Veiðar munu ekki standa undir stöðugri fólksfjölgun

Ásta Dís Óladóttir, dósent við viðskiptafræðideild HÍ, segir „eitt af …
Ásta Dís Óladóttir, dósent við viðskiptafræðideild HÍ, segir „eitt af því sem skiptir afar miklu máli í dag er sjálfbærni, að nýta auðlindir jarðar þannig að þær standi komandi kynslóðum til boða í ekki minna umfangi en núverandi kynslóðum.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Í haust kom út ný bók um sjávarútveg og fiskeldi í alþjóðlegu samhengi í ljósi fæðuöryggis framtíðarinnar og ber hún heitið Fisheries and Aquaculture: The Food Security of the Future.

„Þessi bók er sprottin úr íslenskum sjávarútvegi en segja má að mikilvægi sjávarútvegs hérlendis og þekking á þessari atvinnugrein geri það að skyldu okkar að miðla þeim fróðleik til annarra í heiminum,“ segir Ásta Dís Óladóttir, dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, en hún ritaði bókina ásamt Ágústi Einarssyni, fyrrverandi prófessor og rektor við Háskólann á Bifröst.

Bókin byggist á rannsóknum þeirra Ástu Dísar og Ágústs og fjallar meðal annars um breytingar sem hafa orðið í sjávarútvegi á undanförnum árum og áratugum og þær leiðir sem færar eru í greininni hvað varðar aukna sjálfbærni, hagkvæmari veiðar, vinnslu og fiskeldi, að sögn Ástu Dísar. „Markmiðið var að skrifa fræðibók sem myndi nýtast til kennslu og sem almennt fræðirit um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og sjávarútveg í heild sinni hér á landi og erlendis. [...] Sýnt er hvernig bæta má árangur fyrirtækja og landa á þessum sviðum, meðal annars með tækninýjungum og þar er Ísland mjög framarlega í heiminum. Bókin er ætluð þeim sem starfa í sjávarútvegi, stefnumótendum í greininni, fræðimönnum, háskólanemum og öllum þeim sem áhuga hafa á þróun sjávarútvegs til framtíðar,“ útskýrir hún.

Kápa bókarinnar Fisheries and Aquaculture.
Kápa bókarinnar Fisheries and Aquaculture.

Spurð hvernig það kom til að ákveðið var að gefa bókina út, svarar Ásta Dís: „Þetta byrjaði þegar ég var fengin til þess að endurvekja kennslu í rekstri í sjávarútvegi við Háskóla Íslands. Þegar ég kem inn 2017 hafði þetta ekki verið kennt síðan Ágúst gerði það, mörgum árum áður. [...] Í samtali við ýmsa aðila hér á landi og erlendis kom í ljós að það voru eiginlega engar bækur á ensku til sem nálgast sjávarútveginn í víðara samhengi. Þannig raunar kom þessi hugmynd að útskýra hvað við höfum verið að gera í sjávarútvegi í samanburði við aðrar þjóðir.“

Betri stjórnun veiða og aukið eldi

Hún segir mikilvægi sjálfbærni og tækniframfarir í veiðum og vinnslu gegna lykilhlutverki í bókinni. „Eitt af því sem skiptir afar miklu máli í dag er sjálfbærni, að nýta auðlindir jarðar þannig að þær standi komandi kynslóðum til boða í ekki minna umfangi en núverandi kynslóðum. Við verðum að fara vel með það sem við höfum í höndunum og nýta hvern fisk ef svo má segja til hins ýtrasta. Flök og bitar eru verðmæt afurð en í dag eru það ekki síður hliðarafurðir, prótín og ensím sem skipta máli og skila verðmætum. Ég nota stundum í kennslunni hjá mér dæmið um þorskinn sem er kominn í yfir 90% nýtingu og gæti farið hærra, meðal annars nýtingu slógs í lýsisframleiðslu, en Íslendingar eru að gera vel á þessu sviði og við getum flutt þá þekkingu betur út.“

Ásta Dís bendir á að talið er að um þriðjungur allra framleiddra matvæla eyðileggist í framleiðslu eða í dreifingu og þegar matvælum er fargað þegar þau eru komin yfir síðasta söludag. „Þegar litið er til þessara matvæla sem hent er þá eru það ekki bara matvælin sem eru að eyðileggjast heldur tapast allt sem lagt var í framleiðsluna og dreifinguna, eins og mannleg vinna, vatn og orka. Þarna verður gífurleg sóun og það er mjög brýnt að framleiðendur og seljendur matvæla bæti þetta ferli.

Um 10% af þeim hitaeiningum sem mannkynið neytir eru talin koma frá sjávarfangi að sögn Ástu Dísar sem segir að það þurfi fyrst og fremst betri stjórnun veiða og aukið eldi ef hlutdeild sjávarfangs eigi að vaxa.

„Fiskeldi hefur vaxið hratt á undanförnum árum og það þarf að auka það enn meir ef við eigum að geta fætt mannkynið því veiðar munu ekki standa undir stöðugri fólksfjölgun. Því getum við sagt að það sé fyllilega raunhæft að gera ráð fyrir að fiskeldi aukist enn frekar. Vöxturinn er þó takmörkunum háður, meðal annars vegna fæðu fyrir eldisfisk, rétt eins og höf, vötn og ár hafa sínar takmarkanir eins og komið hefur í ljós á undanförnum áratugum. Til viðbótar þessu má nefna vandamál eins og aukin gróðurhúsaáhrif, hlýnun jarðar og vaxandi mengun á landi og í sjó, sem er meðal annars tengd vaxandi fiskeldi. Þess vegna þurfum við að vanda okkur vel. Deilur eru uppi um hvort eldi eigi að vera í sjókví eða í landeldi og þessa þætti þarf að skoða til hlítar, hvaða leiðir koma best út með tilliti til sjálfbærni, að við skilum jörðinni og auðlindum hennar af okkur í betra ásigkomulagi en við tókum við.“

Fiskeldið er talin mikilvæg viðbót við hefðbundnar veiðar.
Fiskeldið er talin mikilvæg viðbót við hefðbundnar veiðar. mbl.is/Helgi Bjarnason

Öðrum til eftirbreytni

Vegna þessa telur hún brýnt „að þjóðir heims horfist í augu við alvarleg fæðuvandmál í heiminum og forgangsraði í þeirra þágu og Íslendingar gætu vafalítið lagt meira til á alþjóðavettvangi í umræðunni um fæðuöflun framtíðarinnar, einkum hvað varðar sjávarfang, vegna þess að hér hefur verið rekinn arðbær sjávarútvegur sem hefur skilað miklum verðmætum til sameiginlegra verkefna. Þannig hefur sjávarútvegur hér verið gefandi en ekki þiggjandi eins og raunin er víða í hinum vestræna heimi og Íslendingar hafa náð miklum árangri í fullnýtingu sjávarafurða sem ætti að verða öðrum þjóðum til eftirbreytni.“

Samkvæmt tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur lítil breyting orðið á heildarmagni sjávarafurða sem framleiddar eru með veiðum á villtum stofnum frá aldamótum. Árið 2000 veiddust 85 milljónir tonna á heimsvísu úr sjó en árið 2018 voru veiddar 84 milljónir tonna. Á sama tímabili fór eldi í sjó úr því að framleiða 14 milljónir tonna í 31 milljón tonna, en það er rétt rúmlega 114% vöxtur.

Ef litið er til veiða í ferskvatni nam heildarafli 9 milljónum tonna árið 2000 og 12 milljónum árið 2018. Á sama tíma jókst ferskvatns- og landeldi um rúm 168% úr 19 milljónum tonna í 51 milljón tonna. Samanlagt framleiddi allt eldi í heiminum 82 milljónir tonna, sem er um 46% af öllu framleiddu sjávarfangi að sjávarspendýrum, krókódílum og þangi og öðrum sjávarplöntum undanskildum.

„Þar sem fiskeldi er þegar orðið eins mikið og raun ber vitni vaknar sú spurning hvort fiskeldi geti leyst hluta af fæðuvanda framtíðarinnar og hugsanlega stutt enn betur við veiðar á villtum fiski því það er jú takmörkuð auðlind. Það er nauðsynlegt að ná jafnvægi á markaði og það jafnvægi ræðst af hagkvæmni eins og raunin er í öðrum efnahagslegum ákvörðunum,“ segir Ásta Dís.

Náið samstarf fyrirtækja

Eins og fyrr segir er tækniþróun einn þeirra þátta er bókin fjallar um. „Sú mikla tækniþróun sem er að eiga sér stað byggist meðal annars á fjórðu iðnbyltingunni. Náið samstarf tæknifyrirtækja á borð við Völku, Skagann 3X, Marel og fleiri fyrirtæki við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hefur ýtt undir mun hraðari þróun, meðal ananrs í fiskvinnslu og meðferð afla, en annars hefði orðið.

Íslenskur markaður er líklega sá besti í heiminum til að stunda nýsköpun og tækniþróun, vegna þess að fyrirtækin vinna mjög vel saman að þróuninni. Með því fæst gríðarleg þekking hjá tæknifyrirtækjunum, sem síðan er flutt úr landi og til ýmissa landa, sem gerir það að verkum að erlendar þjóðir hafa náð að byggja hraðar upp sinn sjávarútveg en ella,“ segir Ásta Dís.

Hún segir að áður fyrr hafi fólk sem starfaði í vinnslum verið stutt af vélum en að sú staða sé að breytast og er starfsfólk í auknum mæli í aukahlutverki eftir því sem hugbúnaður tekur við stuðningshlutverkinu. „Í framtíðinni verður mannshöndin hvergi nærri og lausnir í fiskvinnslu verða byggðar á upplýsingatækni og gervigreind. Þá hefur krafan um rekjanleika aukist á undanförnum árum og staðan er orðin þannig að víða er hægt að segja hvar tiltekinn þorskur var veiddur, á hvaða miðum, í hvaða kasti og svo framvegis.“

Mikil viðurkenning

Ásta Dís segir töluverðan áhuga vera á bókinni, meðal annars að nýta hana í kennslu erlendis auk þess sem alþjóðastofnanir hafa pantað eintök. „Það hefur vantað svona bók á erlendum markaði.“

Spurð hvaða merkingu það hefur að bókin sé gefin út fyrir alþjóðlegan markað, svarar hún: „Það að svona virt forlag eins og Academic Press innan Elsevier skuli strax hafa sýnt því mikinn áhuga að gefa út svona bók sýnir okkur að Ísland er afar framarlega sem sjávarútvegsland og viðurkennt sem slíkt. Við unnum með mjög mörgum aðilum og margir af okkar þekkstustu og færustu vísindamönnum á þessu sviði lásu yfir fjölmarga kafla í bókinni. Þá fékk Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti og núverandi formaður Norðurslóða, handritið þegar það var komið nokkuð langt og hann skrifaði inngangsorðin að bókinni, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur þar sem orð Ólafs Ragnars vega þungt á alþjóðavísu, sér í lagi í tengslum við Norðurslóðir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.23 514,35 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.23 473,01 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.23 450,03 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.23 391,31 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.23 236,16 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.23 314,12 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 27.1.23 237,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.3.23 213,00 kr/kg
Gullkarfi 27.3.23 392,10 kr/kg
Litli karfi 27.3.23 0,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.3.23 Bárður SH-081 Þorskfisknet
Þorskur 1.318 kg
Ýsa 190 kg
Langa 177 kg
Skarkoli 40 kg
Ufsi 38 kg
Steinbítur 4 kg
Sandkoli 4 kg
Samtals 1.771 kg
27.3.23 Þura AK-079 Handfæri
Þorskur 517 kg
Samtals 517 kg
27.3.23 Daðey GK-777 Lína
Þorskur 2.433 kg
Langa 180 kg
Ýsa 155 kg
Samtals 2.768 kg
27.3.23 Geirfugl GK-066 Línutrekt
Langa 879 kg
Karfi 67 kg
Ufsi 8 kg
Samtals 954 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.23 514,35 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.23 473,01 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.23 450,03 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.23 391,31 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.23 236,16 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.23 314,12 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 27.1.23 237,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.3.23 213,00 kr/kg
Gullkarfi 27.3.23 392,10 kr/kg
Litli karfi 27.3.23 0,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.3.23 Bárður SH-081 Þorskfisknet
Þorskur 1.318 kg
Ýsa 190 kg
Langa 177 kg
Skarkoli 40 kg
Ufsi 38 kg
Steinbítur 4 kg
Sandkoli 4 kg
Samtals 1.771 kg
27.3.23 Þura AK-079 Handfæri
Þorskur 517 kg
Samtals 517 kg
27.3.23 Daðey GK-777 Lína
Þorskur 2.433 kg
Langa 180 kg
Ýsa 155 kg
Samtals 2.768 kg
27.3.23 Geirfugl GK-066 Línutrekt
Langa 879 kg
Karfi 67 kg
Ufsi 8 kg
Samtals 954 kg

Skoða allar landanir »