yfir að togaranum með aðstoðarmenn og hófst köfun við skipið rétt fyrir klukkan fimm um morguninn. Vegna náttmyrkurs voru notuð tvö 220 volta köfunarljós og handluktir en fljótlega bilaði þó annað ljósið. Áður en köfun hófst var farið um borð og rætt við skipstjórann um tilhögun verksins og hann beðinn um að tryggja að aðalvél togarans færi ekki í gang eða stýri væri hreyft meðan við kafarar værum að störfum við skrúfuna.

Lá við að manni féllust hendur

Fljótlega kom í ljós þegar niður var komið að meirihlutinn af poka og belg botnvörpunnar var í skrúfu skipsins, þéttvafið um skrúfuöxul og skrúfublöð og fast milli stýrisblaðs og skrúfuhauss þannig að stýri skipsins var fast í stjórnborða. Sem sagt, skrúfan var kjaftfull af trollinu svo varla sá í skrúfuna né stýrið. Það var ljóst að þetta yrði mikið verk að ná þessu úr og við lá að manni féllust hendur við að sjá þetta allt. Ég var búinn að fara í nokkuð margar kafanir þegar að þessu kom en aldrei séð neitt þessu líkt þótt eflaust sé það ekki einsdæmi.

Við kafarar vorum oft að grínast með það á þessum tíma að bestu kafanirnar væru þar sem heit sturta að lokinni köfun tæki lengri tíma en köfunin sjálf, það kom fyrir en ekki oft. Nokkuð ljóst var að það yrði ekki í þetta skipti.

En þarna var ekkert annað í boði en að hefjast handa og gera sitt besta. Illa gekk að skera úr skrúfu skipsins, þar sem netið var mjög þétt vafið og bugtað þannig að ekki var hægt að vefja það ofan af eins og oft var mögulegt að gera.

Á þessum tíma vorum við ekki ríkir af verkfærum, mest voru þetta beittir hnífar, járnsagir og víraklippur, allt unnið á handkraft eins og sagt er. Hér áður fyrr var oft kafað við skip í rúmsjó þar sem talsverð hreyfing var á viðkomandi skipi og sog við skrúfurnar og því var oft best að vera einfaldlega með beittan hníf með stuttu blaði, minni slysahætta og við slíkar aðstæður gat verið erfitt og jafnvel hættulegt okkur sjálfum að beita öflugum og þungum loftverkfærum. Verfæralagerinn er betri í dag þótt eflaust mætti bæta hann en mesta byltingin er eflaust fjarskiptabúnaður og neðansjávarmyndavélar sem auðvelda stjórnendum alla vinnu og auka til muna allt öryggi.

En aftur að Runólfi, þar var ekkert annað að gera en að skera, klippa, rífa og tæta þrotlaust í margar klukkustundir. Allt net sem við skárum og losuðum var síðan híft jafnóðum upp í Runólf.

Við fengum þó alltaf stutta hvíld öðru hvoru þegar kafarakútar okkar voru endurnýjaðir af loftbirgðum sem aðstoðarmenn okkar sáu um og einnig þurfti að brýna hnífa. Talsverður straumur var þarna niðri eins og alltaf þegar legið er við akkeri nálægt landi og sjávarfallastrauma gætir.

Leið Týs frá Dýrafirði að Runólfi, að Snæfellsnesi og á …
Leið Týs frá Dýrafirði að Runólfi, að Snæfellsnesi og á Kollafjörð.

Best fannst mér yfirleitt að skera úr skrúfum skipa sem voru á reki, þá var straumurinn minnstur við skrúfurnar, skipin rak með straumnum.

Við þær aðstæður var best ef mögulegt var að reyna að skorða sig fastan þarna niðri ef sog var mikið, annaðhvort milli stýris eða í eða við skrúfuhring ef hann var á skipunum og þá var mögulegt að vinna með báðum höndum. Ef ekki tókst að skorða sig almennilega fór mikil orka í það að halda sér föstum með höndum og jafnvel fótum og það tafði vitanlega alla vinnu.

Eftir að hafa skorið á netið inn að skrúfuöxli á Runólfi tókst að hífa þann hlutann úr með gils frá togaranum og losnaði þá einnig netið af skrúfublöðunum.

Margítrekaðar tilraunir voru gerðar til að losa netahnútinn sem var kolfastur milli skrúfuhauss og stýris með því að skera og hífa í netið með stroffum og gils frá togaranum og síðan var gilsvírinn færður inn á sjálfa togvinduna til að fá meira átak í hífinguna. Þegar þarna var komið sögu vorum við í kapphlaupi við tímann og ásetningur okkar kafara að klára verkið fyrir brælu sem spáð var. Skipherranum, Sigurði Steinari Ketilssyni heitnum, leist ekkert á veðurspána, sem skiljanlegt var, en spáð var suðaustan brælu um kvöldið og stóð vindur beint upp á land þarna sunnan við Snæfellsnesið.

Köfun frestað vegna brælu, haldið á Kollafjörð

Upp úr klukkan fimm síðdegis eða eftir 12 tíma köfun þar sem við þurftum að endurnýja loftbirgðir okkar alls sjö sinnum, var ljóst að við næðum ekki að klára verkið og var ákveðið að fresta köfun og færa okkur á öruggari stað með tilliti til veðurútlits.

Akkeri var því létt fljótlega eftir að köfun lauk, lengt í dráttartauginni og skipið dregið suður Faxaflóa á Kollafjörð og komin suðaustan bræla, eða um 7 til 9 gömlu vindstigin, strax um kvöldið.

Við kafararnir vorum hvíldinni fengnir og fórum beint í koju. Það var gott að komast loks úr kafaragallanum og í heita sturtu, en þarna vorum við enn í svokölluðum blautgöllum. Þeir voru þannig gerðir að þegar farið var í sjóinn fór ískaldur sjórinn inn undir búninginn og kældi skrokkinn og líkamann hressilega í byrjun, en síðan sá líkaminn um að ylja sjóinn aðeins þannig að þetta var ekki svo slæmt eftir smá tíma. Þegar mikið var streðað og átök mikil eins og þarna var í langan tíma fannst mér reyndar þessi gömlu búningar betri en þeir sem síðar komu, þ.e. þurrbúningar. Í það minnsta var við slíkar aðstæður sjálfvirk kæling á líkamanum þegar manni hitnaði við vinnuna. Þurrbúningar eru þannig að þeir hleypa engum sjó inn að líkama, menn eru alveg þurrir og klæða sig í hlý undirföt, kanínuull var vinsæl man ég, kitlaði minna en þessi venjulega ull.

Sjálfum fannst mér ekki gott að vinna erfiðisvinnu í slíkum búningum, allt of heitt og óþægilegt þegar svitinn spratt út. En auðvitað voru þeir frábærir við léttari vinnu í köldum sjó.

Drátturinn á Runólfi á Kollafjörð gekk vel þrátt fyrir leiðindaveður og um fimm á mánudagsmorgninum 21. janúar var aftur lagst fyrir akkeri í þokkalegu skjóli á Kollafirði.

Köfun á Kollafirði

Upp úr níu hófst köfun að nýju. Við kafararnir vorum nú sprækir eftir góða hvíld. Sjálfur var ég að vona áður en ég stakk mér niður aftur þarna á Kollafirði að eitthvað myndi losna um hnútinn og netið í skrúfunni við dráttinn um nóttina, sem oft gerist ef sjógangur er einhver og straumur, en það var öðru nær. Allt óbreytt frá deginum áður.

Við byrjuðum því á að skera allt laust net frá hnútnum sem enn var kolfastur milli stýris og skrúfu og síðan var reynt að hífa hnútinn úr með gilsinum sem kominn var inn á togvinduna með miklu átaki, en án árangurs.

Fara varð mjög varlega við þessar aðferðir og passa vel upp á að átakið og átakshornið væri rétt þannig að ekki væri hætta á skemmdum á skrúfu eða stýri. Einnig var reynt að rykkja duglega í en allt án árangurs.

Varðskipið Týr.
Varðskipið Týr. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Á þessum tímapunkti var orðið spurning að hætta frekari aðgerðum og senda skipið í slipp en þó var ákveðið að reyna eina aðferð enn sem talin var áhættunnar virði.

Ákveðið var í samráði við skipstjóra Runólfs að setja aðalvél í gang og reyna að kúpla að og sjá hvort eitthvað losnaði við það. Það var talið óhætt því mikið var farið úr skrúfunni. Við kafarar fórum því upp úr meðan þetta var gert. Aðalvél togarans var því gangsett og kúplað að, en við það snýst skrúfan, og eftir aðra tilraun losnaði hnúturinn úr með því að beygja stýrinu frá borði í borð en stýrið losnaði í fyrra skiptið sem vélin fór í gang.

Köfun lauk síðan upp úr hádegi þennan dag og voru loftbirgðir endurnýjaðar einu sinni og var þá búið að hreinsa allt net úr skrúfunni.

Einu skemmdirnar sem sáust voru að hnífar voru brotnir af skrúfuöxlinum eftir átök frá skrúfunni þegar trollið festist og rétt fyrir eitt var dráttartaug sleppt úr Runólfi og þar með var verkefni okkar lokið, en þá voru liðnar um 60 klukkustundir frá því að skipið óskaði eftir aðstoð varðskipsins.

Runólfur gat síðan, þótt ótrúlegt væri, haldið áfram veiðum án þess að fara í land til viðgerðar á trollinu, lagfærðu skipverjar trollið sjálfir, greinilega góðir netamenn þar um borð.

Þessi frásögn sýnir hversu mikilvægt er að á skipum Landhelgisgæslunnar séu ætíð til reiðu vel þjálfaðir kafarar og vel búin varðskip.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.6.21 279,43 kr/kg
Þorskur, slægður 18.6.21 266,28 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.6.21 471,97 kr/kg
Ýsa, slægð 18.6.21 312,67 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.6.21 83,34 kr/kg
Ufsi, slægður 18.6.21 133,50 kr/kg
Djúpkarfi 16.6.21 102,00 kr/kg
Gullkarfi 18.6.21 177,66 kr/kg
Litli karfi 15.6.21 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 10.6.21 334,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.6.21 Stormur BA-500 Grásleppunet
Grásleppa 6.002 kg
Samtals 6.002 kg
19.6.21 Valur ÍS-020 Rækjuvarpa
Rækja í Djúpi 5.142 kg
Samtals 5.142 kg
19.6.21 Haftyrðill ÍS-408 Sjóstöng
Þorskur 142 kg
Ufsi 59 kg
Ýsa 35 kg
Steinbítur 34 kg
Samtals 270 kg
19.6.21 Hávella ÍS-426 Sjóstöng
Þorskur 202 kg
Samtals 202 kg
19.6.21 Álft ÍS-413 Sjóstöng
Þorskur 198 kg
Steinbítur 81 kg
Samtals 279 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.6.21 279,43 kr/kg
Þorskur, slægður 18.6.21 266,28 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.6.21 471,97 kr/kg
Ýsa, slægð 18.6.21 312,67 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.6.21 83,34 kr/kg
Ufsi, slægður 18.6.21 133,50 kr/kg
Djúpkarfi 16.6.21 102,00 kr/kg
Gullkarfi 18.6.21 177,66 kr/kg
Litli karfi 15.6.21 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 10.6.21 334,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.6.21 Stormur BA-500 Grásleppunet
Grásleppa 6.002 kg
Samtals 6.002 kg
19.6.21 Valur ÍS-020 Rækjuvarpa
Rækja í Djúpi 5.142 kg
Samtals 5.142 kg
19.6.21 Haftyrðill ÍS-408 Sjóstöng
Þorskur 142 kg
Ufsi 59 kg
Ýsa 35 kg
Steinbítur 34 kg
Samtals 270 kg
19.6.21 Hávella ÍS-426 Sjóstöng
Þorskur 202 kg
Samtals 202 kg
19.6.21 Álft ÍS-413 Sjóstöng
Þorskur 198 kg
Steinbítur 81 kg
Samtals 279 kg

Skoða allar landanir »