Það var tilfinningaþrungin stund á hafnarbakkanum í Sundahöfn í Reykjavík í gærkvöldi er Brúarfoss, nýsmíði Eimskips, kom í fyrsta sinn til hafnar á Íslandi. Skipið lagði frá bryggju í Guangzhou í Kína þann 13. október og hefur áhöfnin því verið 44 daga á leiðinni.
Vegna leiðindaveðurs í gærkvöldi var ekki haldin hefðbundin athöfn við komuna og vegna sóttvarnareglna gátu fjölskyldur ekki staðið á hafnarbakkanum til að fagna heimkomu ástvina sinna, heldur þurfti aðstandendur að bíða aðskildir í bílum sínum.
Þrátt fyrir þessar heldur óvenjulegu aðstæður var auðsjáanleg gleði á bryggjunni enda fékk áhöfnin að heilsa sínu fólki þar sem hún var ekki í sóttkví, andstætt því þegar nýr Dettifoss kom til landsins í júlí.
Brúarfoss stoppar stutt og mun bráðlega halda til Nuuk á Grænlandi.