Síðasta ár var erfitt í rekstri Slippsins á Akureyri og háði verkefnaskortur starfseminni seinustu þrjá mánuði ársins. Heldur hefur ræst úr og nú eru frystitogarinn Blængur frá Neskaupstað og Masilik, 52 metra togari frá Royal Greenland, í slipp á Akureyri.
Eiríkur S. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri, segir að verkefnastaðan sé þokkaleg á næstunni, en fyrirtækið geti þó bætt við sig fleiri verkefnum. Alls starfa um 160 manns hjá fyrirtækinu.
Í umfjöllun um mál Slippsins í Morgunblaðinu í dag segir Eiríkur að stóra myndin sé sú að skipaflotinn við Norður-Atlantshaf hafi á undanförnum árum gengið í gegnum mikla endurnýjun samhliða mikilli fækkun, en hagræðing og hagkvæmni felist m.a. í því að gera út nýrri og færri skip. „Með nýrri og færri skipum fækkar hefðbundnum viðhaldsverkefnum og við og aðrir sem erum í þessari grein þurfum að finna önnur verkefni eða nýjar stoðir undir reksturinn.