Fiskmarkaðir fara vel af stað á fyrstu tólf dögum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Hafa um 3.860 tonn farið um markaðina á tímabilinu og nemur verðmæti þeirra 1.125 milljónum króna. Hefur magnið aukist um 219% og veltan um 131% milli ára, en um 1.208 tonn fóru um markaðina á fyrstu tólf dögum ársins 2020 og nam veltan 487 milljónum króna, segir í gögnum Reiknistofu fiskmarkaða.
Þá nam meðalverð á kíló af þorski sem seldur var á fiskmörkuðum fyrstu tólf daga síðasta árs 527,24 krónum en meðalverð á sama tímabili í ár var 353,06 krónur á kíló og dróst þannig saman um 33%. Sala á þorski jókst hins vegar um 336% milli ára.
Líklega hafa veðurskilyrði veiða mikið að segja en það var stöðug ótíð í desember 2019 og vel fram á vetur 2020. Varð þetta til þess að skortur myndaðist á mörkuðum sem um sinn ýtti undir hagstætt verð.
Þá jókst framboð af ýsu um 198%, skarkola um 39%, ufsa um 63% og gullkarfa um 453%. Á sama tíma lækkaði verð á hvert kíló á ýsu um 39%, ufsa um 19% og gullkarfa um 41%. Verð hækkaði hins vegar á skarkola um 7%.