„Frábið mér slíkan rakalausan þvætting og dylgjur“

Stefán Guðmundsson á Húsavík er vanur grásleppusjómaður og telur töluverðan …
Stefán Guðmundsson á Húsavík er vanur grásleppusjómaður og telur töluverðan stuðning ver við kvótasetningu í grásleppu og gagnrýnir formann og framkvæmdastjóra fyrir að gefa annað í skyn. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Hart er deilt meðal félagsmanna Landssambands smábátaeigenda (LS) um hvort eigi að styðja frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegsráðherra, um að koma á kvótakerfi fyrir grásleppuveiðar og ganga ásakanir um sérhagsmunagæslu á víxl.

Stefán Guðmundsson, einn félagsmanna LS, kveðst í pistli sem hefur verið birtur á vef sambandsins ósáttur við framgöngu Þorláks Pálssonar, formanns LS, og Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra LS, í málinu.

Þá telur Stefán að forysta sambandsins hafi gengið of hart fram gegn kvótasetningu með tillit til þess að félagsmenn eru klofnir í afstöðu sinni til málsins og eru formaður og framkvæmdastjóri sakaðir um að reka „grímulausa einstefnupólitík“ í málefnum grásleppuveiða.

Sakaðir um að hlaupa undan merkjum

Tilefni pistils Stefáns virðist vera pistill sem Þorlákur skrifaði á vef sambandsins þar sem hann hvatti til samstöðu og gagnrýndi félagsmenn fyrir að una ekki niðurstöðu atkvæðagreiðslu á aðalfundi LS 2019.

Þorlákur Halldórsson.
Þorlákur Halldórsson. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Á þeim 35 árum sem LS hefur starfað, er teljandi á fingrum annarrar handar, að einstaka félagsmenn hafi ekki axlað félagslega ábyrgð.  Hlaupið undan merkjum eins og sagt er, tekið sérhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni.  Einkenni slíkra frumhlaupa er að ómerktir finna hljómgrunn fyrir skoðunum sínum hjá einstökum alþingismönnum, jafnvel að ráðherra komi þar nærri,“ skrifar Þorlákur.

Jafnframt sakar formaðurinn ónefnda félagsmenn LS um að hringja í aðra félagsmenn og hræða þá til að styðja frumvarpið með því að telja þá trú um að lokað verði á útflutning til Bandaríkjanna nema kvótasetning fari fram.

Bendir á formanninn

„Þorlákur Halldórsson formaður - ég sem félagsmaður; frábið mér slíkan rakalausan þvætting og dylgjur, sem þú setur fram í nýjum pistli á vef LS. Þar leggur þú bæði okkur og ráðherra orð í munn sem fá ekki staðist frekari skoðun.  Það setur þig skör neðar í embætti og trúverðugleika. Þú ert sá sem hleypur undan merkjum og veldur allri þeirri sundrung sem þér er tíðrætt um,“ svarar Stefán í sínum pistli.

Stefán viðurkennir fúslega að hafa tekið þátt í að safna undirskriftum við frumvarp sjávarútvegsráðherra. „Þó ekki væri nema bara fyrir þær sakir að fá frumvarpið til efnislegrar umræðu í Alþingi.  Án þess kæmumst við hvorki lönd né strönd með einhverja niðurstöðu.  Vægt til orða tekið, voru undirtektir framar öllum okkar villtustu vonum og ekki ólíklegt að rúm 80% svarenda hafi stutt við frumvarpið. Skilaboðin skýr:  Dagakerfið hefur gengið sér til húðar.“

Einstefnupólitík

Stefán bendir á að aðeins hafi munað tveimur atkvæðum á síðasta aðalfundi LS er tekin var afstaða til kvótasetningu í grásleppu. Hins vegar hafi í kjölfarið verið birt færsla á vef sambandsins undir fyrirsögninni „Afgerandi meirihluti félagsmanna á móti aflamarki í grásleppu“.

Grásleppulöndun á Árskógssandi.
Grásleppulöndun á Árskógssandi. mbl.is/Þorgeir

„Hið rétta var að tveimur atkvæðum munaði í atkvæðagreiðslum. […] Framkvæmdastjórinn tók vel í ábendingu undirritaðs en allt kom fyrir ekki. Engin breyting gerð.“ skrifar Stefán og segir „ítrekað hefur ráðherra sjávarútvegsmála fengið blammeringar frá framkvæmdastjóra og formanni LS í ræðum og riti frá þessum tíma.  Á sama tíma hefur formaður atvinnuveganefndar verið hafinn upp til skýjanna.  Merkileg pólitík til tveggja ríkisstjórnarflokka og ekki vænleg til árangurs.“

Telur hann töluverðan stuðning við kvótasetningu og vísar til könnun sem framkvæmd var af Gallup meðal þeirra sem höfðu mesta hagsmuni af grásleppuveiðum og stundað þær umfram aðra. Þar hafi komið í ljós 53% stuðningur við frumvarp sjávarútvegsráðherra, að sögn Stefáns.

Inn um bakdyrnar

Þá sakar hann framkvæmdastjóra og formann LS um að „læðast“ inn á aðalfundi svæðafélaga til þess að afla fylgi við afstöðuna gegn frumvarpinu.

„Síðast fórstu bakdyramegin inn hjá hreinræktuðum strandveiðimönnum í Þorlákshöfn. Fyrsta lína í þeirra ályktun aðalfundar var að lýsa andstöðu við aflamark grásleppu.  Ekki sérstaklega til að vera á móti þeirri tegund veiðistjórnunar  - heldur aðallega til að passa eigin hagsmuni í strandveiðunum og ímynduðum afleiðingum í bátafjölda. Gæta eigin „sérhagsmuna“ allan hringinn og fara gegn okkar hagsmunum í grásleppunni.“

Þá segir Stefán að lokum dapurt að horfa eftir fólki sem hafa sagt skilið við LS að undanförnu og kveðst hann eiga von á frekari úrsögnum vegna „axarskapta“ formannsins og framkvæmdastjórans.  „Dreg orðið stórlega í efa að þið séuð vandanum vaxnir í þessu tiltekna máli.  Skrif þín bera þess glöggt merki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »