Olía hefur ekki tekið að leka úr fóðurpramma Laxa fiskeldis ehf. sem sökk í Reyðarfjörð í hvassviðri um helgina. Um borð eru um tíu þúsund lítrar af olíu.
Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis ehf., segir að hann telji ekki miklar líkur á að olía leki í sjóinn í miklu magni.
„Það var kafað niður á prammann í dag, fyrsta köfun og stöðutaka. Það lekur engin olía úr honum og á morgun verður haldið áfram að meta ástandið og fulltryggja að engin olía geti mögulega lekið úr honum. Eftir það mat verður farið í að skoða næstu skref varðandi björgun,“ segir Jens.
„Eins og pramminn er útbúinn og miðað við það að við ætlum að loka öllum mögulegum smitleiðum fyrir olíu úr prammanum ætlum við að fulltryggja að olía komist ekki úr honum á næstu dögum eða vikum,“ segir Jens.
Varðskipið Þór var til taks þegar pramminn fór að sökkva. Sjósetti áhöfnin léttabát Þórs og hafði öflugar sjódælur meðferðis. Þegar áhöfnin á Þór kom á staðinn var ekkert hægt að gera. Pramminn var þá orðinn fullur af sjó.
Þór hefur yfirgefið svæðið og siglir nú við landið norðanvert.