„Nú er maður kominn á gólfið“

GPG Seafood skipar mikilvægan sess í atvinnulífinu á Norðurlandi eystra …
GPG Seafood skipar mikilvægan sess í atvinnulífinu á Norðurlandi eystra og furðar Gunnar Gíslason, nýr framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sig á því að fleiri hundruð tonna byggðakvóti hafi verið tekinn af Húsvíkingum. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Það kom mörgum sem þekkja Gunnar Gíslason á óvart að hann skyldi flytja ásamt fjölskyldu sinni til Húsavíkur eftir að hafa búið alla ævi á Seltjarnarnesi, en hann var nýverið ráðinn í starf framkvæmdastjóra GPG Seafood og tók til starfa við upphaf nýs fiskveiðiárs, fyrsta september.

Gunnar kveðst alls ekki sjá eftir ákvörðuninni. „Gunnlaugur [Karl Hreinsson, eigandi GPG] bauð mér þetta starf eftir að Páll [Kristjánsson] færði sig um set, þá bauð hann mér þetta og maður stökk á þetta. Gaman að fara í eitthvað nýtt og gott að búa hérna,“ segir Gunnar.

„Það sem kom mér á óvart var að erlendu markaðirnir voru líflegri en maður hélt,“ segir Gunnar. Hann segir það sé farið að hægja aðeins á mörkuðum nú, eftir að fregnir fóru að berast af frekari útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Grásleppa skorin hjá GPG fiskverkun.
Grásleppa skorin hjá GPG fiskverkun. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Það er búið að loka veitingastöðum víða aftur og farið að herða aðgerðir, þannig að það er óvissa tengd því. Hins vegar erum við líka að vinna léttsöltuð flök á Raufarhöfn og þau rúlla reglulega út á markaðinn. Í þurrkaða fiskinum fer hann reglulega út til Nígeríu. Síðan er það saltfiskurinn sem við erum að vinna einnig núna inn á Ítalíu og Spán, það er þyngri staða þar en oft áður á haustin og helsta ástæðan er að Covid sé að ýkja þetta, eins og nýlegar fréttir frá Barcelóna segja okkur þar sem ákveðið var að loka öllum veitingastöðum.“

Vonar að veiran komi ekki til Húsavíkur

Gunnar segir hins vegar september og október oft rólegan árstíma í veiðum. „Þannig að það er kannski lán í óláni að markaðirnir eru ekki á fleygiferð líka. Síðan hefur almennt aukist mjög hratt í veiðum og vinnslu um miðjan október. [...] Okkar helsti tími í saltfiskinum er eftir áramót inn á markaði í Portúgal og á Spáni, svo vonandi verður vinnslan og markaðir á góðu róli eftir áramótin. Það er eitthvað verið að framleiða fyrir ítalska markaðinn með jólaneysluna í huga, en svo er maður að heyra að það sé töluvert til af birgðum af saltfiski meðal annars í Noregi og víðar, sem menn héldu að myndi seljast hraðar og fyrr, en það virðist ekki alveg hafa gengið eftir.

Við erum þokkalega brattir þrátt fyrir allt saman. Það er víða þungt hljóð á mörkuðum. Okkar kúnnar hafa verið að bregðast við með því að beina afurðum meira inn í smásöluna [eins og gerðist í vor þegar sala í smásölu sjávarafurða jókst þegar samdráttur varð í sölu til veitingahúsa]. Sem betur fer þarf fólk að borða og þá þurfum við að hafa góðan fisk til að bjóða því.“

Línuskipið Hörður Björnsson ÞH 260 er gerður út af GPG.
Línuskipið Hörður Björnsson ÞH 260 er gerður út af GPG. Ljósmynd/Gunnar Páll Baldursson

Þá segir framkvæmdastjórinn mikilvægan þátt í að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan vera mannauðinn. „Það eru spennandi tímar fram undan en það er alltaf einhver óvissa, en hér er gott starfsfólk í vinnslunum og góðir sjómenn – við erum með þrjá báta á fullu. Þótt það komi kannski upp einhverjir hnökrar er þetta allt mjög öflugt fólk sem leysir úr málunum. Mörg búin að vera starfandi í mörg ár og með mikla reynslu, þau hafa séð erfiða og bjarta tíma í þessu.“

Hann útskýrir að tekið hafi verið upp sérstakt verklag til að gæta sóttvarna og aðkoma í starfsstöðvarnar hafi verið takmörkuð. „Við vonum bara að veiran komi ekki til Húsavíkur.“

Lærir alltaf eitthvað nýtt

Gunnar kveðst þekkja sjávarútvegsgeirann vel þrátt fyrir að hann komi af mölinni. „Það skemmtilega við þetta er að ég byrjaði í sjávarútvegi 1996 í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og var þar nokkur ár. Síðan var ég náttúrlega í fjármálaiðnaðinum að vinna að fjármálum fyrir sjávarútveginn og þekki inn á greinina, en nú er maður kominn á gólfið. Í morgun var verkstjórinn veikur og þá þurfti maður að hlaupa hérna niður í vinnsluna og koma henni í gang,“ segir Gunnar og hlær.

„Maður lærir alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi. Það er margt að gerast fyrir nýjan mann. Maður vissi nú alltaf að þetta væri mjög lifandi grein og skemmtileg.“

Þá segir hann allt aðra upplifun að vera með beina aðkomu að verðmætunum sem verið er að skapa. „Maður áttar sig ekki sjálfkrafa á því hvað það eru mikil verðmæti í einum fiski. Þetta eru fleiri þúsundkallar og það þarf að passa upp á að meðhöndla hvern fisk vel. Núna snýst einmitt allt um að auka stöðugt öll gæði alveg frá veiðum og í gegnum vinnsluna til að auka sölulíkur á afurðinni.“

Nóg að gera í söltun.
Nóg að gera í söltun. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Það er ýmislegt sem kemur á óvart þegar maður kynnist aðstæðum betur að sögn Gunnars. „Það sem meðal annars hefur verið skrýtið fyrir svona aðkomumann eins og mig er að uppgötva að það er enginn byggðakvóti á Húsavík. Af því að við fórum yfir tvö þúsund manna markið í íbúafjölda var fjögur til fimm hundruð tonna byggðakvóti bara tekinn í burtu á sínum tíma.“

Telur hann einmitt ástæðu núna til þess að skoða hvort hægt sé að ráðstafa auknum kvóta til svæðisins til að styrkja atvinnustigið. Bendir Gunnar á að heldur lítil starfsemi sé á Bakka og verulegur samdráttur hafi orðið í ferðaþjónustu. „Öll umsvif í bænum hafa minnkað mjög mikið. Mér finnst þurfa að bregðast við með einhverri aðstoð.“

Styrkja heimabyggð

Það er vissulega ákveðin áskorun að stýra fyrirtæki sem er með starfsemi á fleiri stöðum að sögn Gunnars og kveðst hann reglulega koma við á starfsstöðvum fyrirtækisins, en sem betur fer er hægt að nýta fjarskiptatæknina til að leysa úr málum og tryggja samskiptin enda vegalengdirnar ekki sambærilegar og innan höfuðborgarsvæðisins. „Það eru 150 kílómetrar inn á Raufarhöfn. Maður hoppar ekki upp í bíl til að taka einn fund,“ segir Gunnar og hlær en GPG er með starfsstöðvar á Húsavík, Raufarhöfn og á Bakkafirði.

Hann segir bjart fram undan þrátt fyrir óvissu á mörkuðum. „Við erum búin að vera að byggja upp fína vinnslu á Raufarhöfn og höldum því áfram. Á Bakkafirði höfum við fjárfest töluvert undanfarið og ætlum að byggja það enn frekar upp. Bakkafjörður er hluti af átakinu brothættar byggðir og við ætlum að gera okkar besta í því að styrkja byggðina með öflugri vinnslu og útgerð á svæðinu. Síðan á Húsavík erum við að keyra saltfiskvinnsluna og þurrkunina eins mikið og við getum. Við viljum halda áfram að byggja fyrirtækið upp og styrkja heimabyggð.“

Von er á nýjum línubát frá Víkingbátum um áramótin, að sögn Gunnars. Nýi báturinn er talinn munu skila meiri veiðigetu og betri aflameðferð og mun þetta auka hráefnisöryggi. „Allt þetta vonumst við til að styrki okkar rekstur og byggðir á hverjum stað fyrir sig sem og styrki heildina hjá okkur í GPG Seafood.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 438,33 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 564,71 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 213,59 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,07 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 167,89 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 228,27 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 6,89 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Auður HU 94 Grásleppunet
Grásleppa 1.274 kg
Þorskur 214 kg
Rauðmagi 23 kg
Skarkoli 1 kg
Steinbítur 1 kg
Samtals 1.513 kg
24.4.24 Báran SI 86 Grásleppunet
Grásleppa 1.135 kg
Þorskur 241 kg
Ufsi 182 kg
Skarkoli 31 kg
Steinbítur 9 kg
Samtals 1.598 kg
24.4.24 Uggi VE 272 Handfæri
Þorskur 702 kg
Karfi 2 kg
Samtals 704 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 438,33 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 564,71 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 213,59 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,07 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 167,89 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 228,27 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 6,89 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Auður HU 94 Grásleppunet
Grásleppa 1.274 kg
Þorskur 214 kg
Rauðmagi 23 kg
Skarkoli 1 kg
Steinbítur 1 kg
Samtals 1.513 kg
24.4.24 Báran SI 86 Grásleppunet
Grásleppa 1.135 kg
Þorskur 241 kg
Ufsi 182 kg
Skarkoli 31 kg
Steinbítur 9 kg
Samtals 1.598 kg
24.4.24 Uggi VE 272 Handfæri
Þorskur 702 kg
Karfi 2 kg
Samtals 704 kg

Skoða allar landanir »