„Vinnudagurinn ólíkur því sem flestir eiga að venjast“

Það er ekki á færi hvers sem er að munda …
Það er ekki á færi hvers sem er að munda rafsuðutæki í köldum sjó í lélegu skyggni. Kafarar þurfa að sýna ýtrustu fagmennsku þegar þeir vinna við skip og hafnarmannvirki. Ljósmynd/Aðsend

Kafarar þjóna ómissandi hlutverki í viðhaldi skipa og hafnarmannvirkja, og eru fljótir á staðinn ef losa þarf aðskotahlut úr skrúfu eða huga að hvers kyns vandamálum neðansjávar. Um mjög sérhæfða þjónustu er að ræða og segir Helgi Hinriksson að til að sinna þessum verkefnum þurfi kafarar bæði að hafa undirgengist mikla þjálfun og fylgja ströngum verklagsreglum.

Helgi er framkvæmdastjóri Köfunarþjónustunnar og segir að starfsmenn vinni oft í kapphlaupi við tímann. „Ósjaldan þarf að leysa málin einn, tveir og þrír, því mikið getur verið í húfi. Þannig t.d. gæti skip tekið niðri og leki komið að því. Kafarar eru þá einu mennirnir sem komast að leka og geta unnið í að þétta skipið áður en það er tekið af strandstað.“

Helgi Hinriksson, framkvæmdastjóri Köfunarþjónustunnar.
Helgi Hinriksson, framkvæmdastjóri Köfunarþjónustunnar. Ljósmynd/Aðsend

Kafarar eru líka fengnir til að gera botnskoðun á skipum, oft á tíðum vegna framlengingar á haffærisskírteini sem og vegna almennrar ástandsskoðunar. Köfunarþjónustan er vottuð af fjórum vottunarfélögum, DNV-GL, Lloyds, Bureau Veritas og ABS.

„Botnskoðun getur tekið allt frá tveimur klukkustundum upp í heilan vinnudag eftir því hve stórt skip er um að ræða og hversu ítarleg skoðun þarf að fara fram,“ segir Helgi. „Kafarar sinna jafnframt viðhaldi s.s. ef skipta þarf um eða hreinsa botnstykki, skipta um fórnarskaut, pólera skrúfur og hreinsa burtu sjávargróður – í raun allt sem hægt er að gera við skip á floti.“

Dýrt ef endurnýja þarf stálþil í höfnum

Þegar kemur að viðhaldi hafnarmannvirkja getur þjónusta kafara sparað háar fjárhæðir. Flestar hafnir landsins eru gerðar úr stálþilum sem rekin eru niður í hafnarbotninn en endingartími stálsins getur verið mislangur eftir aðstæðum.

„Líftími nýs stálþils á að vera um 40 til 50 ár en tæringin er mishröð eftir höfnum. Eru dæmi um að stálþil fari að láta á sjá eftir 10 ár og séu orðin ónýt eftir 20 ár. Við tæringu myndast göt í stálinu og sjórinn skolar út jarðveginum þar á bak við svo að holrými myndast. Holrýmin stækka smám saman og geta myndað stærðarinnar hella svo að þekja fer að síga og jafnvel gefa sig þegar lyftari ekur þar yfir,“ útskýrir Helgi. „Svona skemmdir og hellamyndun sést ekki á yfirborðinu og því mikilvægt að fara í reglubundið eftirlit og kanna ástands stálþilja.“

Ljósmynd/Aðsend

Köfnarþjónustan hefur sérhæft sig í úttekt á ástandi stálþilja og skilar af sér ítarlegri skýrslu sem sýnir ástand og kemur með tillögur að úrbótum. Köfunarþjónustan notast síðan við viðurkenndar aðferðir við viðgerðir og lengir þannig líftíma stálþilja.

Helgi segir sveitarfélög þurfa að gæta vel að eftirliti með hafnarmannvirkjum því þó að ríkið taki þátt í kostnaði við nýframkvæmdir þá séu engir ríkisstyrkir í boði fyrir reglubundið viðhald og geta viðgerðirnar orðið dýrari eftir því sem skemmdirnar koma seinna í ljós. „Viðgerðarkostnaðurinn er um 18% af kostnaðinum við að setja niður nýtt stálþil og því mikill ávinningur í því að vanrækja ekki viðhaldið.“

Loks hjálpa kafarar fiskeldisfyrirtækjum að halda sjókvíum í horfinu. Köfunarþjónustan á helmingshlut í félaginu K-Tech Marine í Reyðarfirði sem sérhæfir sig í þjónustu við fiskeldi. „Kanna þarf ástand kvíanna með reglulegu millibili og laga skemmdir sem kunna að koma í ljós. Í nógu er að snúast í greininni og eru þrír kafarar í fullu starfi hjá dótturfyrirtækinu fyrir austan.“

Að lágmarki þrír í hverju teymi

Lesendur geta rétt ímyndað sér að það er ekki auðvelt að sinna viðhaldi og viðgerðum neðansjávar og aðstæður oft mjög krefjandi. Helgi segir að öll verkefni séu unnin í samræmi við strangar öryggisreglur og þegar þarf t.d. að sinna viðhaldi skipa sé unnið eftir stöðluðum verkferlum í nánu samstarfi við vélstjóra og skipstjóra. „Oft eru margir mismunandi aðilar að störfum um borð og að fást við mismunandi hluti. Allir þurfa að vera meðvitaðir um það að kafari sé að störfum og er það m.a. gefið til kynna með viðvörunarspjöldum uppi í brú og í vélarrúmi.“

Ekki má senda kafara einan af stað heldur vinna þrír saman í teymi. Er þá einn kafari í sjónum, og í beinu sambandi við köfunarformann í landi. Þriðji maðurinn er öryggiskafari sem er viðbúinn að koma strax til aðstoðar ef eitthvað skyldi koma upp á. „Köfunarformaðurinn fylgist vandlega með framvindu vinnunnar í gegnum sjónvarpsskjá og í reynd fjarstýrir kafaranum.“

Verkefnin eru bæði stór og smá og nefnir Helgi sem dæmi þegar starfsmenn Köfunarþjónustunnar voru fengnir til að ganga til liðs við stærra teymi kafara til að skipta um skrúfu á skemmtiferðaskipi. Hann upplýsir að þegar verið er að vinna með mjög stóra og þunga hluti séu notaðir svokallaðir lyftipokar sem fylla má með lofti til að gera þá meðfærilegri neðansjávar.

Læra rafsuðu í sérsmíðaðri sundlaug

Kafarana þarf að sérþjálfa enda ekki hluti af venjulegu námsframboði íslenskra skóla að kenna fólki að rafsjóða neðansjávar eða skoða skipsskrokk í samræmi við ströngustu staðla. Helgi segir Köfunarþjónustuna oft fá til sín ungt fólk sem búið er að ljúka köfunarskóla erlendis og tekur þá við þjálfun samhliða vinnu.

Ljósmynd/Aðsend

„Það aðskilur okkur frá köfunarfyrirtækjum erlendis að verkefnin okkar eru mjög fjölbreytt á meðan sams konar fyrirtæki í öðrum löndum eru oft mun sérhæfðari og starfið þar af leiðandi einhæfara. Þetta þýðir að starfsfólk okkar öðlast breiða reynslu. Þá fáum við til okkar sérfræðinga frá útlöndum til að kenna réttu handtökin við nákvæmnisvinnu eins og rafsuðu neðansjávar. Í janúar á þessu ári fóru fimm kafarar frá okkur í gegnum slíkt námskeið sem var vikulangt og fór fram í sundlaug sem við útbjuggum innandyra þar sem leiðbeinandinn gat fylgst með í gegnum glugga og gefið leiðsögn.“

Aðspurður hvort fólk endist lengi í þessu erfiða starfi segir Helgi að starfsaldur kafara Köfunarþjónustunnar sé nokkuð hár. „Vinnudagurinn er ólíkur því sem flestir eiga að venjast og oft vantar ekki spennuna. Að stökkva, með öllum köfunarbúnaði, úr fimm metra hæð ofan af bryggju og út í sjóinn kemur adrenalíninu heldur betur af stað og fjölbreytileikinn á sinn þátt í því að menn ílengjast hjá okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,44 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 183,92 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,44 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 183,92 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »