Línubáturinn Kristinn HU, sem er gerður út frá Skagaströnd og Ólafsvík, gerði það gott í desember og kom með 288 tonn að landi og aflaverðmætið var 109 milljónir króna.
Þorsteinn Bárðarson, annar tveggja skipstjóra Kristins og útgerðarmaður, segir þetta metmánuð í sögu útgerðarinnar sem var stofnuð árið 1997. Aldrei áður hafi Kristinn landað jafn miklum afla, að sögn Þorsteins. Á síðasta ári nam heildaraflinn 1.769 tonnum og aflaverðmætið 556 milljónir.
Það sem gerði þetta háa aflaverðmæti í desember mögulegt var erfitt tíðarfar og skortur á fiski á mörkuðum. Fiskverð var þar af leiðandi mjög gott, en allur afli úr Kristni fer á fiskmarkað Snæfellsbæjar.
„Við gátum verið í skjóli af landi í norðanáttunum sem var ríkjandi vindátt nánast allan mánuðinn sunnan við jökul þar sem veiði var góð og við lönduðum á Arnarstapa. Stærsta löndunin var 18,5 tonn hjá okkur,“ segir Þorsteinn og nam meðalverð 378 krónum í desember.
Þá telur hann að hægt hafi verið að ná þessum árangri vegna alls þess góða og dugmikla starfsfólks sem stendur að baki útgerðinni. „Fólkið í beitningunni, pabbi á balabílnum og að sjálfsögðu sjómennirnir sem eru hörkudrengir. Öll þessi heild hefur verið tilbúin að leggja meira á sig en hægt er að ætlast til, og það ber að þakka fyrir.“