Eflaust hefur minkurinn, sem á dögunum sást stökkva frá borði dragnótabátsins Aðalbjargar RE 5 í Reykjavíkurhöfn, verið í ætisleit.
Hvort honum varð ágengt liggur ekki fyrir, en Aðalbjörgin lá við trébryggjuna fyrir neðan Slysavarnafélagshúsið vestur á Granda og skeytti minkurinn lítt um umferðina við höfnina. Áður en hann stökk í land spókaði hann sig á lunningunni í leit að góðum lendingarstað. Stefán Einarsson útgerðarmaður segir að hann hafi áður fengið mink um borð í Aðalbjörgina og dýrið sé ekki lengi að finna ef einhvers staðar liggi kolablað á dekkinu.
Alltaf annað slagið fréttist af mink á þessum slóðum og virðist vera nóg æti fyrir minkinn, bæði fugl og fiskur í og við höfnina. Í grjótvörninni við sjóinn, meðfram Skúlagötu, Grandagarði, Örfirisey og Fiskislóð, er auðvelt fyrir minkinn að fela sig og segir Guðmundur Björnsson, rekstrarstjóri meindýravarna hjá Reykjavíkurborg, að erfitt sé að eiga við minkinn þar. Þegar hann fari á stjá fréttist hins vegar oft af honum og ekki séu nema 2-3 vikur síðan hann náði mink á Grandagarði.