Fiskeldi sneri hnignun í sókn

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir töluverðan fjölda starfa hafa orðið …
Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir töluverðan fjölda starfa hafa orðið til í sveitarfélaginu við tilkomu fiskeldisins, bæði bein störf og afleidd störf og vísar til þess að nú þegar eru um 120 bein störf í fiskeldi í Vesturbyggð auk 30 starfa hjá Kalþörungafélaginu. mbl.is/Sigurður Bogi

Fiskeldi hefur haft verulega jákvæð áhrif á Vesturbyggð. Ekki bara hefur langvarandi hnignunarskeið verið stöðvað heldur bendir allt til áframhaldandi uppbyggingar og horfir sveitarfélagið fram á skort á íbúðarhúsnæði. Bæjarstjórinn Rebekka Hilmarsdóttir lítur framtíðina björtum augum.

„Við erum að sjá ákveðin merki meðal annars í íbúaþróuninni. Þegar maður tengir þessa íbúaþróun við atburði sem hafa verið að eiga sér stað frá því var hafist handa við að koma þessu fiskeldi á koppinn, þá sér maður að íbúafjöldinn sem var í frjálsu falli frá 1998 fer að breytast og íbúum fer að fjölga því atvinnutækifærin eru fleiri. Það er ekki hægt að fullyrða að hægt sé að rekja alla breytinguna til fiskeldisins en það er ljóst að fiskeldið setti af stað ákveðinn snjóbolta sem gerði það að verkum að íbúafjöldinn jókst og er stöðugt að aukast. Við sjáum mjög stórar breytingar bara á þessu ári sem er ótrúlega skemmtilegt,“ segir Rebekka.

Unnið við pökkun á laxi á Bíldudal, en eldið hefur …
Unnið við pökkun á laxi á Bíldudal, en eldið hefur skapað mörg störf. mbl.is/Helgi Bjarnason

Hún segir töluverðan fjölda starfa hafa orðið til í sveitarfélaginu við tilkomu fiskeldisins, bæði bein störf og afleidd störf og vísar til þess að nú þegar eru um 120 bein störf í fiskeldi í Vesturbyggð auk 30 starfa hjá Kalþörungafélaginu. „Ekki síst verða til fjölbreyttari atvinnutækifæri. Þetta er þannig atvinnugrein að það þarf fólk með mismunandi bakgrunn. Það eru fleiri sem flytja hingað og setjast að og skapast grundvöllur fyrir ýmiss konar þjónustu.“

Þá hefur aldurssamsetning íbúanna breyst mikið enda er yngra fólk að setjast að í Vesturbyggð í síauknum mæli, en því fylgja hæglega áskoranir að sögn bæjarstjórans. „Ungu fólki fylgja oft mörg börn sem er mjög ánægjulegt, en það hefur verið áskorun fyrir sveitarfélagið að taka við börnum í leikskóla og grunnskóla. Þetta eru samt allt mjög jákvæð verkefni að leysa úr.“

Kallar á fjárfestingar

Spurð hvort viðsnúningurinn hafi ekki haft jákvæð áhrif á tekjur sveitarfélagsins svarar Rebekka því játandi. „Jú, við sjáum kannski ýktustu breytinguna á hafnarsjóði sem var í áratugi rekinn með tapi.“ Þá hefur afkoma hafnarsjóðs undanfarin ár verið með ágætum en hún bendir á að tekjusamdráttur hefur orðið vegna kórónuveirufaraldursins enda komu reglulega skemmtiferðaskip til Vesturbyggðar. Fiskeldið heldur þó að mestu áfram að skila sínu.

„Svo höfum við séð auknar útsvarstekjur, en þær hafa ekki ekki aukist í takt við íbúaþróunina. Það er atriði sem við erum að vakta vel í þeim tilgangi að átta okkur betur á því hvað er um að vera þar. Við erum ekki með neina skýringu á þessu,“ segir hún.

Arctic Fish er með laxeldi í nokkrum fjörðum Vestfjarða.
Arctic Fish er með laxeldi í nokkrum fjörðum Vestfjarða. mbl.is/Helgi Bjarnason

Atvinnuuppbygging og íbúafjölgun kallar óneitanlega á aukna fjárfestingu í innviði sveitarfélagsins útskýrir bæjarstjórinn. „Við fórum í það með Eflu-verkfræðistofu að vinna innviðagreiningu fyrir sveitarfélagið og var hún unnin í samvinnu við hafsækin fyrirtæki á svæðinu. Þá var ekki bara verið að skoða hafnaraðstöðu heldur einnig svæði fyrir íbúabyggð, vegi, öll kerfi eins og fráveitukerfi, rafmagn og fleira. Þetta gagn nýtist okkur gríðarlega vel í því að setja upp áætlanir fyrir sveitarfélagið þannig að eðlileg þróun [fiskeldis]fyrirtækjanna geti gengið sem best, en auðvitað er fyrir lítið sveitarfélag mjög flókið og erfitt að fara í kostnaðarsamar og umfangsmiklar fjárfestingar. Þetta reynir oft á forgangsröðunina.“

Húsnæðisskortur

Fram kom í greiningunni að miðað við framtíðaráfrom fyrirtækja í sveitarfélaginu verða engar lausar lóðir á hafnarsvæðinu á Patreksfirði og Bíldudal, en á Bíldudal stefnir einnig í skort á leguplássi og almennu athafnasvæði. Lagt er meðal annars til að hafin verði vinna við að endurskipuleggja hafnarsvæðið á Patreksfirði og að sett verði í gang vinna við landfyllingu á hafnarsvæðinu á Bíldudal. Þá er einnig talin þörf á að auka framboð lóða undir athafnasvæði og skilgreina stærri iðnaðarsvæði nærri byggðakjörnunum.

Framboð lóða undir íbúðarhúsnæði er talið nægilegt hins vegar er skortur á íbúðarhúsnæði sem kallar á byggingu fjölbreyttra íbúða innan byggðakjarnanna, jafnframt er talin þörf á að flýta þurfi uppbyggingu ofanflóðamannvirkja í sveitarfélaginu þar sem svæði sem kunna að nýtast sem lóðir undir íbúðahúsnæði eru að hluta til á hættusvæðum.

Einn af fóðurprömmum Arctic Fish við sjókvíar á Patreksfirði, skammt …
Einn af fóðurprömmum Arctic Fish við sjókvíar á Patreksfirði, skammt frá þorpinu.

Það er hins vegar ekki einfalt mál að skyndilega ætla að hefjast handa, segir Rebekka. „Fyrir sveitarfélög eins og okkar þar sem var áður langvarandi niðursveifla, skapaðist veruleg uppsöfnuð viðhaldsþörf á mörgum stöðum. Það þarf grettistak að komast áfram en það hefur tekist vel til þessa í samstarfi við fyrirtækin.“

Svo reynir auðvitað á innviði sem er á forræði ríkisins segir bæjarstjórinn og vísar til samgöngumálanna. Við erum með eina sláturhúsið fyrir eldisfisk á Bíldudal og afurðirnar þurfa að komast af svæðinu á markað. Við erum kannski í ágætri stöðu með tilliti til þess að við erum með ferjuna yfir Breiðafjörð til þess að aðstoða okkur sérstaklega yfir vetrartímann þegar færð getur spillst mjög hratt, það er mikið af fjallvegum á svæðinu. En ástand veganna er mjög bágborið og þrátt fyrir ýmsar framkvæmdir sem standa yfir þá þarf meira að koma til.“

Löggjöfin ekki í takt

„Það eru ýmsar áskoranir í lagaumhverfinu sem sett hefur verið upp fyrir sveitarfélögin og fiskeldið. Mikið af þeim ákvæðum sem sveitarfélögum er gert að starfa eftir, eins og í hafnarlögum, eru samin fyrir sjávarútveg og fiskeldi er allt annars eðlis. Þetta er eitthvað sem þarf að lagfæra, því fiskeldið er komið til að vera,“ segir Rebekka sem telur fulla ástæðu til þess að fara í heildræna skoðun á lagaumhverfi sveitarfélaga með tilliti til áhrifa hafsækinnar starfsemi sem ekki er hefðbundinn sjávarútvegur. Þá sé það einnig í hag fiskeldisfyrirtækjanna að lagaramminn sé skýr, að sögn bæjarstjórans.

„Ég hef líka talað fyrir því að það yrði horft heildstætt á greinina þegar um er að ræða gjaldtöku, hvort sem það er af hálfu sveitarfélaga eða ríksins, þannig að umhverfi fyrirtækjanna væri þannig að þetta myndi ganga upp. Það vantar heildarsýn og vonandi verður farið markvisst í að laga þessa þætti,“ segir hún og svarar því játandi er hún er spurð hvort sveitarfélög þar sem fiskeldi fer fram ættu að fá aukna hlutdeild í gjaldtökunni.

„Við töluðum fyrir því þegar frumvarpið um fiskeldið var til umfjöllunar og hugmyndir um fiskeldissjóð lá fyrir þinginu. Vesturbyggð gagnrýndi þetta töluvert á þeim tíma. Þá vorum við að fást við gríðarlega kostnaðarsöm fjárfestingaverkefni og bentum á að fyrirkomulagið í Noregi er öðruvísi þar sem meirihluti tekna af þessari starfsemi rennur í auknum mæli til svæðanna þar sem fiskeldið er, meðal annars í þeim tilgangi að standa undir kostnaði sem fylgir uppbyggingu.

Þetta endaði þannig að komið var á fiskeldissjóði þar sem sveitarfélagið mitt þarf að berjast við önnur sveitarfélög um að fá einhverja fjármuni í uppbyggingu. Það hefur ekki komið reynsla á þetta og óvitað hversu miklir fjármunir er um að ræða, en við hefðum heldur kosið að sjá þetta gert með öðrum hætti,“ segir bæjarstjórinn.

Rebekka segir heilt á litið hefur fiskeldið haft jákvæð áhrif á Vesturbyggð. „Þessi mikla atvinnuuppbygging hefur haft mikil og jákvæð áhrif á íbúaþróun og krafturinn sem þessu öfluga fólki fylgir er gríðarlegur. Lífið í fiskeldisþorpunum er gott, þar er allt í botni!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »